13.04.1978
Efri deild: 78. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3373 í B-deild Alþingistíðinda. (2515)

Umræður utan dagskrár

Ragnar Arnalds:

Herra forseti: Ég verð að segja alveg eins og er, að harla lítið var að græða á svörum hæstv, forsrh. við þeim spurningum sem ég lagði fyrir hann áðan. Mér fannst satt að segja, að ræða hans áðan beindist fyrst og fremst að því að drepa kjarna þessa máls sem mest á dreif. Hann eyddi t. d. lögnum tíma í það í upphafi máls síns að reyna að telja þm. trú um að við Alþb. -menn hefðum engan áhuga á framgangi þessara mála, viðurkenndi að vísu að við hefðum flutt till. í þingbyrjun um skipun nefndar, en við hefðum ekki fengið hana afgreidda og væri það okkar sök, — við hefðum ekki fengið hana afgreidda úr n. Það þurfti ekki frekar vitnanna við um áhugaleysi okkar.

Að sjálfsögðu er það staðreynd málsins, að við höfum ýtt á eftir því, að þessi till. yrði tekin til afgreiðslu og samþykkt í þinginu. En það gildir hið sama um þetta mál okkar og svo fjöldamörg önnur mál, sem við höfum flutt í þinginu, og reyndar flestöll, að stjórnarþm. leggjast á þau og svæfa eftir gamalkunnum aðferðum, þannig að þau eru ekki teknir til afgreiðslu og n. skila ekki áliti sínu um þau, hvorki jákvæðu né neikvæðu. Við erum því hvað snertir þessa till. í nákvæmlega sömu klemmunni og í mörgum öðrum málum, að núv. þingmeirihluti virðist hafa einsett sér að afgreiða helst alls enga till., hvorki góða né vonda, sem frá núv. stjórnarandstöðuþm. kemur.

Hæstv. forsrh. gaf í skyn í ræðu sinni áðan, að þingfl. Alþb. hefði fengið tilmæli um að skipað yrði í viðræðunefnd flokkanna og því hefði raunverulega staðið á þingfl. Alþb. í þessum efnum í allan vetur. Ég get upplýst, að ég var kosinn formaður þingfl. Alþb. 25. nóv. s. l. og ég kannast ekki við að þingfl. hafi fengið ein eða nein tilmæli um að skipa menn í þessa nefnd. Við ræddum þetta mál einmitt í vetur á fundi, og þar sem ekkert lá fyrir um það, hvort heldur í þessari nefnd ættu að vera einn eða tveir fulltrúar, þá töldu við að ógerningur væri fyrir okkur að taka ákvörðun um það, hverjir yrðu í þessari nefnd af okkar hálfu. Ég vildi leyfa mér að spyrja hæstv. forsrh., úr því að hann er með fullyrðingar af þessu tagi, hvort hann geti upplýst mig um það, hversu margir nm. hafi átt að vera í þessari nefnd sem hann er að ræða um að samkomulag hafi verið um að skipa. Átti að vera einn maður frá hverjum flokki eða tveir menn frá hverjum flokki, eða áttu kannske að vera þrír menn frá sumum flokkum og tveir frá öðrum og einn frá þeim minnsta, eins og er í mörgum tilvikum? Mér þætti vænt um að hann upplýsti mig um það, hvernig fyrirkomulag þessara mála átti að vera. Hvaða ákvarðanir voru teknar um þetta efni, ef einhverjar voru, og hvenær þær voru teknar? Ég kannast ekki við að neinar slíkar ákvarðanir hafi verið teknar milli flokkanna. Það er einmitt af þeirri ástæðu sem við mættum, hv. þm. Lúðvík Jósepsson og ég, til viðræðna um þessi mál s. l. föstudag án þess að þingfl. hefði skipað nokkurn fulltrúa af sinni hálfu til viðræðna um þetta mál.

Í máli hæstv. forsrh. kom fram, að það virtist vera álit þingfl. Alþb., að ekki væri unnt að gera neinar breytingar, sem að gagni mættu koma, á reglum um úthlutun uppbótarþingsæta. Var að sjá að hann læsi þetta út úr þeirri samþykkt sem við höfum gert og ég gerði grein fyrir í upphafi þessara umr. Ég vil leiðrétta þennan misskilning. Það er ekkert í samþykkt þingfl. Alþb. sem bendir til þess, að við teljum með öllu útilokað að gera breytingu á úthlutun uppbótarsæta, svo að gagni megi koma. Það kemur hvergi fram. Það eitt hefur komið fram, að þær till. og frv., sem fram hafa komið um þessi efni, séu ófullnægjandi og raunar út í hött, geri ekki það gagn sem þeim er ætlað. Það er það eina sem liggur fyrir, en hvort einhverjar aðrar breytingar á ákvæðum laga um úthlutun uppbótarþingsæta gætu komið að gagni er mál sem við höfum ekki tekið afstöðu til og gerum væntanlega ekki fyrr en það mál hefur verið rætt meira og athugað betur.

Ég hef lýst skoðun minni á því við umr. um hliðstæð mál í þinginu í vetur, hvernig hyggilegast sé að leysa þessi mál, en ég viðurkenni að margar aðrar leiðir koma til greina og ég sé enga ástæðu til að fjölyrða um þessa persónulegu skoðun mína fyrr en þessi mál hafa verið rædd betur og menn hafa raunverulega skipst á skoðunum um það efni í viðræðum á milli flokkanna. Það er aðalatriði málsins, að skapaður sé einhver vettvangur til umr. og viðræðna milli flokkanna um þetta mál, því sá vettvangur er ekki til í dag. Stjskrn. var ætlað að vera sá vettvangur öðrum þræði, þó að ljóst væri að hún hefði um margt annað að fjalla og gæti því ekki einbeitt sér alveg sérstaklega að úrlausn þessara mála, en það er löngu orðið sýnt, að stjskrn. gegnir ekki því hlutverki sem henni var ætlað. Hún heldur svo sjaldan fundi, að ekkert útlit er fyrir að hún muni skila af sér í náinni framtíð. Ég get upplýst að það mun meira en ár liðið síðan seinasti fundur nefndarinnar var haldinn, og samtals hefur þessi nefnd ekki haldið nema 8 eða 9 fundi síðan hún var kosin árið 1972. Menn geta þá rétt ímyndað sér af þessum upplýsingum að þess muni nokkuð langt að bíða, að hún skili endanlegum till. um þetta efni. Ef eitthvað á að þokast í þessum efnum verður annaðhvort að endurnýja stjskrn, og gefa henni nýtt umboð og nýjan kraft eða setja sérstaka nefnd til að ræða þessi mál. Miðað við allar aðstæður, þá er það till. okkar Alþb.- manna, sem fólgin er í samþykkt þingfl. sem ég gerði grein fyrir í upphafi þessara umr., að þetta verði gert, flokkarnir komi sér saman um að setja sérstaka nefnd til að ræða þessa hlið hugsanlegra stjórnarskrárbreytinga, því að ég lít svo á að engin nefnd sé enn starfandi um þessi mál. Ég lít ekki svo á, að sá hópur, sem kom saman til að skiptast á skoðunum í 40 mín. um þessi efni s. l. föstudag, sé formleg nefnd af hálfu stjórnmálaflokkanna, því ég veit ekki til þess að nokkurn tíma hafi verið ákveðið hversu margir ættu að sitja í þessari nefnd, hve margir af hálfu hvers flokks.

Ég verð svo að láta í ljós óánægju mína með það, hve lítið var að græða á svörum hæstv. forsrh. Í ljós kom í máli hans, að ríkisstj. hefur eftir fund sinn í morgun ekkert til málanna að leggja og því miður var ekki hægt að greina neina sérstaka afstöðu hæstv. forsrh. til þeirrar till. sem við höfum lagt fram, á þessu stigi málsins. Hann mælti ekki beinlínis á móti þessari till. okkar, en ekki heldur með henni. Það kann að vera ástæðan, að hann vilji ræða það mál betur við þingflokk sinn, og er þá hugsanlega von á því að skýrari afstaða liggi fyrir innan tíðar. Ef hins vegar ekki tekst neitt samkomulag milli flokkanna um skipun nefndar af þessu tagi, þá getur vel komið til mála að við Alþb.-menn flytjum um það sérstaka till. í þinginu, svo að á það reyni.