13.04.1978
Neðri deild: 76. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3397 í B-deild Alþingistíðinda. (2565)

184. mál, réttur til fiskveiða í landhelgi

Frsm. (Pétur Sigurðsson):

Virðulegi forseti. Það er aðeins til þess að árétta það sem komið hefur fram frá hv. þm., 2. þm. Austurl. sérstaklega. Ég vil þá einnig árétta enn einu sinni og það í nafni okkar í sjútvn., sem vorum viðstaddir afgreiðslu málsins og afgreiddum málið þegar það fór frá n., og ég geri það á þann hátt, að ég tek í nær öllu undir það sem hv. 2. þm. Austurl. sagði. Hann orðaði nákvæmlega þá hugsun, sem var ríkjandi hjá okkur í sjútvn., að að sjálfsögðu ætti að túlka þetta mjög þröngt, þessa heimild sem ráðh. fengi, og þessu ætti aðeins að heita í undantekningartilvikum og m. a. til þess að koma í veg fyrir að slík heimild, ef veitt yrði, mundi leiða af sér viðbótarsókn. Þess vegna orðuðum við þá brtt., sem við flytjum, á þann veg sem við gerum.

Hv. 2. þm. Austurl. minntist nokkuð á tímatakmörkin. Við ræddum þetta atriði fram og aftur í n. og treystum okkur ekki til þess að lögleiða ákveðinn viku- eða mánaðarfjölda, vegna þess að þeir, sem til þekkja, vita að sjálfsögðu að viðgerðir skipa geta dregist og eru jafnbreytilegar og skipin sjálf geta verið. En breytingarákvæðið, sem við setjum inn, vil ég enn benda á, því að ég held að það tryggi enn betur en áður að leitað verði fyrst og fremst á hinum innlenda markaði áður en farið verður út fyrir landssteinana til þess að leita að skipum í stað þeirra, sem ónýtast eða falla úr leik um sinn, til þess að koma á móti hreinu neyðarástandi, sem getur skapast á vissum stöðum, eins og hér hefur komið fram. Svo er reyndar það líka að halda saman og utan um góðar útgerðir, sem byggja sitt á því að góðar áhafnir eru til staðar og liggja með mjög dýrmætan búnað, sem þær geta ekki fengið nýttan öðruvísi en að hafa skip til þess að koma búnaðinum fyrir á. Þetta er ein og önnur meginástæðan fyrir því, að við höfum tekið jafnvel undir það, sem við í sjálfu sér viljum halda í eins og hæstv. ráðh. sagði en það er um breytingu á lögunum frá 1922.

En vegna þess að ég kom ekki inn á það í framsögu minni fyrir hönd n. vil ég taka það fram núna, að ekki voru efnislega ræddar í n. þær hugleiðingar, sem komu fram í aths. við frv. um endurskoðun á þessum lögum. Í sjálfu sér er hægt að taka undir þau orð, sem hæstv. ráðh. sagði, að full nauðsyn er á því að fara með hægð að líta að því, að endurskoða þau, en ég held — og tek undir orð hans — að að því verði ekki hlaupið á einn eða annan hátt. Hins vegar verðum við að horfast í augu við þá staðreynd, að auðvitað eru allt önnur viðhorf í þessum málum nú árið 1978 en voru þegar lögin voru sett áríð 1922.