01.11.1977
Sameinað þing: 11. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 335 í B-deild Alþingistíðinda. (260)

311. mál, sjónvarp

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Það er nú ekki tími til að ræða þetta mál ítarlega, en ég vil þakka hæstv. menntmrh. fyrir þá skýrslu sem hann hér flutti. Hann hlýtur að verða þess var af þessum umr., að áhuginn á þessu máli er ákaflega mikill og mönnum finnst að seint gangi um dreifingu sjónvarps, sem rétt er. En að ýmsu leyti getum við nú horft til baka í því efni, og ég held að það hafi því miður verið tekin dálítið skökk stefna í sambandi við fjáröflun til þessa máls frá upphafi. Þegar ég átti sæti í fjvn. fyrir alllöngu bar þessi mál á góma, ekki einu sinni, heldur líklega oftar, og þá voru þær raddir uppi innan fjvn. að skynsamlegasta leiðin væri að hækka allmikið afnotagjöld og verja þessari hækkun til dreifingar sjónvarps. Þessi till. náði því miður aldrei eyrum manna þannig að hún kæmist í framkvæmd. En ég held að þessi till. eigi enn rétt á sér og hana þurfi að skoða betur og með því móti að möguleiki að tryggja það réttlætismál að dreifa sjónvarpi sem víðast um landið.

Þessi till. kann að vísu að hafa þann annmarka að það verði dregið að einhverju leyti úr starfsemi útvarpsins, e.t.v. verði ekki hægt að verja jafnmiklu til dagskrárgerðar, hvorki útvarps né sjónvarps. En mér finnst það vera höfuðatriðið í þessu sambandi að á komist réttlát dreifing sjónvarpskerfisins áður en við leggjum í öllu meira í sambandi við dagskrá. Ég vildi koma þessu að í þessu sambandi.