14.04.1978
Sameinað þing: 66. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3471 í B-deild Alþingistíðinda. (2611)

261. mál, lagning aðflutningslínu milli Grímsárvirkjunar og Hornafjarðar

Flm. (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Á þskj. 508 hef ég leyft mér að flytja till. til þál., svohljóðandi :

Alþ. ályktar að skora á ríkisstj., að á árinu 1979 verði hafist handa um lagningu aðalflutningslínu milli Grímsárvirkjunar og Hornafjarðar og tryggt verði nægilegt fjármagn til framkvæmdanna.“

Vorið 1975 sat Þorsteinn L. Þorsteinsson, formaður verkalýðsfélagsins Jökuls á Hornafirði, um tíma á Alþ. í fjarveru hv. þm. Lúðvíks Jósepssonar. Sakir kunnugleika síns á raforkumálum sérstaklega flutti hann einmitt till. sem þar að laut, þ. e. um lagningu aðalflutningslínu milli Grímsárvirkjunar og Hornafjarðar. Síðan eru liðin þrjú ár og flm. till. 1975 hefur talið sérstaklega þörf á því að endurvekja þessa till. nú, enda þörfin enn ótvíræðari en hún var þegar hún fyrst var flutt.

Það kom glöggt fram í framsögu Þorsteins á sínum tíma, sem fjallaði mjög almennt um orkumál Austurlands, að þá væru verkefni þau, sem þyrfti að leysa úr á Austurlandi, vissulega mörg, ekki síst á samtengisviðinu. Þorsteinn benti þá á nauðsynina á tengingu við Vopnafjörð, sem ekki fremur en sú, sem hér um ræðir, er komin inn á áætlun eða hefur hlotið fjárveitingu nú, þó hún hafi gert það áður. Þar er um algera dísilkeyrslu að ræða og mikinn árlegan rekstrarkostnað. En lína frá samtengisvæði Austurlandsveitu er dýr framkvæmd. Samkv. nýlegum upplýsingum í svari hæstv. iðnrh. er áætlunin upp á 632 millj. kr. með aðveitustöðvum, og á meðan austurlínan er á döfinni, svo sem nú er, þá hafa menn lítið annað getað aðhafst en að halda málinu vakandi og minna á nauðsynina.

Ljúki austurlínu hlýtur að verða að leggja höfuðáherslu á tafarlausar fjárveitingar og framkvæmdir við báðar þessar tengingar. Eflaust verða þm. að velja þar um ákveðna röðun og eftir þann seinagang, sem hefur verið á þessu, er engin ástæða til sérstakrar bjartsýni um neinn einstakan hraða þeirra framkvæmda.

Sú tenging á Austurlandi, sem nú er inni í áætlun um framkvæmdir og fjárveiting er til á þessu ári, Bakkafjarðarlína frá Þórshöfn til Bakkafjarðar, hefur áður verið á áætlun, tvisvar ef ekki þrisvar, en verið frestað æ ofan í æ. Í lengstu lög skal vonað að hið sama verði ekki upp á teningnum nú, þó illa horfi um fjárhagsstöðu Rafmagnsveitna ríkisins.

Öll orkumál Austurlands eru nú mjög í deiglunni. Svo sem í grg. er að vikið hefur austurlínunni verið teflt í tvísýnu vegna þeirra fjárhagsörðugleika sem áður er á minnst, og hefur þeirri framkvæmd seinkað svo mjög, þó nú hafi verið úr leyst mesta fjárhagsvandanum, að enn er engan veginn tryggt að hún komist í gagnið á þessu hausti, svo sem áætlað var. Það besta skal þó enn vonað í þessum efnum, því að dýr yrði sú seinkun Austfirðingum sem og þjóðarheildinni allri í raun. En jafnhliða þessu nú og brýnasta framtíðarverkefni Austfirðinga er fyrsti áfangi Bessastaðaárvirkjunar eða Fljótsdalsvirkjunar, sem enn er í óvissu. Í þessari till. er gengið út frá þeim forsendum, að austurlína komist í gagnið á þessu ári og að ákvörðun verði tekin um upphaf framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun á næsta ári. Það er sú aðalspurning sem nú brennur á vörum Austfirðinga, hvernig þar er að staðið, og verður á næstu mánuðum.

Nýlega komu forustumenn sveitarstjórna á Austurlandi, allt frá Vopnafirði til Hafnar í Hornafirði, hingað suður til þess að knýja á stjórnvöld um ákvarðanatöku svo óvissuástandinu mætti ljúka. Upplýst var í svari hæstv. iðnrh. á Alþ. fyrir nokkru við fsp. um virkjunina, að hann hefði þá fyrir allnokkru lagt til að ákvörðun yrði tekin í ríkisstj. um virkjun fyrsta áfanga Fljótsdalsvirkjunar á grundvelli þeirra rannsókna og hannana, sem lágu þá fyrir, svo og umsagnar Rafmagnsveitna ríkisins, sem í hvívetna var jákvæð. Síðan hefði ekkert gerst og heim fóru þeir forsvarsmenn Austfirðinga með lítil og léttvæg svör um það, hvenær ákvörðun yrði tekin. Nú var enn einu sinni skýlt sér á bak við það, að ekki væri í einu og öllu lokið fullnaðarhönnun, en það yrði þó reynt á þessu ári, að manni skildist, en svo ætti eftir að raða öllum þeim virkjunarmöguleikum sem í gangi væru, og ekki voru heldur um það gefin nein vilyrði, að Fljótsdalsvirkjun hefði þar þann forgang sem Austfirðingar höfðu þó lengi vænst og þörf er á. Þó var á það lögð höfuðáhersla af hálfu forsvarsmannanna, að ákvörðun væri tekin og einhver tímasetning ákveðin um upphaf framkvæmda. Þeir lögðu auðvitað ekki síður áherslu á það, sem vonlegt var, að takast mætti að ljúka þeirri fullnaðarhönnun sem nú er talað um að á standi til þess að ákvörðun sé hægt að taka.

En í þessum viðtölum við hæstv. forsrh. komu fram þær ástæður, sem ég tel ekki fullnægjandi fyrir því, að ekki sé hægt að taka þessa ákvörðun. Menn fer þá að gruna það, að áhuginn á virkjuninni sé ekki eins mikill innan hæstv. ríkisstj. og við höfum vænst. Vera má að einhverjir hugsi sem svo, að engin stóriðjuplön útlendinga liggi á bak við þessa stærð virkjunar, þennan áfanga, heldur aðeins hagur og velferð íbúanna sem um er að ræða. Við héldum að það væri kannske meira atriði en þau stóriðjuplön, sem fólust á sínum tíma í raun og veru bak við virkjunina sem þarna var ætlað að koma, þ. e. a. s. þá stórvirkjun, sem almennt var kennd við LSD: langstærsta drauminn.

Miðað við þessa stöðu, sem enn einu sinni er rétt minnt á, en skal ekki nánar tíundað, ætti e. t. v. ekki að flytja till. af þessu tagi, þar sem reiknað er með að upphaf framkvæmda miðist við næsta ár. En flm. hinnar upphaflegu till., Þorsteinn L. Þorsteinsson, sem flutti framsögu fyrir sama máli fyrir þremur árum, taldi vissulega þörf á að endurvekja hana áður en þessu kjörtímabili lyki, minna þannig enn betur á aðstæður og ástæður og leggja aukna áherslu á nauðsyn málsins með því. Ég hygg, að hann sé þar hvergi nærri einn á báti. Þvert á móti vona Austfirðingar allir, að þannig verði að málum staðið, að þessi framkvæmd dragist ekki um t. d. 3 ár í viðbót, en þrjú ár eru nú liðin frá flutningi till., svo nauðsynleg sem þessi lína er og hagkvæm í hvívetna.

Ég skal ekki lengja þessa framsögu umfram það sem segir í grg. Þorsteins, sem vitnað er til með till., en hann bendir þar á, að á veitusvæði Austur-Skaftafellssýslu sé aðeins ein vatnsaflsvirkjun. Smyrlabjargaárvirkjun, sem sé nú þegar fullnýtt og orkuframleiðsla með dísilvélum sé nú töluverð.

Þegar hann flutti till. hafði meðalaukning á notkun raforku í Austur-Skaftafellssýslu verið um 26% á s. l. fjórum árum. Síðan segir Þorsteinn í nýlegu bréfi, að meðalaukningin hafi hægt á sér frá því að till. var flutt, rafvæðingu sveitanna sé lokið og aukning milli áranna 1976 og 1977 hafi verið 13.6%, en hlutur dísilvéla í heildarframleiðslunni aukist hröðum skrefum þar sem Smyrlabjargaárvirkjun sé löngu fullnýtt. Aukningunni sé því aðeins mætt með vaxandi dísilvélanotkun að óbreyttum aðstæðum og þar sem vélarafl í dísilstöðinni á Hornafirði sé senn á þrotum þurfi nú þegar á þessu ári að bæta þar við vélakosti til að koma í veg fyrir að vandræðaástand skapist á næsta vetri.

Á árinu 1976 var heildarframleiðsla orku í Austur-Skaftafellssýslu 14.5 gwst. og framleiðsla með dísilvélum 2$% af því. En á árinu 1977 var heildarframleiðslan 16.4% gwst. og hlutur dísilvélaframleiðslunnar var þá orðinn 43%. Líka má geta þess, að olíunotkun í dísilstöðina á s. l. ári var rúmar tvær millj. lítra og með núverandi verðlagi á olíu er þarna um 70–80 millj. kr. kostnað að ræða.

Enn segir Þorsteinn, að ef aukningin verði svipuð og hún var á milli ára síðast, um 13%, þá séu fyrirsjáanlegar stórframkvæmdir vegna stækkunar dísilstöðvar á Hornafirði, ef ekki á að koma til ófremdarástands í sýslunni. Einnig er nú ríkjandi nokkur óvissa um framtíðarlausn á upphitun íbúðarhúsnæðis á staðnum, einkum á Höfn, og ljóst að stöðugt vaxandi notkun á rándýru innfluttu eldsneyti, hvort heldur er til húsakyndinga eða framleiðslu á raforku, er þjóðhagslega óhagkvæm. Takist að ljúka línubyggingunni milli Kröflu og Fljótsdalshéraðs á næsta ári, er ljóst að taka verður ákvörðun um þessa línubyggingu sem fyrst og tryggja fjármagn til framkvæmdanna.

Ég skal aðeins minna á það til viðbótar, að í svari hæstv. iðnrh. við fsp. hv. þm. Halldórs Ásgrímssonar hinn 14. mars s. l. kom fram, að þessi línuleið fyrir 132 kw. háspennulínu frá Eyrarteigi í Skriðdal um Djúpavog til Hafnar í Hornafirði hefur verið könnuð. Rafmagnsveitur ríkisins gerðu till. um 30 millj. kr. fjárveitingu í fjárlögum 1978 til mælingar á línuleiðinni, en till. var ekki tekin í fjárlög. Ákvörðun um tímasetningu línulagnarinnar hefur ekki verið tekin, segir hæstv. iðnrh. Hann bendir hins vegar á, af því að ég hef minnst á Vopnafjarðarlínuna, að Rafmagnsveiturnar hafi einnig gert till. til fjárlaga 1978 um lagninguna frá Lagarfossi til Vopnafjarðar með heildarkostnaði með aðveitustöð upp á 632 millj. kr., en sú till. var ekki heldur tekin í fjárlög ársins 1978.

Ég vil að lokum vænta þess, að þessi till. komi upp við næstu fjárlagaafgreiðslu á þann veg, að þá verði lokið við austurlínu, þannig að sú tenging hafi komið að fullum notum fyrir miðsvæði Austurlands. Og þá ríður auðvitað á að huga að samtengingunni, bæði til Vopnafjarðar og ekki síður suður á bóginn til Hornafjarðar. Línan til Vopnafjarðar var, eins og ég sagði áðan, á áætlun þegar fyrir nokkrum árum. Reiknað var með að taka mundi tvö ár að leggja þessa línu, en ekki tókst að koma henni inn aftur. Síðan hefur hún beðið af þeim ástæðum kannske fyrstum, sem ég greindi áðan, að á austurlínuna hefur verið lögð höfuðáhersla.

En ég vil að lokum ítreka, að nauðsyn á samtengingu við þetta dísilkeyrslusvæði, sem er að verða svo afgerandi sem raun ber vitni, þó Austurland sé reyndar allt saman dísilkeyrslusvæði meira og minna, er ótvíræð til þess að austurlínan geri fullkomlega sitt gagn. Fyrst og fremst verður þetta að vera þannig, að þarna vinni saman sú orka, sem kemur frá austurlínu, og væntanleg orka frá Fljótsdalsvirkjun, sem menn bíða nú með mikilli óþreyju og vona að hafist verði handa um á næsta ári, þá grunnaflsvirkjun í fjórðungnum sem allir Austfirðingar gera nú kröfu um að verði þar byggð, en jafnhliða því sé tryggð samtenging á allt orkuveitusvæðið. Þar með er þessi lína, hvort sem hún er sett númer 1 eða númer 2, svo nauðsynleg, bæði vegna dísilkeyrslunnar í Skaftafellssýslum og einnig vegna þeirrar orku, sem við Austfirðingar vonum að verði tiltæk á Austurlandi, ekki sem dísilorka, heldur orka úr okkar eigin fallvatni.

Ég vil svo, herra forseti, að lokum leyfa mér að leggja til að þessari till. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. atvmn.