14.04.1978
Sameinað þing: 66. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3451 í B-deild Alþingistíðinda. (2602)

343. mál, meðferð dómsmála

Tómas Árnason:

Herra forseti. Ég sé ástæðu til þess að færa hæstv. dómsmrh. þakkir fyrir þessa skýrslugerð. Það kemur margt fram í skýrslunni og kom einnig fram í þeirri ítarlegu ræðu sem hæstv. ráðh. flutti fyrir skýrslunni. Það komu þar mörg atriði fram sem menn sjá betur í heillegu ljósi þegar þau eru sett fram á þann hátt sem hér hefur verið gert. T. d. liggur alveg ljóst fyrir og tæmandi, hvernig málum vindur fram í dómskerfinu. Það eru tiltölulega fá mál af þeim mikla aragrúa mála sem mikil seinkun hefur orðið á í málsmeðferð. Hins vegar er ástæða til þess að gefa því gaum, að margháttuð atvik geta valdið seinkun mála, t. d. þau, sem eru þó nokkuð algeng, að eins og þm. er kunnugt leita dómstólar og sáttanefndir sátta í málum og oft á tíðum er það svo, að aðilar freista þess að semja um mál sín. Slíkar samningaumleitanir og vonir um að sætta mál og semja um mál geta valdið verulega miklum drætti á einstökum málum. Þetta þekki ég af eigin reynd frá því að ég var málaflutningsmaður fyrir mörgum árum. Ég man t. d. eftir því, að í einu máli, sem ég rak fyrir aðila, einkamáli gegn ríkinu, var um langan tíma freistað að ná samkomulagi um málið og voru gefnar vissar vonir í því efni, sem ekki rættust svo síðar meir og ekki varð af samningum, en þetta varð til þess að fresta þessu máli um að því er mig minnir allt að tveimur árum. Þetta segi ég nú aðeins og nefni sem dæmi um það, hversu margháttuð atvik það eru sem geta valdið seinkun á meðferð mála. Eigi að síður er enginn vafi á því, að það hefur gildi að mínu mati að ræða opinberlega um dómsmálin og meðferð þeirra. En vandasamt er að ræða af skynsemi og skilningi um dómsmái, sérstaklega þó sakamálin. Mál eru flókin, þau liggja ekki alltaf í augum uppi. Mörg atriði mála eru þannig, að menn verða að setja sig mjög vel inn í þau til þess að vera í raun og veru umræðuhæfir um þau. Þess vegna er vandasamt að ræða um dómsmál og mýmörg dæmi þess, að um þau er rætt af litlum skilningi, lítilli þekkingu og lítilli tillitssemi.

Ástæða er til þess að víkja aðeins að því, að hæstv. dómsmrh. hefur í ráðherratíð sinni beitt sér fyrir óvenjulegum umbótum á sviði dómsog sakamála. Það má segja, að hver bálkurinn hafi rekið annan í þessum efnum. Lagðir hafa verið fyrir þing og afgreiddir frá þingi stórir bálkar um dómsmál á sviði réttarfars og sakamála og dómsmálaskipunar, sem ég er ekki í nokkrum vafa um að muni valda verulegum framförum í þessum málaflokkum.

Að sjálfsögðu er það undirstöðuatriði í stjórnskipun okkar og forsenda fyrir lýðræði og frelsi í landinu, að dómstólar starfi óháðir. Það er grundvallaratriði í stjórnskipun okkar að skipta ríkisvaldinu í þrjá þætti, eins og kunnugt er: löggjafarvaldið, framkvæmdavaldið og dómsvaldið, og mjög áríðandi, að dómstólarnir séu óháðir, og raunar forsenda fyrir frelsi og lýðræði í landinu. En það þarf ekki að þýða, að þeir séu undanþegnir gagnrýni. Það er annað mál. Réttmæt gagnrýni á störfum dómstóla á fullan rétt á sér, en hún verður að vera rökstudd. Órökstudd gagnrýni og allt að því aðdróttanir um störf dómstóla grafa undan trausti þjóðarinnar á þeim stofnunum sem eru forsenda fyrir lýðræði og frelsi.

Ég held að það sé alveg rétt, sem hér hefur komið fram, að gagnlegt sé að ræða þessi málefni á Alþ. og Alþ. fylgist með störfum dómstóla, án þess þó að það sé á neinn hátt að hlutast til um eða ganga inn á verksvið dómstólanna sjálfra. En það, sem hefur fyrst og fremst valdið gagnrýni á störf dómstóla, er að málum hafi ekki miðað það áfram í meðferð sem æskilegt væri. Sumt af þeirri gagnrýni er réttmæt, en ég hef áður sagt það á Alþ. og vil gjarnan endurtaka það, að þau kynni, sem ég hef af íslenskum dómurum og dómstörfum eru þannig, að íslenskir dómstólar séu yfirleitt réttlátir dómstólar, nokkuð frjálslyndir og að dómarar vinni störf sín yfirleitt af kostgæfni og af hinni mestu prýði, þó að undantekningar finnist í þessum efnum eins og dæmin sanna. Ég fyrir mitt leyti get lýst yfir trausti á íslenskum dómstólum, þó að ég sé á engan hátt að segja, að ekki megi sitthvað finna að dómarastörfum einstakra dómara. En það er nú svo með dómsmál, þau eru yfirleitt deilumál, þau eru úrskurðarmál og orkar margt tvímælis. Það er því engan veginn eitt einsýnt í mörgum tilfellum, hvernig á að dæma í málum.

Ég vil ítreka þakkir til hæstv. dómsmrh. fyrir þessa skýrslugjöf og hina ítarlegu ræðu hans um þessi málefni, sem vissulega sýnir í tiltölulega stuttu máli og skýru, hvernig raunverulega er ástatt í þeim efnum sem skýrslan tekur til.