01.11.1977
Sameinað þing: 11. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 333 í B-deild Alþingistíðinda. (257)

311. mál, sjónvarp

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ástæðan fyrir því, að ég hef kvatt mér hér hljóðs, er sú, að inn í umr., sem hér hafa farið fram, hefur verið komið inn á sjónvarpssendingar til sjómanna á miðum. Þetta mál hefur verið á dagskrá áður á þinginu. Á síðasta Alþ. var flutt frv. um þetta efni, þar sem gert var ráð fyrir að byrjað yrði á framkvæmdum varðandi sjónvarpssendingar á fiskimiðin úti fyrir Vestfjörðum. Þetta frv. náði ekki fram að ganga á síðasta Alþ. og sú hv. n., sem um það fjallaði, varð ekki sammála um afstöðu til málsins.

Ég taldi rétt, vegna þess að umr. hafa orðið um þetta nú og einnig spurningar frá hv. 9. landsk. þm. til hæstv. ráðh., hvað hafi verið gert í þessum efnum, að greina frá því hér, að ég, ásamt hv. þm. Lúðvík Jósepssyni og hv. þm. Garðari Sigurðssyni, hef lagt fram frv, um þetta efni nú. Þessu frv. er ekki búið að dreifa hér í þinginu, en því verður væntanlega dreift í dag eða á morgun. Það er einmitt um framkvæmdir til sjónvarpsútsendinga á fiskimiðin í kringum landið, áætlunargerð í þeim efnum til fjögurra ára og að því verkefni verði lokið á þeim tíma.

Það er vissulega ástæða til að taka undir þær óánægjuraddir sem fram hafa komið frá stjórnarsinnum varðandi hægagang í þessum efnum. Og full ástæða er til að ítreka það, að þarna er um að ræða stóran hóp — ótrúlega stóran hóp þjóðfélagsþegna, þar sem sjómenn eru, sem ekki geta nýtt þetta tæki sem sjónvarpið er, og því full ástæða og þó fyrr hefði verið að gera nú alvöru úr því að ráðast í framkvæmdir til að hrinda þessu nauðsynjamáli af stað.