14.04.1978
Sameinað þing: 66. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3453 í B-deild Alþingistíðinda. (2603)

343. mál, meðferð dómsmála

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson) :

Herra forseti. Ég vil þakka þeim hv. alþm., sem tekið hafa til máls og látið falla viðurkenningarorð varðandi þá skýrslu sem hér hefur verið lögð fram.

Út af fsp. hv. þm. Ellerts Schram um Hæstarétt vil ég segja nokkur orð.

Það er alveg rétt, að þessi skýrsla fjallar ekki um mál fyrir Hæstarétti. Lengst af hefur verið svo, að ekki hefur verið umtalsverður dráttur á málum fyrir Hæstarétti. Enn er það svo, að opinber mál eða sakamál eru tekin fyrir og afgreidd hjá Hæstarétti nokkurn veginn eftir því sem þau berast. Hins vegar hefur það gerst á síðustu árum, að einkamálum, sem skotíð er til Hæstaréttar, hefur mjög fjölgað og það orðið þannig, eins og hv. þm. vék að, að átt getur sér stað verulegur dráttur á meðferð einkamála hjá Hæstarétti. Þetta gerist þrátt fyrir það að fyrir fáum árum var fjölgað í Hæstarétti um einu hæstaréttardómara, þannig að þeir eru nú 6, og jafnframt var tekin upp sú regla, að Hæstarétti væri heimilt að skipta sér í deildir, þegar um minni háttar mál væri að tefla, og þeir gætu dæmt þrír í hverju máli. Ég held að e. t. v. hafi í framkvæmdinni kveðið minna að þessari deildaskiptingu en ætlast var til. Mér er hins vegar óhætt að segja það og hafa það eftir núverandi forseta Hæstaréttar, að lagt muni verða kapp á að nota þessa deildaskiptingu þar sem við verði komið. Þannig mun það t. d. vera svo, að í kærumálum, sem kölluð eru, dæma yfirleitt alls ekki nema þrír dómarar nú. Þetta á auðvitað að verða til þess að geta nokkuð greitt fyrir því, að einkamál fáist afgreidd í Hæstarétti með þeim hætti sem vera þarf, því að auðvitað er nauðsynlegt að menn þurfi ekki lengi að biða eftir dómi Hæstaréttar.

En þrátt fyrir að fjölgun dómara ætti sér stað á sínum tíma með þessum hætti og heimild sé til deildaskiptingar telur Hæstiréttur sig horfa fram á það, að í óefni stefni í þessu efni. Þess vegna hefur hann óskað eftir því fyrir ekki alls löngu og reyndar látíð þeirri ósk sinni fylgja tilbúið frv., að gerðar væru nokkrar breytingar á hæstaréttarlögunum og þá fyrst og fremst sú, að dómurum væri fjölgað um einn, þannig að hæstaréttardómarar yrðu sjö. Með þeim hætti telur hann þægilegra að koma við deildaskiptingu og það sé frekar þá einn til vara, og jafnframt að Hæstarétti sé veitt heimild til þess að ráða sér aðstoðarmenn eða sérfræðinga sem gætu létt undir eitthvað með störfum dómara.

Þá er einnig í þessu uppkasti ákvæði um verulega hækkun áfrýjunarfjárhæðar, en í því efni eru nú ekki að mínum dómi sett nægilega ströng skilyrði. Það er vegna þess líka hve krónurnar hafa breytt um gildi, þannig að það er alveg réttmæt ástæða að hækka áfrýjunarupphæð. Líka er það haft í huga, að vera kann að áhuginn byggist stundum að einhverju leyti á þessu sjónarmiði, sem hv. þm. minntist á, að menn væru kannske að reyna að tefja eitthvað afgreiðslu máls og greiðslu í þeirri von, að þeir gætu greitt með eitthvað verðminni krónum þegar til kæmi.

Þessi ósk og þetta mál liggur sem sagt fyrir af hendi Hæstaréttar. Hins vegar hefur ekki verið talið rétt að flytja þetta mál inn í þingið á þessum síðustu dögum þessa þings. Það er líka sumpart vegna þess, að til meðferðar er á Alþ. og hefur verið á Alþ. frv. til lögréttulaga sem liggur nú fyrir hv. Ed. Verði það frv. afgreitt og verði það að lögum er gert ráð fyrir því, að lögrétta svokölluð dæmi sem efra og síðasta dómstig í ýmsum málum og mundu því þar af leiðandi létta mjög verulega af Hæstarétti. Þess vegna hefur verið talið rétt að reyna til þrautar, hver afstaða þm. væri til þess máls. En mér er alveg ljóst, að ef ekki verður sjáanlegt að frv. um lögréttu verði afgreitt á þessu þingi, — ég geri nú ekki endilega þá kröfu, en svona í næstu framtíð, — þá verður ekki komist hjá því að taka til greina að mínu áliti þá ósk, sem Hæstiréttur hefur sett fram um þetta efni, og bæta starfsaðstöðu hans og starfskilyrði með þeim hætti sem hann hefur farið fram á.

Þetta vildi ég aðeins láta koma fram. Afstaða mín til þess máls er jákvæð og ég mun styðja það þegar þar að kemur, þó að annar kunni að sitja þá í sæti dómsmrh., að tekin verði afstaða til þess máls, þó að ekki hafi þótt fært að verða við þessum tilmælum nú á þessum vordögum.

Ég býst við því, að það sé talsvert þýðingarmikið og gæti horft til hagræðingar í störfum Hæstaréttar að hann fengi fleira aðstoðarfólk, ef svo mætti segja, því þó að dómarar vilji auðvitað sjálfir og verði sjálfir að skoða málin og athuga allt, þá getur verið ýmis vinna sem þeir geta falið öðrum að inna af hendi og getur létt störf þeirra eitthvað.

Ég endurtek svo þakklæti mitt til þeirra hv. þm., sem tekið hafa til máls, og leyfi mér aftur að láta í ljós þá von, að það verði árviss atburður á Alþ. að lögð verði fram og rædd skýrsla um dómsmál.