13.04.1978
Neðri deild: 76. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3419 í B-deild Alþingistíðinda. (2595)

145. mál, viðskiptabankar

Stefán Valgeirsson:

Virðulegi forseti. Það hefði verið mjög æskilegt að flm., hv. 2. þm. Austurl., væri viðstaddur, af því að ég ætlaði að beina til hans spurningum og ræða dálítið við hann um þetta mál. E. t. v. er flm. ekki hér í húsinu og það verður þá að hafa það. (Forseti: Sagt er að flm. málsins, hv. 2. þm. Austurl., sé á fundi úti í Þórshamri.) Þá verður að hafa það.

Frv. það, sem hér er til umr., um viðskiptabanka í eigu ríkisins, sem er á þskj. 306, kom til 1. umr. 27. febr. s. l. og var málinu frestað eftir að hv. flm., 2 þm. Austurl., Lúðvík Jósepsson hafði lokið framsöguræðu sinni. Ég kvaddi mér hljóðs til þess að gera nokkrar aths. við þann furðulega málflutning sem hv. þm. hafði í frammi í umræddri framsöguræðu. Umr. var fram haldið 9. þ. m., en var þá ekki lokið.

Tilgangur þessa frv. er sá, að stuðla að því að sameina Búnaðarbanka og Útvegsbanka. Allur málflutningur hv. þm. var á þann veg, að flutningur þessa frv. af hans hendi væri sprottinn af sérstakri umhyggju sem hann teldi sig hafa fyrir landbúnaði og þeim sem í dreifbýli búa. Tilgangur hans með þessari sameiningu, eftir máli hans að dæma, væri fyrst og fremst að efla með því Búnaðarbankann til að hann gæti betur hér eftir en hingað til gegnt hlutverki sínu við landbúnaðinn. Hv. alþm. hafa heyrt það oft upp á síðkastið í sölum Alþ.,hv. Alþb.- menn og ekki síst formaður þeirra, hv.2. þm. Austurl., segjast bera mikla umhyggju fyrir bændum ásamt öðrum þeim sem höllum fæti standa í þjóðfélaginu. Og svona í leiðinni eru aðrir hv. þm. minntir á að ekki fari mikið fyrir umhyggju hjá þeim fyrir þessum aðilum. Sérstaklega höfum við framsóknarmenn verið minntir á þetta við ýmis tækifæri, ekki síst þegar bændur eiga í hlut. En í hverju felst þessi umhyggja hv. Alþb.-manna og af hvaða toga er hún spunnin, t. d. fyrir bændum? Að sögn hv. flm. á að sameina Búnaðarbankann og Útvegsbankann í þeim tilgangi að styrkja stöðu Búnaðarbankans. Umhyggjan fyrir landbúnaðinum er í því fólgin hvað þetta frv. varðar, að hans sögn. Fyrir stuttu stóð þessi sami hv. þm. að tillögugerð ásamt fleirum um hvernig ætti að mæta þeim efnahagsvanda sem steðjaði að þjóðinni og til umfjöllunar hefur verið að undanförnu í sölum Alþ. Þá talaði hann mikið um réttlæti og taldi sig sem endranær vera sérstakan málsvara þeirra sem verst eru settir í þjóðfélaginu. Hv. þm., ásamt hv. 9. þm. Reykv., Gylfa Þ. Gíslasyni, og 5. þm. Vestf., Karvel Pálmasyni, lagði fram till., sem fól í sér það réttlæti, sem hann öðrum fremur er merkisberi fyrir.

Þó að ég geri ráð fyrir því, að hv. 9. þm. Reykv. telji sig eiga höfundarrétt að þessum till., þá fer ekki milli mála hvers konar umhyggja það er, sem þessir hv. þm, hafa fyrir bændastéttinni. Það sést best á þeim till. sem stjórnarandstaðan stóð að í verðbólgunefnd. Sú umhyggja er af svipuðum toga og markmiðið með flutningi þess frv. sem hér er til umr. Það er ekki nóg að mæla fagurt, hugur þarf að fylgja máli svo að það sé nokkurs virði.

Þær fregnir, sem ég hef fengið af hinum svokölluðum bændafundum, sem Alþb. hefur boðað víða um land nú að undanförnu, gefa til kynna að hinn mikli .,bændavinur“, hv. þm. Lúðvík Jósepsson, segi þar annað en hann undirskrifaði, — og e. t. v. lagði einnig til að gert yrði í verðbólgunefnd. Á bændafundunum er sagt, að hv. þm. hafi ekki talið vandamál að hækka útflutningsuppbætur á útflutta landbúnaðarframleiðslu um 2 milljarða umfram þá útflutningstryggingu sem bændur nú hafa lögum samkv., svo að þeir næðu verðlagsgrundvallarverði á þessu ári. Haft er eftir, að þm. hafi sagt að þetta væri raunar ekkert vandamál og hann væri fús til þess að standa að því, að svo yrði gert. En í verðbólgunefnd stóð hv. þm. Lúðvík Jósepsson að till. um það, að útflutningstryggingin á útflutta landbúnaðarframleiðslu yrði lækkuð um 1 milljarð og það fjármagn notað til að auka niðurgreiðslur á búvöruverði. Að vísu var hann þá að tala við neytendur, en í hinu tilfellinu við bændur. Þetta kallast að hafa tungur tvær og tala sitt með hvorri.

Í verðbólgunefnd lagði hv. þm. til, að lagður yrði veltuskattur á aðstöðugjaldstofn, sem gefa átti 4300 millj. í ríkiskassann. Þessi gjaldtaka, ef af henni hefði orðið, hefði þýtt að verðlagsgrundvallarbúið hefði orðið að greiða upp í þennan nýja skatt um 104 þús. á ári — eftir þeim upplýsingum sem liggja fyrir og einn af þeim, sem stóðu að þessum till., hefur tjáð mér. En þegar hv. þm. Lúðvík Jósepsson talar á bændafundunum, þá segir hann að auðvitað nái það engri átt að þannig skuli vera staðið að málefnum bænda, að vanta skuli 20–35% á að þeir nái kaupi viðmiðunarstéttanna ár eftir ár. Þannig talar hv. þm. á bændafundunum, þannig talar hann við bændur. En í verðbólgunefnd stendur hann að till. sem mundi auka þennan mun um 214 þús. á viðmiðunarbúið. Og ef ég þekki hv. þm. rétt, þá kæmi hann upp í ræðustól, ef hann væri við, og segði þetta allt saman misskilning hjá mér, till. stjórnarandstöðunnar að þessu leyti hefðu ekki átt að koma neitt við bændur, og svo reyndi hann að sveipa einhverjum þokuhjúp yfir málflutning sinn, ef að vanda lætur. En slíkt er alveg þýðingarlaust fyrir hv. þm. Hann getur með engu móti skotið sér undan því að hafa staðið að því í verðbólgunefnd að leggja til að lækka útflutningstryggingu á búvörum um 1 milljarð og leggja veltuskatt á aðstöðugjaldstofn. Í þeim till. var enginn undanskilinn og er því enginn vafi á að hann átti að ná til bænda á sama hátt og aðstöðugjald gerir. Þetta er skjalfast og undirskrifað. Og í fullu samræmi við þetta leggur hv. þm. til með þessu frv., að Búnaðarbankinn og Útvegsbankinn séu sameinaðir til að efla Búnaðarbankann. Það á að styrkja lausafjárstöðu Búnaðarbankans með þessari fyrirhuguðu sameiningu við Útvegsbankann — eða var það ekki það sem hv. þm. átti við þegar hann talaði um að þessi till. hans væri fyrst og fremst til þess að styrkja Búnaðarbankann?

Þetta frv. var flutt í marsmánuði 1974 af viðskrh., sem þá var hv. 2. þm. Austurl. Í ársbyrjun 1972 skipaði hann nefnd til þess að gera nokkurs konar úttekt á öllum bönkum, sparisjóðum og innlánsdeildum í landinu og gera till. til úrbóta. Í erindisbréfi, sem nm. fengu frá ráðh., var beinlínis svo fyrir mælt, að unnið skyldi að og athugaðir þeir möguleikar, sem fyrir hendi kynnu að vera til þess að sameina banka, eða m. ö. o. að stefna ætti að einföldun og samruna innan bankakerfisins. Þetta var það verkefni sem bankamálanefndinni var sérstaklega falið af ráðh. að athuga og gera till. um, hvernig best væri að framkvæma. Þótt nál. bankamálanefndarinnar fjalli um þessi atriði, þá segir það ekkert um hvaða skoðanir einstakir nm. höfðu á því máli. Hins vegar fer ekki milli mála, að í nefndinni voru mjög skiptar skoðanir um hvernig ætti að standa að þessum málum. Vegna ýmissa ummæla hv. flm. vil ég lesa upp nokkur atriði úr þessari skýrslu. Þar koma fram allt aðrar skoðanir en hv. flm. vildi vera láta, með leyfi forseta:

„Eigi að stefna að einföldun og samruna innan bankakerfisins er nefndin þeirrar skoðunar, að nauðsynlegt sé að taka alla þætti þess til endurskoðunar. Fækkun ríkisbankanna einna mundi ná aðeins takmörkuðum árangri, ef ekki fylgdi á eftir fækkun hlutafélagsbankanna og samruni sparisjóða og innlánsdeilda í stærri og starfhæfari heildir.“ Og annars staðar segir: „Þótt nefndin sé þeirrar skoðunar, að stefna beri að verulegum samruna bankakerfisins og fækkun stofnana, vill hún eindregið vara við því, að þeirri stefnu verði framfylgt án tillits til þeirra sögulegu og félagslegu sjónarmiða sem mótað hafa þróun þessara mála hingað til. Það kerfi fjármálastofnana, sem Íslendingar eiga nú við að búa, á að vísu að nokkru rætur að rekja til þjóðfélagshátta sem nú eru að hverfa, en að mestu er það þó mótað af félagslegum og stjórnmálalegum viðhorfum sem enn eru rík með þjóðinni. Má t. d. nefna að þrír nýir hlutafélagsbankar voru stofnaðir á undanförnum áratug með samþykki allra flokka á Alþ. Sú dreifing fjármálavaldsins, sem fjölgun banka á undanförnum árum hefur haft í för með sér, á því væntanlega enn í dag miklu fylgi að fagna, þótt mörgum sé farið að ofbjóða sú fjölgun stofnana sem af þessu hefur leitt. Sömu sjónarmið hafa komið greinilega í ljós í viðræðum nefndarinnar við fulltrúa sparisjóða og innlánsdeilda, en hjá þeim hefur komið veruleg andstaða gegn því sjónarmiði nefndarinnar, að æskilegt væri að draga minnstu innlánsstofnanirnar saman í stærri heildir.“

Það væri freistandi að lesa langtum meira upp úr þessari skýrslu og ég ætla að bæta við tveimur mjög stuttum köflum, einmitt til að sýna hvaða viðhorf nefndin hafði í raun og veru til þessara mála. Hér segir:

„Ákveði ríkisvaldið að beita áhrifum sínum til fækkunar á viðskiptabönkunum, er sameining ríkisbanka samkv. eðli málsins mun einfaldari í framkvæmd en sameining hlutafélagsbanka. Nefndin hefur því gefið sérstakan gaum að leiðum til sameiningar á ríkisbönkum, og er þeim lýst í næsta undirkafla hér á eftir.

Leggja verður ríka áherslu á að enn sterkari rök eru fyrir sameiningu hlutafélagsbanka en ríkisbanka af þeirri ástæðu, að hlutafélagsbankarnir eru verulega minni rekstrareiningar en ríkisbankarnir. En auk lögformlegra vandkvæða, sem gera aðgerðir ríkisvaldsins erfiðar á þessu sviði, ber að hafa í huga, að vegna sérstakra aðstæðna eru forsendur fyrir sameiningu hlutafélagsbanka aðrar hér á landi en í nágrannalöndunum, þar sem spurningin um arðsemi hlutafjárins hefur fyrst og fremst ráðið afstöðu hlutafjáreigenda til breytinga á viðskiptabankakerfinu.“ Enn segir hér: „Ljóst er, að ýmis vandamál munu fylgja jafnviðamikilli breytingu á skipulagi bankamála og sameining Búnaðarbankans og Útvegsbankans yrði. Telur nefndin sérstaka ástæðu til að vekja athygli á þeim vanda, sem fylgja mundi yfirtöku sameinaða bankans á starfsfólki frá bönkunum tveimur. Einnig vill nefndin vekja athygli á því, að hún hefur ekki haft aðstöðu til að kanna viðhorf þeirra viðskiptaaðila, sem bönkum þessum er einkum ætlað að þjóna, né athuga nægilega hinn rekstrarlega ávinning.“

Ég hef lesið nokkra kafla upp úr nál. bankamálanefndar og ég get ekki betur séð en nefndin sem slík leggi blátt áfram ekkert til í þessum málum, heldur bendi á hvað helst kæmi til greina ef ríkisstj. og Alþ. kæmist að þeirri niðurstöðu að sameina ætti eitthvað af þessum stofnunum. Og það kemur meira að segja glöggt fram í þessu áliti, að nefndin telur á því ýmis tormerki að sameina t. d. ríkisbankana og segir, að ekkert liggi fyrir um það, að slíkur rekstur yrði hagkvæmari í tveimur ríkisbönkum en þremur.

Hv. 2. þm. Austurl. segir að bankakostnaður sé óeðlilega mikill, nefnir í því sambandi Noreg, Svíþjóð og Finnland, en hann nefnir ekki Danmörku. Af hvaða ástæðu? Vegna þess að bankakostnaður í Danmörku, þrátt fyrir þéttbýli þar og að það er lítið land, er meiri en á hinum Norðurlöndunum.

Hv. 2. þm. Austurl. segir í framsöguræðu sinni, að á árinu 1971 hafi 1600 manns starfað við bankastörf miðað við fullt starf, árið 1975 hafi þessi tala verið komin upp í 2300 manns og að hliðstæður starfsmannafjöldi sé nú 2700–2800 heils árs menn. Árið 1971 voru starfsmenn í Búnaðarbanka 186 að tölu að meðtöldu starfsfólki í Stofnlánadeild landbúnaðarins. Þá voru t. d. í Landsbankanum 477 manns. Í Búnaðarbankanum vinna nú 239, en í Landsbankanum 749. Á þessu tímabili hefur því fjölgað um 53 í Búnaðarbankanum, en í Landsbankanum um 272. Í Búnaðarbanka og Útvegsbanka starfa nú, og þar með í Fiskveiðasjóði og Stofnlánadeild, 521 eða 1269 í öllum viðskiptabönkunum, en eins og ég sagði áðan eru í Landsbankanum 749 eða 247 manns fleira en í Búnaðarbanka og Útvegsbanka samanlagt. Starfsmannafjöldinn í Landsbankanum er sem sé eins og tveir Búnaðarbankar og Útvegsbankinn. Launakostnaður í bönkunum er um 70% af heildarrekstrarkostnaði, og er því vandséður hinn rekstrarlegi ávinningur að sameiningu fyrir ríkisbankana. Í ríkisbönkunum ásamt Seðlabankanum starfa 1383 menn. Ef það er rétt, sem hv. flm. hélt fram, að starfsmannafjöldi í öllu bankakerfinu sé 2700–2800 manns, þá vinna í öðrum peningastofnunum álíka margir eða 1316–1416 manns. Ég held nú að þarna hafi hv. þm. farið frjálslega með tölur, en e. t. v. skýrir hann þetta á eftir.

Ein af mörgum fullyrðingum hv. flm. var að hann sagði að Búnaðarbankinn væri ekki banki landbúnaðarins og Landsbankinn lánaði hærri heildarlán til landbúnaðarins en Búnaðarbankinn. Lán til landbúnaðar um síðustu áramót stóðu þannig, 31. des. 1977, að heildarlán Búnaðarbankans til landbúnaðar voru 6 milljarðar 585 millj., sem eru 40.7% af útlánum hans. Landsbankinn var á sama tíma með 6 milljarða 624 millj., sem er 15.6% af heildarútlánum hans. Lán til landbúnaðar árið áður eða um áramótin 1976–1977 voru í Búnaðarbanka 4 milljarðar 340 millj. eða 38.8% af heildarútlánum, en hjá Landsbanka á sama tíma 4 milljarðar 109 millj. eða 13.8% af heildarútlánum hans. Menn geta borið þessar tölur saman. Ég held að hlutur Búnaðarbankans í lánum til landbúnaðar sé töluverður a. m. k. að þessu leyti.

Hv. þm. taldi að hægt væri að fækka mjög útibúum með því að sameina Búnaðarbanka, — en hvað sagði bankamálanefndin í þessu tilviki? Hún taldi, að hugsanlegt væri að fækka um tvö útibú, þ. e. a. s. á Akureyri og í Austurbæ.

Í allri þeirri umr., sem hefur farið fram um þessi mál, er dálítið einkennandi, að annars vegar er talað um bankana, en í raun og veru ekki um aðrar peningastofnanir, sem þó starfa alveg eins og bankarnir. T. d. er talað um sjö banka. Alþýðubankinn er t. d. minni peningastofnun en ýmsir sparisjóðir, sem bæði starfa í Reykjavík og í grennd. Málið er ekki það einfalt. Það verður að sjá yfir þetta allt saman ef menn eiga að hafa aðstöðu til að meta og dæma, hvernig að þessum málum eigi að standa.

En ekkert fer milli mála, hvað felst í raun og veru í þessu frv. sem hér er til umr. Það er engin tilviljun, að bændur eru á móti sameiningu Búnaðarbankans og Útvegsbankans og fer ekkert milli mála, þó að hv. þm. Lúðvík Jósepsson hafi sagt að þetta væri til að styrkja Búnaðarbankann. Þetta verður ekki til þess, vegna þess að staða Útvegsbankans hefur verið erfið og það hlyti auðvitað að koma niður á Búnaðarbankanum, ef um slíka sameiningu væri að tefla. Þess vegna eru bændur andvígir þessari sameiningu, enda liggur ekkert fyrir um það, að hún yrði hagkvæm að neinu leyti. Það liggur ekkert fyrir um það, og m. a. s. bendir allt í gagnstæða átt. Ég mundi síst af öllu mæla gegn því, að reynt væri að spara að þessu leyti sem öðru, en það þýðir ekki að bera fyrir mig fullyrðingar að þessu leyti þegar allt bendir til hins gagnstæða. Eða hvernig stendur á því t. d., að starfsmannafjöldinn í Landsbankanum skuli vera eins og í tveimur Búnaðarbönkum og Útvegsbankanum? Bendir það til þess, að hin stærri eining þurfi minni mannafla? Að vísu má segja að Útvegsbankinn og Búnaðarbankinn séu aðeins minni en Landsbankinn, en mjög lítið.

Hv. flm. Lúðvík Jósepsson talar um, að Búnaðarbankinn sé almennur viðskiptabanki. Hverjum dettur annað í hug? Auðvitað er hann almennur viðskiptabanki. Þm. gaf til kynna sagði það að vísu ekki berum orðum, en gaf það til kynna — að Útvegsbankinn væri þannig staddur, að eitthvað yrði að gera í þessum málum. Þannig var nú komið í síðari hluta ræðu hans. Ég hef svolítið athugað þessi mál. Ég hef t. d. svolítið athugað, hvernig þessi mál stóðu í Útvegsbankanum 1974 og hvernig hann stendur nú. Og ef menn reiknuðu út skuldir hans erlendis 1974 og breyttu í íslenskar kr., eins og gengið er í dag — og ég sé ekki neina aðra leið en gera það þannig — þá stendur Útvegsbankinn síður en svo verr að vígi en hann gerði 1974. Er best að það komi fram.

Hv. flm. var að tala um að auðvitað væri ekkert vit að standa í því, að í Austur-Skaftafellssýslu væru margir bankar eða í Vopnafirði, eins og hann komst að orði, það væri hóflaus vitleysa að ætla sér að setja upp útibú frá kannske öllum bönkunum á Vopnafirði og Höfn í Hornafirði. Hverjum hefur dottið þetta í hug? Ég held að taka þyrfti upp það skipulag í þessum málum, að alls ekki væri leyft að stofna nema eitt útibú á þeim stöðum. Það ætti að miða við einhvern íbúafjölda. Hv. þm. talaði um, að ætlun sín væri ekki að minnka þjónustuna, þvert á móti að setja upp bankaútibú þar sem þau væru ekki fyrir o. s. frv. Alltaf er aukin krafa um að auka þjónustu að þessu leyti, og þess vegna hefur starfsmannafjöldinn vaxið, þó að ég haldi — enda kom það fram í ræðu hv. þm. Jóns Skaftasonar um daginn — að þær tölur, sem þm. fór með í þessu efni, séu ekki raunverulegar. Þm. sagði seinna í ræðu sinni, að það kynni að vera, að sameiningin yrði eitthvað á kostnað bændanna, og bætti orðrétt við: „En ég trúi því ekki, að þessir aðilar hafi hugsað þessi mál langt, ef þeir hafa ekki þegar áttað sig á því, hvers konar banki Búnaðarbankinn er. Það getur því orðið tilefni til þess kannske að lesa þann lestur nokkru lengra en hingað til hefur verið gert.“ Við hvað á hv. þm.? Ég hefði viljað fá svör við því. Ég er ekkert feiminn að ræða það á Alþ., hvernig Búnaðarbankinn hefur staðið að sínum málum, og ég vil ekki taka svona aðdróttunum þegjandi.

Hann bætir því við, að Búnaðarbankinn hafi reynt að skjóta sér undan þeim verkefnum, sem eru tengd landbúnaði, hafi reynt að skjóta sér undan verkefnum. Við vitum hvernig þetta er í sambandi við bankana. Þeir hafa sín starfssvæði og það er ætlast til þess, að hvert útibú í þeim landshluta, sem hver banki hefur sett upp, þjóni landshlutanum. Tökum útibú Landsbankans á Höfn sem dæmi. Ætlast er til þess, að útibúið þar þjóni Austur-Skaftafellssýslu alveg eins og útibú Búnaðarbankans þjóna að öllu leyti Sauðárkróki og Skagafirði, Blönduósi eða Húnavatnssýslu o. s. frv. Auðvitað er þetta skynsamleg skipting og ekki eðlilegt, að Landsbankinn sinni verkefnum á Sauðárkróki eða í Skagafirði. Það er ekki heldur eðlilegt, að Búnaðarbankinn geri það þar sem Landsbankinn hefur fjármagnið frá fólkinu og er með bækistöð á staðnum. Ef þm. á við þetta, þá finnst mér slík vinnubrögð eðlileg en ég vil fá að vita við hvað hann átti í þessu tilviki.

Hv. þm. sagði: Ég hef heyrt suma þá, sem halda mjög með Búnaðarbankanum, segja: Við skulum bara leggja Útvegsbankann niður og þá verða eftir tveir bankar. — Ég tek ekki þátt í slíku. Ég hef ekki heyrt Búnaðarbankamenn leggja til að leggja skuli Útvegsbankann niður. Ég hef þá trú, að Útvegsbankinn geti komist alveg á réttan kjöl rekstrarfjárlega séð. Ég veit að hann er sæmilega staddur að öðru leyti, en hann á í erfiðleikum með rekstrarfé. Það er sjálfsagt ekkert undarlegt. Eftir þeim skýrslum, sem mér hafa borist — og ég held ég brjóti engan trúnað og held að þetta séu skýrslur sem hver og einn getur lesið, sem nennir því þá hefur það komið fram, að á síðasta ári hafi orðið að auka útlánin í Vestmannaeyjum á annan milljarð. Er hann ekki eini bankinn sem er þar og skyldugur til að þjóna í raun og veru því byggðarlagi? Vestmannaeyjar einar eru alveg full skýring á því, hvers vegna Útvegsbankinn hefur verið í örðugleikum, t. d. nú um síðustu áramót. En í tísku er og menn halda að vinsælt sé að ræða um bankana og tala um sameiningu þeirra og eitthvað í þá áttina, en athuga ekki að kannske er — eftir því sem hv. þm. Lúðvík Jósepsson sagði — við eins margt fólk bundið hjá öðrum peningastofnunum en bankakerfinu, þ. e. viðskiptabönkunum og Seðlabankanum. Ég held að athuga þyrfti það eitthvað nánar.

Hann segir: Stofnlánadeild landbúnaðarins er ekki og á ekki að vera neinn sérstakur hluti af Búnaðarbankanum. — En það vill nú svo til, að 1. gr. stofnlánadeildarlaganna hefst þannig, með leyfi forseta: „Stofnlánadeild landbúnaðarins er deild í Búnaðarbanka Íslands. Um samband stofnlánadeildar við aðrar deildir bankans fer eftir lögum um Búnaðarbanka Íslands og ákvæðum þessara laga.“ Svo segir hv. þm., að Stofnlánadeild landbúnaðarins sé ekki hluti af bankanum. Í 5. gr. þessa frv., sem hv. þm. flytur og er nú hér til umr., segir, með leyfi forseta: „Stofnlánadeild landbúnaðarins er deild í Búnaðar- og Útvegsbankanum“, en síðan heldur hann því fram, að Stofnlánadeildin sé ekki hluti af Búnaðarbankanum. Þetta er nú málflutningur í lagi.

Hv. þm. sagði, að mikill sparnaður yrði með sameiningunni, t. d. væri þá hægt að leysa um nokkurn tíma húsnæðisvandamál Seðlabankans, eins og þm. komst að orði: „Ætli hann gæti þá ekki rúmast í bankahúsnæði annars hvors þessara banka? — Ekki dettur mér í hug að fyrrv. viðskrh. komi til hugar að þetta sé í raun og veru hægt, en hann heldur kannske, að einhverjir verði hrifnir af að heyra að hann hafi sagt þetta. Það er nefnilega ekki svo einfalt, ef ætti að sameina þessa banka, að hægt væri að bera út úr öðrum bankanum og það væri allt og sumt.

Þá vil ég spyrja hv. þm. hvernig stendur á því, ef honum dettur þetta í hug, að starfsmannafjöldinn í Landsbankanum er eins og í tveimur Búnaðarbönkum og einum Útvegsbanka. Fjöldinn í Landsbankanum er þetta mikill. Hann er eins og tvöfaldur starfsmannafjöldinn í Búnaðarbanka plús Útvegsbanka. Nei, ég held að þessi fullyrðing sé ekki vegna þess að hv. þm. trúi þessu sjálfur, heldur telur hann sér henta þetta.

Ég held að það mál, sem kannske væri mest aðkallandi af þessu öllu, að athuga, sé bankaeftirlitíð. Ég held það þurfi að breyta því. Ég held það sé ákaflega óeðlilegt, að bankaeftirlítið sé í höndum Seðlabankans. Ég veit ekki betur en víða annars staðar sé þetta sjálfstæð stofnun eða í tengslum við viðskrn. eða bankamálarn. Og auðvitað þarf bankaeftirlitið að líta eftir Seðlabankanum og starfsemi hans eins og öðrum bönkum. Ég tel það galla á báðum þeim frv., sem hafa verið lögð hér fram, að þessi þáttur hefur ekki verið athugaður, og ég tel óeðlilegt að hafa þetta ástand áfram.

Eins og ég sagði áðan mundi ekki standa á mér að endurskoða öll þessi mál, en ég held að þau séu lítið könnuð, eins og ég tel mig hafa sýnt fram á, bæði með því að lesa upp úr þessari skýrslu, sem bankamálanefndin frá 1979–1974 vann að og lagði fram, og enn fremur með ýmsum tölum, sem ég hef komið með. Ég held að það sé mjög eðlileg afstaða hjá bændum núna, eins og öll umr. hefur faríð fram í þjóðfélaginu, að þeir séu á verði. Þetta frv. er einu liður í því að þrengja að þeim. Ekki er hægt að bæta stöðu Útvegsbankans með öðru eða sameina þessa banka öðruvísi en þannig, að það hlýtur að þrengja að hinum. Það má heita útilokað; þó að hv. þm. hristi höfuðið. Það breytir engu um staðreyndir. Hann er vanur því að hrista höfuðið og bera á móti rökum ef það hentar honum. Sannleikurinn hjá honum er yfirleitt það sem honum hentar.

Ég geri ekki ráð fyrir því, að ég taki aftur til máls, nema þá af sérstöku tilefni. Ég geri ekki heldur ráð fyrir því, að þetta mál fari öllu lengra. Mig langaði aðeins að fá tækifæri til þess að svara ýmsu sem kom fram í máli hv. flm., en mér þótti miður, að hann gat ekki verið við. Í upphafi óskaði ég eftir því, að athugað væri, hvort hann gæti ekki verið viðstaddur, því að mér er það ekki að skapi að ræða við menn að þeim fjarstöddum þegar ég tel mig hafa ástæðu til að taka málflutning þeirra til athugunar.