14.04.1978
Sameinað þing: 66. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3465 í B-deild Alþingistíðinda. (2607)

122. mál, reiðskólar

Flm. (Ólafur Þ. Þórðarson) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér að mæla fyrir þáltill., svo hljóðandi :

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að beita sér fyrir stofnun og rekstri reiðskóla.“

Með þessari þáltill. fylgir grg.:

„Markmiðið með stofnun reiðskóla er þríþætt:

1) Að annast hvers konar rannsóknir á íslenska hestinum.

2) Þjálfa Íslendinga í reiðmennsku og tamningu á íslenska hestinum.

3) Hafa sýningar í reiðlist fyrir Íslendinga og erlenda ferðamenn.

Forustuhlutverk í málefnum íslenska hestsins glatast úr höndum Íslendinga innan fárra ára verði ekki stofnaður reiðskóli hér á landi. Það væri menningarlegur hnekkir og efnahagslegur skaði. Margir íslenskir hestamenn búa yfir mikilli þekkingu á íslenska hestinum. Ef þeirri þekkingu er blandað saman við þær leiðbeiningar, sem erlendir reiðskólar veita, ættum við að geta starfrækt reiðskóla hér á landi sem veitti meiri þekkingu á tamningu íslenska hestsins en nokkur annar reiðskóli í heimi.“

III. lið grg. þessarar skipti ég niður í flokka og kemur þar fyrst:

„a) Vaxandi fjárhæðum í hverju landi hins vestræna heims er varið til tómstundastarfsemi. Hestamennska var einkasport aðalsins fyrr á öldum, en millistéttarfólk í Evrópu getur í dag veitt sér það að eiga hesta með tilkomu notkunar smærri hestakynja.

Íslenski hesturinn er í fyrsta sæti hvað hæfileika snertir, og stærð þess markaðar fer eftir því fjármagni, sem varið er til auglýsinga, og því magni, sem við höfum til sölu á vei tömdum, góðum hestum. Íslenski hesturinn sameinar fjölskylduna, þ. e. öll fjölskyldan getur farið í útreiðartúr saman, en hinir stóru erlendu hestar eru ekki barnameðfæri. Þessi markaður er í samræmi við tamningamarkmið númer 1.

b) Tamning hesta sem íþrótt til keppni og sýninga er ómetanlegt auglýsingaratriði og getur haft stór áhrif hæði á sölumöguleika á hestum og ferðamannastraum til landsins. Frægð íslenska hestsins á þessu sviði er nú þegar orðin mikil. Í því sambandi má minna á frábæran árangur íslenska hestsins í reiðinni miklu yfir þver Bandaríkin. Á Grüne Woche (grænu vikunni) í Vestur-Berlín, annarri stærstu landbúnaðarsýningu í Þýskalandi, sem var í vetur um mánaðamót janúar og febrúar, bauð framkvæmdastjórn sýningarinnar eigendum íslenska hestsins í Þýskalandi að senda sýningarflokk á þessa landbúnaðarsýningu. Allur kostnaður við þátttöku þeirra var greiddur af sýningunni. Það sýnir þá frægð sem íslenski hesturinn hefur aflað sér í Þýskalandi.

c) Tamning á hestum fyrir bæklaða, sem væri liður í endurhæfingu þessa fólks, er þáttur sem við höfum gefið lítinn gaum. Þó höfum við sent 20 hesta til Bandaríkjanna í þessu skyni og árangurinn varð góður. Í Bandaríkjunum er óhemjufjöldi af endurhæfingarstöðvum fyrir bæklaða. Bandarísk stúlka, sem er lömuð í fótum og hefur lengst af verið í hjólastól, skrifaði eftir að hafa farið á bak íslenskum hesti: .,Mér finnst ég geta gengið. Hesturinn var fætur mínir. Fólk leit upp til mín.“ Þetta var henni sem sagt nýtt líf.

Svisslendingar hafa um aldir reynslu á þessu sviði. Á alþjóðlegri ráðstefnu í Basel í Sviss árið 1975 um endurhæfingu með aðstoð hesta skýrði Jürg Baumann, sem er doktor að menntun, frá tilraun sem hann hafði framkvæmt í þeirri stofnun sem hann starfar við í Basel. Tilraunin var gerð til að fá úr því skorið, hvort hin ýmsu hestakyn hefðu misjafna hæfileika til að vekja traust fatlaðs fólks á sér. Niðurstaðan varð sú, að íslenski hesturinn hafði algera yfirburði hæði hvað viðkom geðslagi og gangi. Íslenski hesturinn er kaldblóðshestur og þar af leiðandi taugasterkur. Hann hefur persónuleika og er greindur miðað við önnur hestakyn. Þetta bæklaða fólk fékk traust á honum sem vini sínum.

Til er kvikmynd frá þessari tilraun. Í þeirri tegund endurhæfingar, þar sem notast er við hesta sem hjálpartæki, eru Svisslendingar í fararbroddi.“

IV. liður grg. og jafnframt sá síðasti er á þessa leið:

„Góðir gæðingar, þ. e. toppurinn, seljast í dag á hálfa til heila milljón kr. Á þessu ári hafa verið seldir úr landi um 450 hestar fyrir ca. 120 millj., þ. e. verðið er miðað við að hesturinn sé kominn á flugvöll úti. Flugfraktin til Evrópu er um 45 þús. kr. á hest. Það er ódýrasti flutningsmátinn í reynd. Tollur af innflutningi hesta til Efnahagsbandalags Evrópu er 18% og þar að auki virðisaukaskattur. Hér á landi eru um 52 þús. hestar. Í Evrópu eru nú um 20 þús. hestar og þar fæðast 1000–1500 folöld á ári. Útflutningur á hestum nýtur í engu stuðnings ríkisvaldsins. Hann er þó sú grein landbúnaðar sem stendur best að vígi hvað útflutning snertir, og efling þess útflutnings er ein af þeim leiðum sem fara ber í dag í þeirri stöðu sem markaðsmál landbúnaðarins eru i. Þetta er þó ekkert einkamál landbúnaðarins, heldur þjóðarinnar allrar. Mikill ferðamannastraumur er til landsins af áhugamönnum um íslenska hestinn og verður meðan þeir álíta að hans aðalríki sé hér.

Í uppvexti þeirrar æsku, sem nú er að vaxa úr grasi hér á landi, er mikilvægt að tengsl hennar við landið séu til staðar. Hesturinn er betri tengiliður í því sambandi en nokkuð annað.

Æskilegt teldi ég að jarðirnar Vífilsstaðir og Oddi á Rangárvöllum yrðu teknar undir þessa starfsemi og færi starfsemin fram á báðum þessum stöðum. Deilur um staðsetningu á skólanum vil ég samt leiða hjá mér.

Það vekur e. t. v. undrun, að þm. frá Vestfjörðum skuli innleiða þetta mál. Svo er þó ekki ef betur er að gáð. Núverandi ástand í markaðsmálum landbúnaðarins er svo alvarlegt, að það þrengir að hlut bænda. Á Vestfjörðum er hann svo þröngur fyrir, að skerðing á tekjum þeirra getur auðveldlega leitt til þess, að fleiri sveitir þar fari í eyði. Verði holdanautaframleiðsla ríkjandi í þeim sveitum, sem í dag eru hestmargar, og stóðið skorið niður skapast það ástand í framleiðslumálum landbúnaðarins, að fráleitt væri að tala um vanda í dag, miðað við það öngþveiti sem þá yrði. Það er skynsamlegra að selja mönnum það sem sumir kalla e. t. v. óþarfa, ef þeir vilja greiða fyrir það, en reyna að selja mönnum mat, sem þeir vilja ekki kaupa.

Þessi grg. inniheldur aðeins örlítið brot af þeim fróðleik sem til er um þetta mál, en ég vænti þess, að alvara málsins sé mönnum ljós við lestur hennar.“

Ég get ekki stillt mig um að bæta við örfáum orðum og vitna í hið gagnmerka rit um íslenska hestinn, Faxa, eftir dr. Brodda Jóhannesson. Þar er rakin saga samskipta Íslendinga við íslenska hestinn og m. a. getið þess, að fyrsta gáfnapróf, sem útbúið hefur verið á Íslandi svo vitað sé og var í Grágásarlögum og átti að nota til að úrskurða hvort menn ættu að taka arf eða ekki, byggðist á þekkingu á meðferð á hestinum. Það þurfti að vera hægt að láta mann leggja reiðtygi á hestinn, og ef hann stóðst það próf að láta þau snúa rétt, var hann arfborinn, annars ekki.

Nú er það svo, að við höfum hlotið í arf reiðhestakyn Evrópu, þ. e. ganghestinn. Sennilega hefur riddaratímabilið með sínum þungu hertygjum átt mestan þáttinn í því á sínum tíma að útrýma þessu hestakyni á meginlandi Evrópu. Það er spurning dagsins, hvort það reynist svo, að við séum í reynd ekki færir um að varðveita þennan arf. Það er líka verðugt umhugsunarefni, að sennilega hefur það aldrei hvarflað að þeim, sem samdi Grágásarlög, að nokkurn tíma kæmi að því, að e. t. v. féllu flestir á því gáfnaprófi sem hann taldi þó svo létt að það mætti nota sem prófstein á það, hvort þar færu afglapar eða ekki.

Ég vænti þess, að Íslendingar beri gæfu til þess að varðveita íslenska hestinn og þá menningu, sem honum fylgir, og geri sér grein fyrir þeirri ábyrgð sem á þeim hvílir í þessum efnum.