13.04.1978
Neðri deild: 76. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3412 í B-deild Alþingistíðinda. (2582)

49. mál, hlutafélög

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson) :

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður hreyfði mikilsverðu máli, þ. e. a. s. hinu svokallaða atvinnulýðræði eða spurningunni um það, hvort starfsmenn eigi að hafa rétt til þátttöku í ákvarðanatöku og stjórn fyrirtækis þess sem þeir vinna við. Þetta er vissulega mjög umhugsunarvert málefni og kom til athugunar í sambandi við samningu frv. um hlutafélög. Niðurstaðan varð sú, að eftir atvikum þótti ekki rétt að taka ákvæði um það inn í hlutafélagalög. Þetta mál, atvinnulýðræðið, er víðtækara og var talið að það ætti frekar heima í almennum lögum um það efni, vegna þess að slíkt atvinnulýðræði á ekki eingöngu að koma til og eiga við í hlutafélögum, heldur á það að eiga við líka í ýmiss konar annarri starfsemi eða atvinnurekstri sem rekinn er í öðru formi en hlutafélagsformi.

Ég lét þess getið í framsöguræðu minni í Ed. á sínum tíma, — að ég teldi að eðlilegt væri að þetta væri eitt þeirra atriða sem sú n., sem fékk málið þar til meðferðar, tæki til athugunar og umfjöllunar. En auðvitað er það svo, að í sambandi við setningu jafnviðamikils lagabálks og hlutafélagalög eru eru fjölmörg álitaefni. Og þetta er m. a. eitt af þeim. Það má auðvitað segja, að hafa megi þann hátt á, ef á að lögleiða þetta svokallaða atvinnulýðræði, sem þarf náttúrlega nánari skilgreiningar við, að byrja einhvers staðar og ekki sé endilega skilyrði að því sé komið á alls staðar í einu. Þess vegna mætti auðvitað hugsa sér þessa leið, sem hv. síðasti ræðumaður benti á, að sett væru ákvæði um þetta inn í hlutafélagalög. Ég hygg þó, eins og hann raunar vék að, að margir munu telja þá að sama ætti að eiga við t. d. í samvinnufélögum. Þó eru þau öðruvísi upp byggð. Þar eru félagsmennirnir fleiri og hafa þess vegna víðara svið að byggja á ákvarðanatöku sína, en þar eru þó margir starfsmenn og margir munda sennilega telja eðlilegt að þeir hefðu eitthvað að segja um það.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta, en vildi bara láta þetta koma fram, að þetta hefur ekki fallið alveg niður án þess að það hafi verið íhugað.

Um það svar, sem sent hefur verið af Vinnumálasambandi samvinnumanna, get ég náttúrlega ekkert sagt, vegna þess að ég hef einfaldlega ekki séð það. Hins vegar veit ég, að einmitt í Sambandi ísl. samvinnufélaga hefur verið tekið upp fyrirkomulag sem er vísir í þessa átt, má segja, þar sem starfsmenn eiga fulltrúa á stjórnarfundum, að ég hest veit. Ég veit að vísu ekki, hvernig þátttöku þeirra nánar er háttað.

Ég skal svo ekki tefja tímann með því að ræða frekar um þetta mál.