13.04.1978
Neðri deild: 76. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3406 í B-deild Alþingistíðinda. (2570)

228. mál, Sölustofnun lagmetisiðnaðarins

Frsm. (Lárus Jónsson) :

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð út af því sem fram hefur komið hjá hæstv. sjútvrh. og hv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni.

Ég vil fyrst víkja að því, sem hæstv. ráðh. talaði um í sambandi við lagmetið að það væri hér flokkað undir iðnað. Ég er honum sammála um að það orkar e. t. v. tvímælis að flokka þessa iðngrein undir iðnað. Alveg eins mætti flokka hana undir svipaðan iðnað úr sjávarafla, t. d. frystiiðnaðinn, sem jafnan er talinn vera grein af sjávarútvegi því að með sárafáum undantekningum er þarna um sjávarafla að ræða sem er fullunninn á þennan hátt, þ. e. a. s. þó sérstaklega til útflutnings. Og það er nú svo að með langflestum þjóðum er lagmetisiðnaðurinn talinn til sjávarútvegs. Þetta eru eins konar innanhúsmál hjá okkur. Þetta hefur verið ákveðið svona og verður sjálfsagt að vera þannig þangað til öðruvísi verður ákveðið. En ég er ráðh. sammála um að kannske væri öllu eðlilegra að flokka þetta undir sjávarútveg. Þess vegna tel ég m. a. rök til þess að leggja á slíkt fullvinnslugjald, sem stuðlar að því, að ísenskt hráefni meira en þrefaldast í verði í þessari fullvinnslu sem lagmetisiðnaðurinn er.

Þá vil ég víkja nokkrum orðum að því sem kom fram hjá hv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni. Hann benti réttilega á að talað sé um fryst og söltuð hrogn í frvgr., en í grg. er talað um þorskhrogn, og allar áætlanir um það, hvað þessi tekjustofn gefi, eru miðaðar við þorskhrogn. Þessi frvgr. kom í hendur okkar í iðnn. eins og hún er orðuð nú. Örlítið var um þetta rætt í n., hvort eðlilegra væri að taka fram, að þarna væri átt við þorskhrogn, eða hvort hafa ætti greinina svona opna eins og hún er. Ég er reiðubúinn til þess að fara að tilmælum beggja þessara hv. þm., bæði hæstv. ráðh. og Guðmundar H. Garðarssonar, og taka af öll tvímæli. Mun ég fyrir mitt leyti beita mér fyrir því við form. hv. iðnn., að athuguð verði sú breyting sem hæstv. sjútvrh. lagði til, þannig að ekki sé þá ágreiningur um það. Við þetta er þó því að bæta, að eftir því sem mér er sagt eru loðnuhrogn unnin áfram, sem flutt eru út fryst, en ég fyrir mitt leyti fellst alveg á að undanþiggja þau þangað til nánar verður séð hvernig þau verða unnin. Ég er ekki að segja með þessu, að þá verði reynt að seilast til þeirra síðar meir. Vonandi þarf engin slík fullvinnslugjöld. Vonandi verður lagmetisiðnaður svo öflugur hér á landi, að hann geti unnið þau. Ég felst algjörlega á að ryðja þessu ágreiningsefni úr vegi, því að ég fyrir mitt leyti vil vinna að því, að þetta mál komist í gegnum þingið, eins sanngjarnt og það er að minni hyggju, með a. m. k. ekki mjög miklum ágreiningi.

Að lokum vil ég svo aðeins benda á að nokkurs misskilnings gætir á ýmsum stöðum í umsögn Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna. T. d. stendur þar, að engin tilraun til áætlunar á fjárþörf hafi verið gerð. Það kom fram mjög greinilega í máli mínu, að þetta kom fram í framsögu hjá hæstv. iðnrh., en ekki í grg. með frv., eins og oft er gert og er vinnutilhögun í þinginu. Þetta er misskilningur hjá þeim sem hafa samið þessa umsögn, eðlilegur misskilningur að því leyti til, að þeir hafa að sjálfsögðu ekki fylgst með umr. hér, en þar komu fram áætlanir um fjárþörf Þróunarsjóðs og eins í grófum dráttum hvernig hugmyndin væri að verja þeim tekjum og þá teknir til ákveðnir þættir sem sérstaklega þyrfti að styðja.

Að lokum þetta: Ég tel þessa leið, álagningu fullvinnslugjalds, miklu heilbrigðari en þá, að Sölustofnun lagmetis fari að fá beinan stuðning úr ríkissjóði. Í fyrsta lagi er það svo, að Sölustofnun lagmetis á eins og aðrar stofnanir að standa undir sér með eðlilegri starfsemi, með eðlilegum umboðslaunatekjum. Það er ætlun núv. stjórnar Sölustofnunarinnar, að svo verði. Hér er hins vegar um að ræða fjáröflun til alveg sérstakra verkefna, tímabundinna markaðsátaka og alveg sérstakra þróunarverkefna. Tel ég að þarna sé bryddað upp á leið til þess að afla fjár til þeirra sem hafi tvíþættan tilgang: í fyrsta lagi verði hráefnið eilítið dýrara fyrir keppinautana, og einnig að því fé, sem aflað er, sé því varið til þessara sérstöku verkefna.