13.04.1978
Neðri deild: 76. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3408 í B-deild Alþingistíðinda. (2576)

167. mál, Fiskimálaráð

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason) :

Herra forseti. Í lögum um Fiskimálaráð segir, að það eigi að vera ráðgefandi um mótun heildarstefnu í uppbyggingu sjávarútvegsins og markaðsmálum og skuli beita sér fyrir góðri samvinnu allra aðila, sem hlut eiga að máli, með gagnasöfnun, umræðufundum o. s. frv. sem líklegast er talið til þess hverju sinni að tilgangi með stofnun ráðsins verði náð. Jafnframt segir síðan um uppbyggingu fiskiskipastólsins: „... skal fiskimálaráð við það miða, að jafnan sé sem mest fjölbreytni í útgerðinni og eðlilegt jafnvægi milli einstakra greina hennar.“

Þessi lög voru samþykkt á Alþ. 1968 og var tilgangur þeirra að móta heildarstefnu. En fljótlega eftir að þetta ráð hafði tekið til starfa mætti stofnun þess nokkurri andstöðu, einkum þótti hlutverk ráðsins of skylt hlutverki Fiskifélags Íslands, auk þess sem ýmsum þótti sem verið væri að fela Fiskimálaráði verkefni sem betur ætti heima í sjútvrn. Það varð því úr, að framkvæmdanefnd fiskimálaráðs ritaði sjútvrh. í marsmánuði 1970 bréf þess efnis, að gerð yrði könnun á heildarstjórn sjávarútvegsmála hér á landi. Í framhaldi af því skipaði sjútvrh. þriggja manna nefnd sem skilaði áliti í árslok 1971. Í því nál. var lagt til, að Fiskimálaráð yrði sameinað Fiskifélagi Íslands og að skipulagi Fiskifélagsins yrð breytt á þann veg, að hagsmunasamtök, sem áður áttu aðild að Fiskimálaráði, fengju eftir breytinguna aðild að Fiskifélagi Íslands. Að baki þessari till. um sameiningu Fiskifélags og fiskimálaráðs lá hugmynd um gleggri verkaskiptingu sjútvrn. og Fiskifélags. Grundvallarmunur yrði gerður á þessum tveimur stofnunum með tillit til ábyrgðar og með hliðsjón af hagkvæmni við einföldun á stjórnkerfi almennt í sjávarútvegi. Þessi grundvallarbreyting var svo gerð á lögum Fiskifélags Íslands í des. 1972, en þá fengu áhuga- og hagsmunasamtök í sjávarútvegi beina aðild að Fiskiþingi og fiskifélagsstjórn, þannig að úr því varð Fiskifélagið fyllilega málsvari ekki aðeins fiskideilda og fjórðungssambanda, heldur og annarra hagsmunasamtaka sjávarútvegsins. Einnig var gerð skipulagsbreyting varðandi starfsemi félagsins og deildaskiptingu. Fyrsta Fiskiþing, sem háð var eftir þessa nýju skipan, kom saman í nóv. 1973. Eftir þessa breytingu minnkuðu umsvif Fiskimálaráðs mjög verulega en það kom því þó á, að þessi breyting var gerð á Fiskifélaginu.

Eftir að þessar breytingar hafa verið gerðar sé ég ekki ástæðu til þess að fiskimálaráð starfi áfram sjálfstætt eins og verið hefur vegna minnkandi umsvifa. Kostnaður af starfsemi ráðsins hefur verið greiddur úr Fiskimálasjóði og hefur hann farið minnkandi á síðustu árum. Þrátt fyrir að ég hafi verið á sínum tíma 1. flm. þessa máls, tel ég það best komið undir einni stofnun þar sem allir hagsmunaaðilar í sjávarútvegi eiga sæti og auk þess fulltrúar hinna stærstu stofnlánasjóða sjávarútvegsins til að móta heildarstefnu, en slíkt samkomulag náðist aldrei. Hefði margt verið betra nú í þessum greinum ef menn hefðu borið gæfu til þess að móta heildarstefnu, en úr því varð ekki. Eftir þessa breytingu á Fiskifélagi Íslands tel ég ekki ástæðu til þess að halda starfsemi fiskimálaráðs áfram og því er þetta frv. flutt, að lög um Fiskimálaráð verði felld úr gildi.

Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.