01.11.1977
Sameinað þing: 11. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 335 í B-deild Alþingistíðinda. (261)

311. mál, sjónvarp

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Það hefur verið víkið að ýmsum atriðum í þessum afmörkuðu umræðum.

Hv. fyrirspyrjandi saknar nýju stöðvanna fyrst og fremst og dregur í efa að skortur mannafla hafi verið óyfirstíganlegur. Ég tel hins vegar hæpið að ætla sér að fara að fjölga mönnum á þessum vettvangi mikið af ýmsum ástæðum. Það er áreiðanlega mikið annríki í útvarpsvirkjunum um allt land og þetta er hægara sagt en gert.

Það fer meira fé í litina en var í áætluninni, og það er m.a. vegna þess að farið var í önnur atriði en þá var fyrirhugað og kostnaður hefur farið nokkuð fram úr áætlun.

Það hefur verið minnst hér á gervihnattamálið. Auðvitað horfum við með björtum augum til þess tíma þegar við fáum sjónvarp frá gervihnetti og hann mun þá vonandi leysa ýmsan vanda. En það er enn ekki mikil vissa um þetta atriði, og við hljótum að halda áfram okkar framkvæmdum eins og þær eru þrátt fyrir það.

Hv. þm. Páll Pétursson harmaði að sjónvarpinu skyldi ekki vera dreift fyrst og farið svo í litina á eftir. Þetta er hægara sagt en gert, að ætla sér að flytja inn litatæki og nota tekjurnar af þeim til þess að dreifa sjónvarpinu um landið án þess að sýna þar nokkurn lit. Hitt má svo alltaf deila um, hversu mikið skuli að gert. Ég held að menn verði að gera sér það alveg ljóst, að ágætlega unnin skýrsla þeirrar n., sem að þessum málum vann, hefur ekki enn þá verið staðfest af yfirvöldum og er bara í raun og veru vinnuplagg frá þeim komið. En það rýrir ekki gildi hennar þó að nefndin hafi sett markið nokkru hærra en unnt reyndist að fylgja eftir a.m.k. í fyrstu.

Það var margt fleira sem kom fram hjá hv. þm. Það hefur verið minnst á fiskimiðin, og það var spurt hvort sérstaklega hefðu verið undirbúnar aðgerðir á því sviði. Ég vil svara því til, að það hefur ekki farið fram sérstakur undirbúningur að byggingu sjónvarpsstöðva fyrir fiskimiðin sérstaklega. Hins vegar reyna menn að gefa því gætur í sambandi við framkvæmdir í þessum málum, hvort rétt sé á þessum eða hinum staðnum að sameina þetta tvennt, þ.e. not fyrir sjó og land.

Það hefur verið minnst hér á myndsegulböndin. Það er nokkuð síðan ég setti n. manna til að athuga möguleika á að greiða fyrir því að íslensk fiskiskip og farskip geti notið sjónvarps með hjálp myndsegulbanda og slíkra tækja. Þetta er mjög vel þekkt t.d, í Noregi og má læra af því, og ég á von á skýrslu frá þessari n. áður en langir tímar liða.

Hv. þm. Pétur Sigurðsson segist hafa flutt, sem rétt er, till. um að fella niður tolla af þessum tækjum og bjarga málinu þannig. En mín reynsla í þessum sjónvarpsdreifimálum er sú, að það sé betra að hækka tolla heldur en að fella niður tolla. Það þýðir ekkert að ætla sér að standa að framkvæmdum með því móti að lækka tekjur ríkissjóðs. Ég mun eins og áður standa algjörlega með fjmrh. þegar kemur til atkvgr. um þessa till. Ég held að það sé ákaflega hæpið að hugsa sér að við getum t.d. varið 1–2 milljörðum í að koma útvarpi og sjónvarpi til sjómanna á hafi úti, sem það mundi kosta ef ætti að gera það alfarið án þess að hafa nokkurt litasjónvarp. Ég held að það gangi ekki þó að við kannske vildum það sumir.

Hv. þm. Stefán Valgeirsson rifjaði það upp, að sér hefði verið sagt æ ofan í æ að það ætti á næsta ári að byggja stöðvar þar norður frá á hans heimaslóðum. Nú ber ég engar brigður á þetta, enda kom ég þar hvergi nærri og skal ekkert um það segja. Hitt veit ég og þarf ekki að fara að rekja það, að ekki hafa verið fjárhagsástæður til þess að fara í þetta fyrr en nú síðan ég kom að þessum málum. Hann hefur látið að því liggja, að mér hefði verið tjáð að þetta væri í áætlun fyrir næsta ár. En það er misskilningur hjá hv. þm. Mér er ekki tjáð um þessa áætlun næsta árs. Það er ég sem gef út þessa áætlun eða ráðh. í samráði við Ríkisútvarpið, og ég er ekki að fara hér með neinar sögusagnir. Við álítum eftir að hafa borið saman bækur um þetta, þ.e. Ríkisútvarpið og rn. og þar með ráðh., að þetta eigi að vera kleift á árinu. Þó að ég tæki fram að endanlegar og formlegar ákvarðanir hafi ekki verið um þetta teknar, þá er þetta álit okkar í dag og ég vona að það standi.

Hv. þm. Helgi F. Seljan spurðist fyrir um það, hvenær vænta mætti örbylgjustöðvar á Gagnheiði og enn veit ég ekki annað en það takist fyrir áramót. Nokkrar tafir urðu á flutningi tækja til landsins sem í þetta fara, en ég veit samt ekki annað en þetta eigi að standast.

Varðandi stöðina á Reyðarfirði og fleiri bráðabirgðastöðvar sem enn eru í gangi vil ég aðeins láta það koma hér fram, að röð framkvæmda við endurnýjun á gömlu bráðabirgðastöðvunum er ráðin að mati tæknideildar símans eða þeirra manna sem með þetta hafa að gera. Það hefur verið mat þeirra að þessi stöð væri eitthvað skárri en t.d. stöðin á Stöðvarfirði sem var lögð niður í ár og önnur sett í staðinn. Það verður að vona að þær dugi þangað til þær verða endurnýjaðar.

Hv. þm. Helgi F. Seljan tók nú mjög undir að það bæri að harma og átelja að ekki hefði verið meira gert í sambandi við byggingu dreifistöðva fyrir þá sem ekkert sjónvarp hafa. Ég vil nú bara segja við hv. þm., að okkur var nær, honum og mér, að duga betur og sveita ekki Ríkisútvarpið eins og gert var á þeim árum sem við studdum fyrrv. ríkisstj. Sannleikurinn er sá, eins og hefur komið hér fram, að útvarpið var mjög illa statt fjárhagslega þegar stjórnarskiptin urðu, eins og ég var að lýsa áðan. Ekki meira um það.

Ég vil aðeins að lokum rifja það upp, að það eru nokkuð miklir erfiðleikar á því að gera um sjónvarpið tímasetta áætlun til langs tíma. Það eru ekki einasta þeir erfiðleikar sem landshættir okkar valda, strjálbýli og víðátta fiskimiðanna og allt það, heldur eru líka erfiðleikar vegna óvissu um tekjur. Þær eru fengnar með tolltekjum. Þó trúi ég því sem mér er sagt af fróðum mönnum, að endurnýjun hljóti að verða það mikil á sjónvarpstækjum að við eigum von á nokkuð stöðugum tekjum á næstu árum. En það kemur enn þá fleira til sem veldur því, að það er erfitt að gera áætlun um einstaka bæi og ársetja framkvæmdir. Þar kemur til t.d. byggðaþróun. Það er hreyfing á byggð ekki síst á þessum erfiðustu stöðum, og þar getur orðið hreyfing bæði til og frá, bæði til fjölgunar og fækkunar, þó hún hafi einkum orðið til fækkunar. Og enn er svo það, að þó að sleppt sé gervihnattamálinu, sem auðvitað ber alls ekki að líta fram hjá, þá eru sífelldar breytingar í tækniþróun. Einnig þarf miklar mælingar — og það er fjarri því að þær hafi verið fullunnar alls staðar — til þess að finna út hvernig ódýrast og hagkvæmast sé að koma sjónvarpi til þeirra staða sem við allra erfiðust skilyrði búa, inni í þröngum dölum o.s.frv. Þetta getur skipt ákaflega miklu máli fjárhagslega, hvort þarf að setja stöð uppi á fjall, þar sem ekkert rafmagn er nærri, eða hægt er að finna annan stað sem hægt er að koma sendingum frá til notenda.

Ég vil að lokum leggja megináherslu á að það eru fjármálin sem mest veltur á þarna, að við höfum fjármagn til að halda áfram þeim framkvæmdum sem nú eru aftur hafnar við dreifingu sjónvarpsins og við litvæðingu þess.

Svo leyfi ég mér að þakka áhuga hv. þm. á þessum málum. En munum þetta sem ég sagði síðast.