13.04.1978
Neðri deild: 76. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3393 í B-deild Alþingistíðinda. (2561)

184. mál, réttur til fiskveiða í landhelgi

Frsm. (Pétur Sigurðsson) :

Virðulegi forseti. Sjútvn. Nd. hefur haft þetta frv. til athugunar og er sammála um að mæla með samþykkt þess, með einni breytingu þó, en þá brtt. flytur n. á sérstöku þskj.

Efni þessa frv. er það, að sjútvrh. er heimilað, ef frv. verður samþ., að leyfa íslenskum aðilum, sem útveg stunda hér á landi, að taka á leigu um takmarkaðan tíma erlent skip til fiskveiða í íslenskri landhelgi, ef íslenskt fiskiskip verður fyrir verulegum áföllum vegna bilana eða skip verður dæmt ónýtt og ekki reynist unnt að fá annað íslenskt skip í þess stað, eins og í frvgr. segir.

Frv. þetta er flutt að gefnu tilefnum á s. l. vetri. Það er skemmst að minnast tveggja mjög þekktra veiðiskipa úr loðnuflota okkar, þ. e. m/s Sigurður og einnig Jóns Sveinssonar, sem lentu í því óhappi, að vélar þeirra brotnuðu í byrjun loðnuvertíðar og eigendur þessara skipa stóðu uppi með ágætar skipshafnir sínar og mjög dýr veiðarfæri og gátu ekki fengið skip með neinu móti í staðinn til þess að nýta á þessari vertíð. Við minnumst þess mikla óhapps fyrir nokkrum mánuðum þegar þrjá báta úr flota Stokkseyringa rak á land og þeir brotnuðu í vetrarveðri miklu á Stokkseyri. Fleiri dæmi má nefna og að sjálfsögðu það síðasta, sem okkur er ferskast í minni, þegar togari frá einum útgerðarbænum á Norðurlandi strandaði og verður frá veiðum um ófyrirséðan tíma. Þetta atvinnutæki er meginuppistaða atvinnulífsins á þeim stað. Röksemdir til þess að samþykkja þetta frv. eru því ærnar.

N. er sammála um, að sá hugsunarháttur, sem að baki býr þessum frumvarpsflutningi, sé góðra gjalda verður, og vill stuðla að því, að þetta frv. nái fram, en þó með þeirri breytingu sem ég hef getið um. Hún er á þá leið, að á eftir þeirri setningu eða málsgr., sem ég las áðan, bætist ný setning sem kveði svo á, að á leiguskipinu verði íslensk áhöfn og skipið verði búið slíkum búnaði og með sambærilegri veiðigetu og hitt, sem skipið er fengið fyrir. Við teljum sjálfsagt, vegna þess að á það er drepið í grg., að þetta sé m. a. gert vegna áhafna skipanna, og það er af skiljanlegum ástæðum að hugsað er til þeirra. Líka er það að fenginni fyrirmynd með samþykkt Alþ. á lögum um takmarkaða heimild til veiða fyrir m/s Ísafold á sínum tíma. Ein af röksemdum þess var m. a. sú, að á því skipi var íslensk áhöfn. En við teljum sjálfsagt í þessu tilfelli, að ákvæði séu þess efnis, að á slíku leiguskipi verði íslensk áhöfn. Við teljum líka er við minnumst á líkan búnað og sambærilega veiðigetu, að þá séum við að koma á móti þeim áætlunum sem uppi eru um að halda sókn í ákveðna stofna innan hæfilegra marka. Við skulum hugsa okkur skip, sem er gert út frá einhverjum ákveðnum stað, en veiðigeta þess hafi verið tekin með í ákvörðun í byrjun árs eða byrjun veiðitímabils. Svo fellur skipið út og hugsanlega væri fengið miklu stórvirkara skip í staðinn. Það getur haft ýmsar afleiðingar, bæði frá því sjónarhorni sem ég var að lýsa, veiðigetunni, og líka gæti skapast togstreita á milli staða vegna þessa.

Það, sem felst í frv. og þeirri breytingu sem við leggjum til að verði gerð á frv., þessari viðbót sem við leggjum til er í fáum orðum það, að verið er að mæta áföllum sem einstakar útgerðir og útgerðarstaðir geta orðið fyrir undir þeim kringumstæðum að skip falla frá af einni eða annarri ástæðu. Við leggjum því til, að frv. verði samþ. með þeirri breyt. sem við höfum lagt fram á þskj. 517.