13.04.1978
Neðri deild: 76. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3417 í B-deild Alþingistíðinda. (2590)

65. mál, sjónvarpssendingar á fiskimiðin

Frsm. minni hl. (Lúðvík Jósepsson) :

Hæstv. forseti. Ég skipa minni hl. þeirrar n. sem fjallar um þetta mál, fjh.- og viðskn., og hef gefið út sérstakt nál. á þskj. 505, þar sem ég legg til að frv. verði samþykkt óbreytt.

Ég þarf ekki að fara um þetta mál mörgum orðum. Málið hefur verið rætt hér nokkrum sinnum áður. Það var flutt á síðasta þingi efnislega í sama búningi og það frv. sem hér liggur fyrir, og þá þótti rétt að fara þá leið að vísa málinu til ríkisstj. Ég er andvigur því og tel að taka eigi ákvörðun um málið.

Hér er um að ræða að gerð verði áætlun fyrir næstu 4 ár um hvernig hægt sé að koma sjónvarpssendingum til fiskiskipa okkar á fiskimið unum hér við land. Það er enginn vafi á því, að nú þegar eru nokkur skilyrði fyrir bendi hjá þeim, sem eru á fiskimiðunum, að njóta sjónvarpssendinga, en þau skilyrði eru ekki nægilega góð. Hægt væri að bæta þau mjög verulega með minni háttar sendistöðvum, og er að sjálfsögðu alveg óþarfi að setja málið upp á þann veg, að annaðhvort þurfi að tryggja öllum, sem eru á hafinu hér í kringum landið, góð móttökuskilyrði eða þá að búa við það ástand óbreytt sem er í dag. Sú er skoðun okkar, sem stöndum að flutningi þessa frv., að hægt sé með mjög viðráðanlegum kostnaði að stórbæta móttökuskilyrðin á aðalfiskimiðunum við landið. Við teljum að réttmætt sé að ráðast í þá framkvæmd. En allt bendir hins vegar til þess, að stjórnvöld hafi ekki mikinn áhuga á málinu. Því álítum við þá ráðstöfun að vísa þessu máli til ríkisstj. eins og ástatt er jafngilda því, að synjað sé þeirri beiðni sem felst í þessu frv.

Till. mín er sú, að frv. verði samþ. óbreytt. Ég er því andvígur till. meiri hl. um að vísa málinu til ríkisstj., sem ég tel sama og að fella málið.