14.04.1978
Sameinað þing: 66. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3461 í B-deild Alþingistíðinda. (2605)

177. mál, Suðurnesjaáætlun

Tómas Árnason:

Herra forseti. Það eru tvær þáltill., sem liggja fyrir Sþ. sem varða sérstaklega Suðurnes og þó alveg sér í lagi atvinnuástand á Suðurnesjum. Það er þessi till., sem hér er til umr. um Suðurnesjaáætlun, og einnig till. hv. þm. Odds Ólafssonar um könnun á atvinnulegri og félagslegri aðstöðu byggðarlaganna í nágrenni Keflavíkurflugvallar. Ég vil gera að umræðuefni þann þátt þessa máls sem snertir sérstaklega sjávarútveginn og fiskvinnslu á þessu svæði.

Ég vil fyrst víkja að því, að á undanförnum mörgum árum hefur verið unnið geysimikið starf í því efni að byggja upp hraðfrystiiðnaðinn í landinu. Í upphafi starfs Framkvæmdastofnunar ríkisins, þegar í febrúarmánuði 1972, var tekin um það ákvörðun að gera svonefnda hraðfrystihúsaáætlun. Þessi áætlun var undirbúin í samráði við mjög marga aðila sjávarútvegsins og í sjávarvöruiðnaðinum. Það voru höfð samráð við félagssamtök útvegsmanna og sjómanna. Það voru höfð samráð við tæknimenn og kunnáttu menn á þeim vettvangi. Það voru höfð samráð við sölusamtök hraðfrystiiðnaðarins og síðan varðandi fjármögnunarþáttinn samráð við viðskiptabanka og fjárfestingarlánastofnanir.

Ljóst var í upphafi, að þrátt fyrir þessi samráð þurfti að afla mjög mikilla gagna til þess að byggja slíka áætlunargerð á. Fór því fram mjög víðtæk gagnaöflun um ástand í þessum málum, könnun á viðhorfum og áformum eigenda frystihúsanna sjálfra. Afstaða sveitarfélaganna og aðila vinnumarkaðarins á hverjum stað og margt fleira kom inn í þessa mynd. Eftir að öll gögn höfðu borist og verið athuguð var gerð skýrsla eða fyrstu drög að hraðfrystihúsaáætlun, sem var kölluð: „Áform hraðfrystihúsanna um framkvæmdir og fjármögnun“. Rétt er að undirstrika að þessi áætlun var byggð í öllum aðalatriðum á frjálsu mati og áformum eigenda frystihúsanna. Hins vegar var svo næsta stig, eftir að gögnum hafði verið safnað og málin höfðu verið rækilega athuguð með heimsóknum, viðræðum og skoðunum á hverju einstöku fyrirtæki, að reyna að meta og gagnrýna framkvæmdaáform í samráði við framkvæmdaaðilana. Í mörgum tilfellum voru áformin endurskoðuð og síðan ákveðin forgangsröð, tímasetning o. s. frv.

Í allmörgum tilfellum voru gerðar breytingar á fyrirtækjunum að því leyti til, að fyrirtæki voru sameinuð eða nýir aðilar komu til sögn. Varð samruni fyrirtækja til þess að tryggja rekstrarafkomuna. Voru sameinuð fyrirtæki í útgerð og fiskvinnslu einmitt í þeim tilgangi að tryggja að slíkar einingar gætu borið sig í rekstri. Í mörgum tilfellum komu nýir aðilar til viðbótar og hlutafé var stórhækkað. Þessar framkvæmdir voru ýmiss konar. Fyrst ber að nefna ný hraðfrystihús eða fiskiðjuver, sem eru allmörg og hafa risið víðs vegar um landið, í öðru lagi stækkanir og viðbætur mannvirkja sem fyrir voru. T. d. hafa verið byggðar svokallaðar fiskmóttökur víðs vegar um landið, sem er alveg nýr liður í því að tryggja afkomu og rekstur þessara fyrirtækja svo og meiri og betri hagnýtingu þess hráefnis sem að berst á hverjum tíma. Í þriðja lagi var svo stóraukin vélvæðing og hagræðing í ýmsum efnum, sem ekki var hægt að koma við nema með meira húsrými og nýju fyrirkomulagi. Í fjórða lagi voru síðan athugaðir möguleikar til hráefnisöflunar og tengsla útgerðarinnar við fiskiðjuverin og svo sameining fyrirtækja í því sambandi. Reynt var að koma í veg fyrir að of mörg fiskiðjuver risu á sama stað, til þess að tryggja að þau, sem áhersla var lögð á að efla, hefðu nægilegt hráefni og þess vegna möguleika á sæmilega góðri afkomu.

Segja mætti að markmið hraðfrystihúsaáætlunarinnar hafi verið að byggja upp traust og rúmgóð mannvirki, þar sem hægt er að koma við hvers konar hagræðingu og vélvæðingu sem gerir reksturinn ódýrari og afkastameiri. Það sjónarmið, sem látið var sitja í fyrirrúmi í þessum málum, var fyrst og fremst hagræðing og aftur hagræðing. Það hefur borið talsvert á því, að rætt hafi verið um að við sumar þessar framkvæmdir hafi verið beint fjármagni á þann hátt, að ekki væri gætt rekstrarsjónarmiða. Þessi gagnrýni hefur verið talsvert hávær og hún hefur heyrst úr ýmsum áttum, en ég hef sjaldnar heyrt röksemdir þessu til stuðnings. Benda má á einstök dæmi í þessu efni, en í öllum aðalatriðum hefur þessi uppbygging einmitt verið fólgin í því að skapa rekstrareiningar sem hafa möguleika til þess að bera sig í rekstri.

Ekki má heldur gleyma því, að talsvert verulegur þáttur í þessari uppbyggingu og þessu starfi var fólginn í því að skapa í fiskvinnslunni sæmilega aðlaðandi vinnuaðstöðu fyrir fólkið, sem þar vinnur, og aðstöðu til tómstundaiðju og í heildinni að gera þessa vinnustaði þannig, að þeir geti kallast sómasamlegir, en það er langt frá því, að svo hafi löngum verið. Í sambandi við þetta var einnig rík áhersla lögð á bætt hreinlæti og bætta hollustuaðstöðu.

Það er mjög þýðingarmikið í þessum efnum, að tengsl útgerðar og fiskiðjuveranna séu traust. Í þessum efnum hafa mjög komið inn í myndina skuttogararnir, sem eru tengdir fiskiðjuverunum í langflestum tilfellum þannig að þeir afla og tryggja þeim stöðugt hráefni. Í raun og veru hafa orðið ótrúlegar framfarir í þessari grein á undanförnum árum, framfarir í þá átt að tryggja samfelldan rekstur fiskiðjuveranna og miklu meiri og betri nýtingu hráefnis en tíðkast hefur hér alla tíð, vildi ég segja. Það er t. d. orðið svo víðast, að skuttogararnir fiska sinn fisk í kassa, sem kallað er. Fiskurinn er ísaður í kössum og geymdur þannig um borð í skipunum. Honum er skipað upp í kössum inn í kældar móttökur og þar er fiskurinn unninn eftir hendinni. Kassarnir eru merktir og fiskurinn er svo tekinn eftir því hvað hann er gamall. Á þann hátt er hægt að koma við samfelldri starfsemi, samfelldri vinnslu sem tryggir stöðuga atvinnu og einnig það að nýting hráefnisins sé viðunandi.

Það er býsna mikill munur á þessu eða því fyrirkomulagi, sem langa tíð hefur tíðkast og tíðkast raunar enn á stöku stað, að fiskurinn er ekki kassaður í bátnum eða skipunum. Honum er ekið á vörubílum langar leiðir. Það eru ekki lokaðar geymslur á þessum bílum. Þær eru yfirleitt opnar. Ryk og alls konar óhreinindi berast að hráefninu. Síðan er þessu sturtað niður á gólf í þykkar kasir í fiskvinnslustöðvunum. Niðurstaðan verður auðvitað sú, að þetta er orðið ákaflega lélegt hráefni, svo ekki sé meira sagt, þegar kemur að því að vinna úr því framleiðsluvörur. Hér hefur orðið — ég vil segja hrein bylting í meðferð og vinnslu sjávarafla og e. t. v. meiri bylting en margir hafa gert sér grein fyrir. Og hún er býsna viðtæk og nær nokkurn veginn hringinn í kringum landið. En því er ekki að leyna og því nefni ég þetta hér sérstaklega, að Suðurnesin og jafnvel Reykjavík hafa orðið á eftir í þessum efnum. Þess vegna hefur það m. a. gerst, að afkoma þessarar atvinnugreinar á þessu svæði á í vök að verjast þegar af þessum ástæðum um þessar mundir.

Ég vil geta þess hér, að til uppfyllingar hraðfrystihúsaáætlunarinnar hefur verið varið miklu fjármagni á undanförnum árum. Á árunum 1971–1977 var t. d. varið rúmlega 10 milljörðum og 500 millj. kr. á verðlagi hvers árs til framkvæmda við hraðfrystihúsaáætlunina, og ef miðað er við verðlag í lok ársins 1976 hefur verið varið til þessarar áætlunar rúmlega 18 milljörðum kr. samtals. Þetta fjármagn hefur komið aðallega úr þremur áttum. Í fyrsta lagi úr Fiskveiðasjóði Íslands, í öðru lagi úr Byggðasjóði og í þriðja lagi frá eigendunum sjálfum, sem hafa lagt eigið fjármagn í þessar framkvæmdir og endurbætur. En því er ekki að leyna, að Reykjanesið og jafnvel Reykjavík hafa dregist aftur úr í frystiiðnaðinum. Fyrir því eru ýmsar ástæður.

Þjóðhagsstofnun gerði á síðasta hausti sérstaka athugun á afkomu frystihúsanna í landinu. Þar var gerð allítarleg grein fyrir stöðu og afkomu frystihúsanna og gerður nokkur samanburður á því eftir landshlutum. Kemur greinilega fram í þessari úttekt Þjóðhagsstofnunarinnar, að Suðurnesin sérstaklega hafa dregist aftur úr í sambandi við hagnýtingu sjávaraflans og þá alveg sérstaklega í hraðfrystiiðnaðinum. Það kemur fram í þessari skýrslu, að nýtingin úr hráefninu virðist lökust á Reykjanesi, en aftur best á Vestfjörðum. Ein af ástæðunum fyrir stöðu sjávarútvegsins og þá sérstaklega fiskvinnslunnar og þá sér í lagi frystiiðnaðarins á Suðurnesjum er einmitt að ekki hefur farið fram sú uppbygging á þessum vettvangi, sú samræming, vélvæðing og hagræðing, ásamt tengslum við útgerðina, sem gerst hefur annars staðar í landinu. Það er þess vegna vissulega tímabært að ráðast í það verkefni að vinna skipulega að því að hyggja upp þessa atvinnugrein á þessu svæði, en raunar er þegar byrjað starf í þessum efnum.

Á seinasta ári var hafið starf í Framkvæmdastofnun ríkisins við að gera úttekt á stöðu hraðfrystiiðnaðarins á Reykjanesi og í Reykjavík. Það var gerð á þessu allrækileg úttekt. Í framhaldi af því kom svo athugun Þjóðhagsstofnunar á afkomu frystihúsanna, m. a. á þessu svæði, og í fyrra var í fyrsta sinn gert nokkurt átak, þó ekki væri stórt á því ári, til að beina umframfjármagni til uppbyggingar hraðfrystihúsanna á Reykjanessvæðinu. Lánaðar voru 100 millj. kr. úr Framkvæmdasjóði Íslands í þessu skyni til viðbótar við lánastarfsemi Fiskveiðasjóðs, sem alla tíð hefur að sjálfsögðu náð til Reykjanessvæðisins og Reykjavíkur eins og til annarra landshluta.

Nokkuð hefur verið gagnrýnt að Byggðasjóður hefur lánað minna til þessa landssvæðis eða þessa landshluta en til annarra landshluta. Fyrir því liggja auðvitað augljósar ástæður, sem gerð hefur verið grein fyrir á Alþ. áður. Þær eru í stuttu máli á þá leið, að á undanförnum áratugum — ég tek sem dæmi áratugina frá 1930–1970, fjóra áratugi — fjölgaði landsfólkinu um 95 þús. manns. Af þessari fjölgun, 95 þús. manns, settust 82 þús. að í Reykjavík og á Reykjanesi, en aðeins 13 þús. að annars staðar á landinu. Þessi byggðaröskun undanfarinna áratuga var svo stórfelld, að hún stofnaði í hættu tilveru og framtíð fjölmargra byggðarlaga víðs vegar um landið. Þess vegna var eðlilegt að Byggðasjóður, í samræmi við þau lög sem hann starfar eftir, beindi fjármagni til þess að styrkja atvinnulíf úti um landsbyggðina umfram það sem gert hefur verið á Reykjanesi.

Nú er það svo, að það er ekkert lögmál með Byggðasjóð að hann eigi ekki að lána til uppbyggingar á Reykjanesi ef þess er þörf. Þess vegna er það, að tekin hefur verið sú ákvörðun í stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins að hefja lánveitingar til uppbyggingar í hraðfrystiiðnaðinum einmitt á þessu svæði. Nauðsynlegt þykir að greiða fyrir uppbyggingu í þessari atvinnugrein á þessu svæði eins og sakir standa.

Auðvitað eru margar ástæður fyrir því, hvernig þessi mál hafa þróast. Ein af ástæðunum er sú, að verið hefur minni afli við Faxaflóa og Reykjanes en áður var. Önnur ástæðan er m. a. breyting á því, sem var í raun og veru kjarninn í þessari starfsemi á þessu svæði um áratugi, en það var vertíðin. Hún var undirstaðan undir afkomunni meira og minna allt árið um kring. Þessi kraftmikla vertíð, sem tíðkaðist við Reykjanesið um áratugi og menn lifðu meira og minna á allt árið, byggðist m. a. á því, að fólk víðs vegar að af landinu, sem bjó við tímabundið atvinnuleysi, flykktist til Suðurnesja og til Vestmannaeyja til starfa á vertíðinni. Þegar vertíðinni var lokið fór þetta fólk heim til sín aftur. Á þennan hátt var hægt að koma við á Suðvesturlandi þessu fyrirkomulagi, vertíðarfyrirkomulagi sem ég kalla svo. Nú er þetta breytt. Nú er það svo, að atvinna er orðin tiltölulega stöðug víðs vegar um landið, m. a. vegna þess að sú uppbygging, sem ég hef verið að rekja, hefur farið fram og fólk býr við tiltölulega stöðuga atvinnu um allt land og þess vegna engin tök á því fyrir Suðurnesin eða Suðvesturlandið að treysta á vinnukraft eins og gert var áður um áratugi. Það er hins vegar öllum ljóst og má vera öllum ljóst, að þetta svæði er mjög þýðingarmikið svæði í sambandi við sjávarútveginn og gegnir mjög þýðingarmiklu hlutverki í íslenskum sjávarútvegi. Þess vegna er að sjálfsögðu engin ástæða til þess að vanrækja eðlilega uppbyggingu. og þróun í þessum efnum á Suðurnesjum.

Ég er því eindregið fylgjandi, að því verki, sem þegar er hafið eins og ég hef getið um, áætlun um uppbyggingu fiskvinnslunnar á Reykjanesi eða Suðvesturlandi, verði haldið áfram. Farið hefur fram rækileg athugun á stöðu fyrirtækjanna. Einn mesti vandinn í þessum efnum er sá, að á þessu svæði starfa mjög mörg fiskvinnslufyrirtæki og mörg þeirra skortir stöðugt hráefni, en það leiðir að sjálfsögðu til lélegrar afkomu. Eitt af þeim verkefnum, sem fram undan eru, er því fólgið í því að tengja hráefnisöflunina við fiskvinnsluna þannig að hægt verði að tryggja stöðuga vinnslu, en það er ein af meginforsendum fyrir sæmilegri afkomu. Auðvitað eru allmörg fyrirtæki í hraðfrystiiðnaðinum á Suðvesturlandi, sem eru vel vélvædd og hafa góða hagræðingu, en allt of mörg eru illa á vegi stödd í þessum efnum.

Ég sá ástæðu til þess að flytja nokkurt mál um stöðu þessara mála og hvað hefur verið að gerast í þessari grein — sérstaklega hraðfrystiiðnaðinum — á undanförnum árum, vegna þess að ég er þeirrar skoðunar, að mest aðkallandi þátturinn í skipulagsbundnu starfi til uppbyggingar á Suðurnesjum og raunar á Suðvesturlandi sé einmitt fiskvinnslan, uppbygging hennar og tengsl við hráefnisöflunina.