14.04.1978
Sameinað þing: 66. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3455 í B-deild Alþingistíðinda. (2604)

177. mál, Suðurnesjaáætlun

Flm. (Gils Guðmundsson) :

Herra forseti. Till. sú, sem nú er tekin til umr. um alhliða atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum, var flutt og er flutt vegna þess alvarlega ástands sem nú um sinn hefur blasað við á þessu fjölmenna landssvæði og segja má að ógni þar allri byggð og mannlífi. Enda þótt við tillögugerðina sé höfð hliðsjón af hinum tímabundnu erfiðleikum atvinnuveganna á Suðurnesjum er megintilgangurinn með tillöguflutningnum þó að benda á nauðsyn markvissra aðgerða og skipulagningar með frambúðarlausn í huga. Er nauðsynlegt að leggja á það ríka áherslu, að sérhver bráðabirgðalausn þeirra rekstrarvandamála, sem þarna er um að ræða, mun reynast næsta haldlítil, ef hún er ekki við það miðuð að verða fyrsti áfangi heildaráætlunar með framtíðina í huga. Hér er því mikið í húfi. Ljóst er að skjótar aðgerðir eru óhjákvæmilegar. En því aðeins koma þær að verulegu gagni, að þær stuðli að aukinni hagræðingu og bættu skipulagi atvinnurekstrar á þessu landssvæði til frambúðar, en þar er mikilla breytinga þörf, eins og ég mun koma nánar að hér á eftir.

Þegar rætt er um Suðurnes í till. þessari táknar það öll sveitarfélögin í Reykjaneskjördæmi sunnan Hafnarfjarðar. Eru meðal þessara byggðarlaga þrír af stærstu útgerðarstöðum landsins undanfarna áratugi: Grindavík, Keflavík og Sandgerði. Alls eru íbúar sveitarfélaga þessara yfir 12 þús. að tölu. Þar hefur sjávarútvegur jafnan verið höfuðatvinnuvegurinn og svo er vissulega enn. Eru það málefni þeirrar atvinnugreinar, sem fyrst og fremst hljóta að verða viðfangsefni Suðurnesjaáætlunar, þótt ýmislegt fleira hljóti þar til að koma. Svo stór er hlutur sjávarútvegs á þessu svæði, að hann er hvergi hlutfallslega meiri á landinu öllu. Hluti mannafla, sem starfar við sjávarútveg á landinu öllu, er talinn um 12.5%, en er um 40% á Suðurnesjum. Það eru eingöngu Snæfellsnesbyggðir og Vestfirðir sem hafa að þessu leyti svipað hlutfall og Suðurnes.

Hin erfiða staða útgerðar og fiskvinnslu á Suðurnesjum er ekki ýkjagamalt fyrirbæri. Það má heita einkenni allra síðustu ára, að ástandið sé lakara í þessum byggðarlögum en víðast hvar annars staðar á landinu. Þessu var löngum öfugt farið. Þó hefur nú hina síðustu mánuði og missiri mátt heyra í fjölmiðlum hvað eftir annað, að orsök hinnar slæmu afkomu sjávarútvegs á Suðurnesjum hljóti að vera einhver sérstök óráðsía sjávarútvegsmanna á þessum slóðum, allt frá útgerðarmönnum, skipstjórum og öðrum sjómönnum og yfir til fiskverkunarfólksins. Þegar tillit er tekið til þess, að allt fram til síðustu ára stóð útvegur betur á Suðurnesjum en víðast hvar annars staðar á landinu og það er að langmestu leyti sama fólkið sem við útveginn vinnur nú eins og á hagsældartímunum, er fráleitt að staðhæfa að Suðurnesjamenn séu eitthvert 2. eða 3. flokks fólk sem ekki kunni til verka við útgerð, sjósókn og fiskvinnslu. Skýringarnar á þeim breytingum, sem orðið hafa, eru líka allt aðrar. Þær eru bæði nærtækar og augljósar þegar að er gáð. Hitt er svo annað mál, að m. a. vegna lítils skipulags og gamaldags útgerðarforms, þar sem of lítils samræmis gætir milli fiskveiðanna annars vegar og fiskvinnslunnar hins vegar, hafa Suðurnesjamenn orðið helst til seinir til að mæta hinum nýja og aðsteðjandi vanda með nægilega markvissum aðgerðum. En þar er þó á það að líta, að svo mikil röskun hefur hér orðið á skömmum tíma, að þess hlaut að sjá verulegan stað í versnandi afkomu. Er mér fyllilega til efs, að önnur byggðarlög, sem orðið hefðu fyrir hliðstæðum skakkaföllum, hefðu átt miklu auðveldara með að ná sér upp úr slíkum öldudal á skömmum tíma. En nú er sýnt að hér verður að bregðast við af skynsemi og fullri ábyrgðartilfinningu. Hér er ekki um að ræða vandamál Suðurnesjamanna einna, heldur snertir það þjóðfélagið allt. Þegar afli á mikilvægu útgerðarsvæði minnkar á skömmum tíma um fullan helming þrátt fyrir svipaða sókn, sama tækjakost og svipaðan mannafla hlýtur þess að sjá verulegan stað. Á sama tíma vex sókn og afli annars staðar við landið. Þarf þá væntanlega ekki að leita annarlegra skýringa á hinum mikla aðstöðumun, enda þótt það hafi verið gert einatt af lítilli sanngirni.

Hér er hvorki tími né ástæða til að rekja útgerðarsögu Suðurnesja, en þess eins skal getið, að verstöðvarnar á þessum slóðum báðum megin á Reykjanesskaga hafa verið einhverjar hinar aflasælustu hér á landi og sjómennirnir þar í fremstu röð. Ástæðan er vitanlega sú, að á öllum venjulegum tímum, þegar fiskigöngur geta talist eðlilegar og hrygningarstofn þorskins er sæmilega sterkur, liggja útgerðarstaðirnir á Suðurnesjum sérlega vel við til veiða, enda munu aflabrögð löngum hafa verið árvissari þar en víða annars staðar við landið. En nú á allra síðustu árum hafa orðið þær stórfelldu breytingar, að magn vertíðarfisks á hrygningargöngu er einungis brot af því sem áður var, jafnframt því sem sókn okkar sjálfra, okkar Íslendinga, í ókynþroska fisk á öðrum hafsvæðum við landið hefur stóraukist. Afleiðingarnar eru þær, að á síðustu 4 árum hefur bolfiskafli bátaflota Suðurnesjamanna minnkað um meira en helming þrátt fyrir svipaðan skipastól og síst minni sókn en áður. Þetta er að sjálfsögðu langstærsta orsök stórversnandi afkomu fiskveiða og fiskiðnaðar á svæðinu, þótt þar komi að vísu fleira til. Eitt af því er breytt samsetning aflans, hlutfallslega minni þorskur og meiri ufsi en áður var. Gefur auga leið, að þess hlýtur að sjá víða stað þegar svo gífurleg og skyndileg breyting til hins verra verður á aflabrögðum eins og hér hefur orðið. Þá verða fiskvinnslustöðvarnar á svæðinu allt of margar miðað við fiskmagnið sem fáanlegt er til vinnslu. Augljós er aðstöðumunurinn þegar svo er komið, að í tveim jafnstórum og álíka dýrum frystihúsum, öðru á Suðurnesjum, hinu til að mynda á Vestfjörðum eða Norðurlandi, fást 2–3 fiskar til vinnslu í Vestfjarða- eða Norðurlandshúsinu á móti hverjum einum á Suðurnesjum. Er þetta nokkurn veginn sú mynd sem við blasir nú.

Því er ekki að leyna, að útgerðarstaðirnir á Suðurnesjum voru engan veginn nægilega vel undir það búnir að mæta verulegum skakkaföllum. Þegar sú atvinnuuppbygging hófst, sem vinstri stjórnin beitti sér fyrir og gerbreytt hefur til bóta afkomu og öllu mannlífi víðs vegar um land, voru Suðurnesjamenn óneitanlega helst til seinir til og gripu ekki sem skyldi tækifærið til að endurnýja skipakost sinn og hraðfrystiiðnað. Þessu olli margt, m. a. aðstöðumunur að því er tók til lánafyrirgreiðslu, en þó öðru fremur hitt, að á sama tíma og atvinnuuppbyggingin í sjávarútvegi átti sér stað hraðminnkaði aflinn á miðum Suðurnesjamanna og rekstur allur gerðist stórum erfiðari en áður var. Afleiðingin hefur orðið sú, að nú sitja Suðurnesjamenn uppí með mörg en tiltölulega illa búin frystihús og aðrar fiskverkunarstöðvar svo og með flota, sem hefur hvergi nærri reynst fær um að afla þess hráefnis sem til þarf ef sjávarútvegur á að verða rekinn á þessu svæði í eitthvað svipuðum mæli og áður var.

Ég tel ástæðulaust að rekja í löngu máli, hvernig langvarandi erfiðleikar svo veigamikils atvinnuvegar sem sjávarútvegur hefur einatt verið á Suðurnesjum veldur kyrkingi á öllum sviðum og byggðarlögin lenda í vitahring sem torvelt er úr að komast. Aldrei hefur ástandið í þessum efnum þó verið jafnilli og nú í vetur, þegar mörg frystihús og aðrar verkunarstöðvar á þessu svæði voru lokaðar þegar í upphafi vetrarvertíðar og lokun hefur vofað yfir og vofir enn yfir hjá ýmsum öðrum.

Sú er meginhugsun þeirrar till., sem hér er flutt um rannsókn þessara mála með framtíðina í huga, að kleift sé og nauðsynlegt að skipuleggja sjávarútveg og fiskiðnað á Suðurnesjasvæðinu í heild með tilliti til atvinnuþarfa fólks og þjóðhagslegrar hagkvæmni við fjárfestingu og rekstur. Á þessu svæði eiga að vera að ýmsu leyti góðir möguleikar á margvíslegri samvinnu og verkaskiptingu, bæði við hráefnisöflun, löndun og vinnslu sjávarafurða. Fjarlægðir milli útgerðarstaða eru þarna tiltölulega litlar, en vegir flestir orðnir góðir og öruggir allan ársins hring. Eftir að fiskmagn það, sem kom til vinnslu á Suðurnesjum, stórminnkaði hafa menn þar um slóðir rætt margt um þá staðreynd, að ekkert vit væri í því, að reka öll hin mörgu hraðfrystihús og fiskverkunarstöðvar með bálfum afköstum eða minna en það. Menn hafa ekki verið á einu máli um hvað til bragðs skyldi taka í þessum efnum. Talað hefur verið aðallega um tvær leiðir: aðra þá að fækka fiskverkunarstöðvunum og þá jafnvel stórlega og að auka jafnframt hagræðingu þeirra sem eftir yrðu, hina að leggja allt kapp á að auka togaraútgerð frá svæðinu og reyna að tryggja þannig meiri fisk til vinnslu en þar er um að ræða nú. Það er þó augljóslega erfitt með hliðsjón af ástandi fiskstofnanna. En í hugum okkar flm. þessarar till. er það þó vafalaust, að fara verður báðar þessar leiðir að ákveðnu marki. Tvímælalaust væri þjóðfélagslega rangt að eyða þarna stórfé í skipulagslausa í fjárfestingu í fiskiðnaði. Á hinn bóginn er brýnt að auka þar hagræðingu og framleiðni með markvissri uppbyggingu. En jafnhliða þarf að reyna með öllum tiltækum ráðum að tryggja stöðugri og fjölbreyttari öflun hráefnis til fiskiðnaðar en nú er um að ræða á þessu svæði.

Við, sem þessa till. flytjum, leggjum á það áherslu, að kannað verði sérstaklega með hverjum hætti best verði tryggð útgerð hæfilegra margra togara sem þjónuðu Suðurnesjasvæðinu öllu. Varðandi eignaraðild og rekstrarform slíkrar togaraútgerðar á Suðurnesjum virðist einstætt að sækja fyrirmyndir þangað sem útgerð á félagslegum grundveili hefur gefið hvað besta raun. Telja verður æskilegt að aðild sveitarfélaga á svæðinu komi þarna til og þau verði e. t. v. burðarás slíkrar útgerðar, hugsanlega með þátttöku fiskvinnslustöðva og fleiri aðila. Kanna þarf ennfremur með hverjum hætti fulltrúar sjómanna og landverkafólks geta öðlast raunverulegt áhrifavald um rekstur slíks fyrirtækis, sem fyrst og fremst væri ætlað það hlutverk að tryggja sem öruggasta og jafnasta atvinnu allt árið. Veigamikill þáttur þeirrar áætlunar, sem gera þarf um framtíðarskipan útgerðar og fiskvinnslu á Suðurnesjum, er vitanlega till. um fjármögnun nauðsynlegra framkvæmda. Lánastefnu fjárfestingarsjóða þarf að samræma sem mest þeim fyrirætlunum um atvinnuuppbyggingu á svæðinu sem till. verða gerðar um.

Enda þótt við flm. leggjum mjög ríka áherslu á endurskipulagningu og uppbyggingu fiskveiða og fiskiðnaðar með framtíðina í huga, er okkur ljóst að fleira þarf að koma til ef treysta á afkomu fólks á Suðurnesjum til langrar frambúðar. Því bendum við í grg. með till. einnig á ýmsar aðrar leiðir til að ná settu marki, en markið er að sjálfsögðu fjölþætt og þróttmikið atvinnulíf á þessu landsvæði. Að okkar dómi verður einnig við áætlunargerð af þessu tagi, sem miðast við nokkra framtíð, að taka mið af þeim sérstöku aðstæðum sem eru þarna syðra og vonandi reynast tímabundin, en ekki varanlegt ástand. Þar er um að ræða dvöl erlends hers og margvíslega atvinnu í beinum og óbeinum tengslum við herinn. Fáir munu þeir, sem telja sig vilja hafa hér útlendan her um aldur og ævi. Ætti því að geta orðið samstaða um að reikna þurfi með öðrum atvinnurekstri sem í framtíðinni gæti tryggt öllu verkfæru fólki á Suðurnesjum örugga atvinnu.

Ég efast um að menn hafi almennt gert sér fulla grein fyrir því, hve mjög þeim Suðurnesjamönnum hefur fjölgað allra síðustu árin sem hafa atvinnu á Keflavíkurflugvelli eða í tengslum við dvöl hersins á vellinum. Er hvort tveggja, að hinu íslenska starfsliði þar hefur fjölgað í heild, en einnig hefur Suðurnesjamönnum fjölgað hlutfallslega svo að segja með hverju ári. Ég hef fengið um þetta upplýsingar hjá varnarmáladeild utanrrn. og eru þær í meginatriðum þessar: Á árunum 1951–1974 unnu að meðaltali um 1200 Íslendingar á vegum hersins eða í tengslum við hann. Frá 1958 til 1974 var talan nokkuð jöfn, á bilinu 1000–1200 manns, en síðustu árin hefur á ný fjölgað þeim mönnum inniendum, sem vinna í þágu hersins, og eru þar nú, að því er mér er tjáð, um 2 þús. Íslendingar að störfum, ýmist hjá herliðinu beint eða verktökum sem vinna í þágu þess. Þá hefur og smám saman orðið sú breyting, eins og ég áðan sagði, að Suðurnesjamönnum hefur fjölgað hlutfallslega, en starfsmönnum af Reykjavíkursvæðinu fækkað að sama skapi. Er talið að um 70% þeirra, sem nú starfa hjá hernum, séu Suðurnesjamenn, en um 30% annars staðar að.

Þegar hvort tveggja er haft í huga, bein fjölgun íslenskra starfsmanna í tengslum við herinn og hlutfallsleg fjölgun Suðurnesjamanna við þau störf, kemur í ljós að á undanförnum árum hefur Suðurnesjamönnum við herstöðvarvinnu fjölgað úr 600–700 manns í 1200–1300 manns, eða nær því um helming. Þegar þessi þróun verður samfara mjög alvarlegum samdrætti fiskveiða og fiskvinnslu á svæðinu er vissulega um alvarlegt mál að ræða sem gefa verður gaum að. Háskinn, sem þessu er samfara, þegar til lengdar er lítið a. m. k., ætti að vera hverjum hugsandi manni ljós, hver sem afstaða hans til erlendrar herstöðvar í landinu er að öðru leyti. Eins og ég sagði áðan hlýtur það að verða meginstefnan við atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum þegar til frambúðarinnar er lítið, að þar verði hægt að tryggja öllu verkfæru fólki örugga atvinnu við íslenskan atvinnurekstur af ýmsu tagi. Við flm. þessarar till. teljum einsætt að miða verði áætlunargerð Framkvæmdastofnunar, eins og lagt er til í till., við það, að því annarlega ástandi, sem erlend herstöð í landinu óneitanlega er, ljúki og að fjölþættur innlendur atvinnurekstur komi þar í staðinn.

Til viðbótar því, sem áður er sagt um sjávarútveginn, skal að 1okum stuttlega drepið á nokkra möguleika sem virðast vera fyrir hendi til að auka fjölbreytni atvinnulífs á Suðurnesjum ef kappsamlega verður að því unnið.

Ljóst er að Suðurlandssíld á með hóflegri veiði og skynsamlegri nýtingu að geta orðið mikil búbót og góður atvinnuauki á komandi árum. Telja verður hagkvæmt að nota aðstöðuna á Suðurnesjum til að fullvinna margháttaða vöru úr þessu góða og dýrmæta hráefni. Þarf að kanna hagkvæmni þess að koma upp a. m. k. einni niðursuðu- og niðurlagningarverksmiðju síldar og fleiri fiskafurða á svæðinu.

Bent skal á þá möguleika sem í því kunna að felast að stunda í stórum stíl fiskrækt í hæfilega heitum jarðsjó. Til þess eru talin sérlega góð skilyrði á Suðurnesjum, þar sem er annars vegar jarðsjórinn og hins vegar hráefni frá fiskvinnslustöðvunum, en slík starfsemi byggist á nýtingu fisks og fiskúrgangs. Þegar er verið að hefja lokatilraunir með slíka ræktun svonefnds laxbirtings í Grindavík og einnig er þar verið að hefja framleiðslu í smáum stíl. Sé það rétt, sem ýmsir telja, að fiskrækt með þessum hætti eigi framtíð fyrir sér, hlýtur að fylgja í kjölfarið niðursuðuiðnaður og önnur fullvinnsla á þeim fiski, þá einkum laxi og silungi, sem ræktaður yrði.

Þá yrði nauðsynlegt að kanna hugmyndir um framleiðslu rafmagns á Suðurnesjum þar sem jarðgufa yrði notuð til framleiðslunnar. Er talið að slík rafmagnsframleiðsla geti auðveldað ýmsa þá iðnaðarframleiðslu sem háð er raforku á hóflegu verði.

Aðeins skal hér drepið á væntanlega saltvinnslu eða saltverksmiðju á þessu svæði. Stofnað hefur verið fyrirtæki til að reisa tilraunaverksmiðju til vinnslu salts úr heitri jarðgufu og verður verksmiðjan byggð við jarðhitasvæðið á Reykjanesi. Gert er ráð fyrir að þessi litla tilraunaverksmiðja geti tekið til starfa síðar á þessu ári. Hér er að sjálfsögðu um tilraun að ræða, en við hana eru óneitanlega bundnar töluverðar vonir um fjölbreyttan iðnað.

Naumast verður því lengi skotið á frest að reisa, og þá ekki síst hér við Faxaflóa, a. m. k. eina fullkomna fiskmjölsverksmiðju, en verksmiðjukostur okkar á því sviði er því miður orðinn býsna úreltur og á engan hátt sambærilegur við það sem nú gerist best hjá nálægum þjóðum. Verksmiðjur okkar eru allar eldþurrkunarverksmiðjur, gagnstætt því sem gerist hjá keppinautum okkar, sem yfirleitt reka verksmiðjur búnar til gufuþurrkunar. Talið er að fullkomin verksmiðja með gufuþurrkun sé jafnvel hreinlega forsenda þess, að fiskmjölsiðnaður geti tekið hér eðlilegri og æskilegri þróun. Skal í því sambandi bent á þá merku tilraunastarfsemi sem fram fer í því skyni að reyna að hagnýta fiskmjöl til manneldis. Líklegt má telja að beislun jarðgufu til þessara nota muni reynast hagkvæm. Telja flm. till. a. m. k. einsætt að rannsakað verði, hvort ekki sé skynsamlegt og hagkvæmt að gera ráð fyrir því, að reist verði slík fyrsta flokks verksmiðja með gufuþurrkun og að hún komi upp á Suðurnesjum.

Enda þótt hér hafi fyrst og fremst verið bent á ýmsa möguleika í sambandi við bætt skipulag sjávarútvegs og aukna fjölbreytni fiskiðnaðar, þarf jafnframt að rannsaka skilyrði til að reka á Suðurnesjum margvíslegan iðnað af öðru tagi. Verður að telja mjög sennilegt að slíkt sé tiltölulega hagkvæmt, einkum ef um ódýra raforku yrði að ræða. Ber í þessu sambandi að hafa í huga þörfina á því að koma upp margs konar léttum iðnaði fyrir aldraða og öryrkja, og kynni oft að vera hægt að tengja slíkan iðnað öðrum rekstri.

Herra forseti. Margt hefur verið rætt og ritað um jafnvægi í byggð landsins og á síðari tímum hefur ýmislegt verið gert til að efla það jafnvægi. Sú kenning virðist hafa átt töluverðu fylgi að fagna, að útilokað væri að jafnvægisröskun gæti átt sér stað í nokkurri byggð við sunnanverðan Faxaflóa, í nágrenni Reykjavíkur eða höfuðborgarsvæðisins. En ég vil leyfa mér að spyrja: Hvað á að nefna það þegar afli á tilteknu landssvæði minnkar um helming eða jafnvel meira en helming á skömmum tíma, þrátt fyrir a. m. k. jafnmikla ef ekki aukna sókn, svipaðan mannafla og að sjálfsögðu stóraukinn tilkostnað? Þegar slíkt gerist á sama tíma og afli vex þó nokkuð, að vísu allvíða með aukinni sókn í öðrum landshlutum, þ. e. a. s. afli Íslendinga, er a. m. k. óhætt að fullyrða að einhvern tíma hefði slíkt verið talin röskun á byggðajafnvægi eins og það sem orðið hefur á Suðurnesjum og það jafnvel stórfelld röskun.

Ég fer nú að ljúka máli mínu. Ég þykist mega fullyrða að sú dökka mynd, sem ég hef dregið upp af stöðu sjávarútvegs á Suðurnesjum um þessar mundir sé síst of svört. Ástandið er vissulega alvarlegt og á þessu máli þarf að taka með þeim hætti, að jafnframt því sem sjálfsagt þarf að grípa til óhjákvæmilegra skammtímaúrræða, og þau hafa því miður látíð helst til lengi á sér standa, þá verði sem allra flestar, jafnvel skammtímaaðgerðir að miðast við að þar væri verið að stiga fyrstu sporin að framtíðarlausn þessa mikla vanda. Hér er óneitanlega mikið og erfitt verkefni fyrir höndum. Alhliða uppbygging fjölþætts atvinnurekstrar á Suðurnesjum gerist að sjálfsögðu ekki á mjög skömmum tíma. Það gerum við flm. okkur alveg ljóst. En fyrstu sporin þarf að stíga og það strax. Þá skiptir að sjálfsögðu miklu máli, að bráðabirgðaaðgerðirnar verði fyrsti liður þeirrar frambúðarlausnar sem þarf að verða takmarkið, en takmarkið hlýtur að vera að tryggja öllum íbúum á Suðurnesjum örugga atvinnu við þjóðnýt störf.

Ég legg svo til, herra forseti, að þessari till. verði vísað til atvmn.