01.11.1977
Sameinað þing: 11. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 330 í B-deild Alþingistíðinda. (253)

311. mál, sjónvarp

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég verð að segja það, að ég varð einu sinni enn fyrir vonbrigðum með hvernig þessi mál standa. Ég man ekki betur en það séu 5 ár síðan mér var sagt á skrifstofu Ríkisútvarpsins að það stæði til að byggja stöðvar í Hörgárdal og Öxnadal. Ég held að á hverju ári síðan hafi ég farið til þeirra og hafi fengið svipuð svör, að á næsta ári hlyti þetta að verða gert. Það komu menn að norðan, sem eru orðnir langþreyttir á þessu máli, seint í fyrravetur, og fór ég með þeim til fjármálastjóra Ríkisútvarpsins. Þá var okkur sagt að á haustdögum yrði þetta gert. En nú heyri ég það hjá hæstv. menntmrh., að honum hafi verið tjáð að þetta sé á áætlun næsta ár: Ég vona að sagan endurtaki sig ekki, að á næsta ári verði svörin að þetta verði kannske á næsta ári. Ég held að það verði að gera eitthvert átak í þessu máli. Í þessu tilviki eru 20 notendur í þremur hreppum sem hafa annaðhvort mjög lélegt eða ekkert sjónvarp, og öll þessi ár hefur mér verið tjáð að þarna muni vera í raun og veru einn stærsti hópurinn sem biður eftir lagfæringu á þessu máli. Ég vil sem sé undirstrika það, að nú er þolinmæði mín að þrjóta að þessu leyti.

Pétur Sigurðsson: Herra forseti. Það er fjálglega talað hér um að það skorti á að séð sé fyrir sjónvarpi á nær 400 sveitabæi. En það er ekki látið fylgja með að kostnaður við að koma sjónvarpi á suma þessa bæi er líklega meiri en að flytja bæina: húsakynnin, íbúana og kannske stóran hluta jarðanna sjálfra — í átt til sjónvarpsstöðvanna. Ég held að fólk verði að vera raunsætt og horfast í augu við að það er okkur fjárhagslega ómögulegt að koma sjónvarpi á alla bæi. Það er nákvæmlega sama og ég hef fyrir löngu séð, að þó að ég vildi gjarnan koma sjónvarpi til þeirra skipa, sem eru á fiskimiðunum kringum landið, og það sé tæknilega mögulegt, þá er það svo dýrt í framkvæmd að það er ekki hægt.

Ég flutti hins vegar fyrir nokkrum árum till. um það hér á hv. Alþ. í sambandi við afgreiðslu fjárl., að hæstv. fjmrh. fengi heimild til að fella niður aðflutningsgjöld og söluskatt af myndsegulböndum sem notuð væru um borð í íslenskum fiskiskipum, og það gæti að sjálfsögðu átt við afskekkta sveitabæi líka. Er þá hægt að taka upp a.m.k. vikulega útdrátt allra frétta og fleira til þess að gefa þessum aðilum möguleika á því að njóta hins besta sem úr íslenska sjónvarpinu kemur. Að vísu voru þeir báðir þá sammála í því, hæstv. fjmrh. og hæstv. menntmrh., að fella þessa till. mína. En hún mun verða endurflutt við afgreiðslu fjárlagafrv. sem liggur fyrir þinginu núna, og vænti ég að þeir hafi nokkuð breytt um skoðun.

Ég held að það þurfi líka að hafa í huga þegar talað er um, eins og gert var af hv. þm. Sigurlaugu Bjarnadóttur, að kostnaður við framkvæmd litasjónvarps hafi farið nokkuð mikið fram úr áætlun, að þá þurfi enn að vekja athygli þess hv. þm. og fleiri á að tekjur sjónvarpsins, tolltekjur ríkisins, hafa líka stóraukist vegna innflutnings litasjónvarpstækja.