01.11.1977
Sameinað þing: 11. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 334 í B-deild Alþingistíðinda. (258)

311. mál, sjónvarp

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Vegna þess að þessar umr. eru nokkuð almennar finnst mér rétt að láta koma hér fram sérstakt þakklæti til hæstv. menntmrh. fyrir það, hvernig hann hefur rétt við fjárhag Ríkisútvarpsins. Árin 1971–1974 voru fjárhagslega mjög erfið Ríkisútvarpinu. Tolltekjurnar brugðust, afnotagjöldin voru lág, sáralítið var þess vegna hægt að gera til að bæta og styrkja dreifikerfið, og lausaskuldir söfnuðust svo að skipti hundruðum millj. kr.

Í tíð núv. menntmrh. hefur tekist að greiða þessar lausaskuldir að fullu og það kemur til með að styrkja aðstöðu útvarpsins í framtíðinni, vegna þess að ekki þarf að sligast undir háum vaxta- og afborganagreiðslum.

Jafnframt þessu hefur verið ráðist í litasjónvarpið, sem ég tel að sé ekki fyrst og fremst mál okkar, sem erum í þéttbýlinu og komum til að njóta þess fyrst, heldur ekki síður þeirra sem búa í dreifbýlinu, því að innflutningur á litasjónvarpstækjum skapar stórauknar tolltekjur frá því sem áður var, og þær fara til að bæta dreifikerfið. Þetta var gert að ráðum þeirrar n. sem fjallaði sérstaklega um dreifingarmálin að tillögu menntmrh. Hún taldi rétt að fara inn á þessa braut, það hefur verið gert og þar með er skapaður verulegur grundvöllur til þess að bæta skilyrðin í dreifbýlinu í framtíðinni.

Hins vogar má það rétt vera — og ég get vel skilið óánægju hv. þm. úr dreifbýlinu — að þetta gangi heldur hægt. En það er ekki nóg að láta óánægju í ljós yfir því heldur verður þá að benda á einhverjar nýjar tekjur til þess að rísa undir þessu. Án þess verður þetta ekki gert.