13.04.1978
Neðri deild: 76. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3415 í B-deild Alþingistíðinda. (2587)

259. mál, dómsvextir

Flm. (Ellert B. Schram) :

Hæstv. forseti. Ég hef leyft mér að flytja þetta mál, sem er á þskj. 502 og er frv. til laga um dómvexti, sem mundi þá vera viðauki við lög nr. 85 frá 1936, um meðferð einkamála í héraði. Þetta mál er tiltölulega einfalt í sniðum og auðskiljanlegt. Það gengur út á að dómkröfur haldi sem mest verðgildi sínu þegar dómar eru kveðnir upp. Sá háttur hefur verið valinn til þess að tryggja verðgildi krafna að leggja til að vextir af dómkröfu geti orðið jafnháir innlánsvöxtum af vaxtaaukalánum eða öðrum sambærilegum vaxtakjörum og þá sé það ákvæði, sem um það mundi fjalla, gert að viðauka við meðferð einkamála.

Eins og öllum er kunnugt og óþarfi er að vera að fara mörgum orðum um, hefur verðbólgan komið víða við og alls staðar til hins verra. Meðan ekki fæst skjót lausn á verðbólgumálum og hún geisar áfram meira en góðu hófi gegnir, þá hefur það verið mat manna, að eitthvað þurfi til bragðs að taka í peningamálum: Það hefur m. a. valdið því, að upp hafa verið tekin verðtryggð lán, bæði rekstrarlán og fjárfestingarlán, og bankar hafa boðið viðskiptavinum sínum lán sem eru með vaxtaauka. Allt er þetta sem sagt gert til þess að halda í við verðbólguna.

Varðandi fjárhagslegar kröfur, sem fyrir dómstóla koma, hefur þróun mála verið á þann veg, að í vaxandi mæli er þess vart að fólk, sem á slíkar kröfur, telur vafasamt fyrir sig að höfða mál vegna krafna sinna, vegna þess hversu langan tíma málarekstur tekur og loks þegar dómar eru kveðnir upp hafa kröfurnar rýrnað svo að verðmæti að þær hafa margfalt minna gildi en þegar til þeirra var stofnað. Þess eru dæmi, að dómsmál geta dregist allt upp í heilan áratug, og með hliðsjón af þeirri verðbólgu, sem hér hefur geisað undanfarinn áratug og jafnvel undanfarna áratugi, má augljóst sjá hversu verulega þessar kröfur hafa rýrnað á svo löngum tíma. Sem betur fer er þetta ekki hin almenna regla, en það má segja þó, að mjög algegnt sé að eðlilegt skuldamál, einföld mál geti staðið 2, 3, 4 og allt upp í 5 ár. Afleiðingin hefur verið sú, að málafjöldi hefur mjög aukist af þessum ástæðum, sem ég hef nú nefnt. Verðbólgan hefur í för með sér meiri glundroða í peningamálum en æskilegt er og heppilegt er, þannig að málum fjölgar vegna vanskila og vegna brenglaðs verðmætamats fólks á skuldum og peningum. Þetta veldur aftur því, að málafjöldinn er svo mikill að afgreiðsla þeirra dregst úr hófi og kröfurnar rýrna, eins og fyrr segir.

Það er mitt mat, að með því að samþykkja frv. í þá átt, sem hér er lagt til, megi mjög draga úr málarekstri. Það má tryggja að kröfur haldi nokkurn veginn verðgildi sínu, og fullvíst má telja, að traust almennings á dómstólum styrkist að mun við það að þetta yrði niðurstaðan. Sannleikurinn er sá að verðbólgan hefur ýtt svo undir alla spákaupmennsku, að hún hefur brenglað svo verðskyn fólks, að mikill fjöldi alls almennings hagar fjármálum og fjárhagslegum ákvörðunum sínum með hliðsjón af verðbólguþróun. Það er jafnvel komið svo, að menn draga vísivitandi að greiða réttmætar kröfur, standa ekki í skilum, vegna þess að þeir sjá sér augljósan hag í því að láta stefna sér og láta mál þæfast fyrir dómstólum. Kröfurnar rýrna því á þeim tíma sem málarekstur stendur yfir og sá sem skuldar hagnast á þessum töfum, en kröfuhafinn glatar nánast fjármunum sínum og kröfu. Þetta er auðvitað ákaflega háskalegt viðhorf og verður nauðsynlega að reyna að stemma stigu við þessu og bregðast við. Ég tel allsendis óeðlilegt og ranglátt að menn hagnist á því að greiða ekki réttmætar kröfur. Þessar kröfur mega ekki rýrna svo í meðförum lögmætra dómstóla eða stjórnvalda að kröfuhafar tapi rétti og verðmætum. Þar af leiðandi tel ég að þetta frv. sé spor í rétta átt, það sé eðlileg viðbrögð við þeirri þróun og því ástandi sem nú ríkir. Það er mat manna, sem fylgjast vel með þessum málum, mat lögfræðinga og dómara, að hér sé góð leið farin og þetta megi hjálpa til þess að auka traust manna á dómstólunum og draga úr málarekstri, sem því miður er orðinn ískyggilega mikill hér á landi. Ég tel því, hæstv. forseti, að hér sé athyglisvert mál á ferðinni og brýnt að þetta frv. fái einhverja afgreiðslu og þinginu auðnist að samþykkja það.

Ég legg svo til, hæstv. forseti, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til meðferðar allshn.