01.11.1977
Sameinað þing: 11. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 334 í B-deild Alþingistíðinda. (259)

311. mál, sjónvarp

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Þar eð þessar umr. hafa orðið nokkuð á við og dreif langar mig til þess að vekja athygli í örfáum orðum á tveim atriðum.

Hið fyrra er að undirstrika það, sem kom fram hjá hv. þm. Steingrími Hermannssyni, að fyrir dyrum standa stórkostlegar tæknibreytingar á dreifingu sjónvarps með aðstoð gervihnatta. Á því er enginn vafi að einhvern tíma á árabilinu 1980–1985 mun verða hrein bylting í þessum efnum sem mun gerbreyta aðstöðu sjónvarpsáhorfenda um víða veröld og þá einnig hér hjá okkur. Eins og hann benti á alveg réttilega, mun þá gerbreytast aðstaða einstakra býla, einstakra staða sem nú er fjárhagslega séð ekki framkvæmanlegt að veita aðstöðu til að njóta sjónvarps, og einnig aðstaða skipa á hafi úti.

Þetta var fyrra atriðið sem ég vildi nefna fyrst sjónvarpsskilyrði sjómanna á hafi úti hefur borið hér á góma hjá hv. þm. Karvel Pálmasyni. Frv. um það hefur verið flutt áður og um það verið fjallað í n. sem ég hef átt sæti í og á enn sæti í. Ég vil bæta við því sem honum láðist að geta um, en mjög kom til umr. þegar málið var til athugunar í n. í fyrra, að útgerðarfyrirtæki um víða veröld hafa tekið í þjónustu sína nýja tækni til að veita sjómönnum aðgang að sjónvarpsefni, og hún er sú að nota segulbönd eða kassettur. Stór útgerðarfyrirtæki um víða veröld hafa komið fyrir í skipum sínum, hvort sem eru farskip eða veiðiskip, sérstaklega útbúnum sjónvarpstækjum sem gera kleift að hagnýta sér kassettur, og sjá þau skipum sínum fyrir sjónvarpsefni á kassettum. Þetta er sú leið sem nú er um víða veröld farin til að veita sjómönnum þessa sjálfsögðu þjónustu.