01.11.1977
Sameinað þing: 11. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 338 í B-deild Alþingistíðinda. (262)

311. mál, sjónvarp

Páll Pétursson:

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hæstv. menntmrh., að sú skýrsla, sem hér hefur verið gerð að umtalsefni, hefur sjálfsagt ekki lagagildi, þ.e.a.s. skýrslan sem ber nafnið: Sjónvarp til allra landsmanna — og er samin af sérstakri sjónvarpsdreifingarnefnd. En þessi skýrsla var þó lögð til grundvallar ákvörðuninni um að hefjast handa við litvæðinguna og að hefja innflutning litasjónvarpa.

Það er alveg rétt hjá formanni útvarpsráðs, hv. þm. Þórarni Þórarinssyni, að litasjónvarpsinnflutningur gefur af sér tekjur, en þessar tollatekjur hafa ekki verið notaðar samkvæmt áætluninni í margnefndri skýrslu hvað varðar byggingu nýrra dreifistöðva, heldur til fjárfestingar vegna litvæðingar umfram það sem segir í þessari skýrslu.

Hvað varðar það sem hv. þm. Pétur Sigurðsson sagði hér áðan um kostnaðinn við að koma sjónvarpi til landsmanna, þá vil ég leyfa mér að rifja upp, af því að það hefur ekki komið fram áður í þessum umr., og vísa til áætlana frá 29. nóv. 1974, og tölurnar eru miðaðar við það, hafa sjálfsagt þrefaldast síðan. Þá var kostnaðaráætlun vegna sjónvarpsstöðva vegna miðanna rúmar 600 millj. kr., en þá var kostnaðaráætlun vegna 14 nýrra endurvarpsstöðva samtals tæpar 50 millj. kr. eða sennilega 150 millj. núna. Við erum ekki að tala um sjónvarp á nákvæmlega hvern einasta sveitabæ, hvað sem það kostar. Það er bara útúrsnúningur hjá hv. þm. að halda því fram. Þar sem það er mjög dýrt og tæknilega illframkvæmanlegt verður það auðvitað að bíða. Og það kann að vera að þeir þurfi að bíða til 1985 til þess að geta farið að sjá sjónvarp frá gervihnetti. En það er nokkuð löng bið fyrir okkur Stefán Valgeirsson. Hv. þm. Stefán Valgeirsson hefur þó alltaf verið dreginn á þessu, þegar hann hefur komið á kontórinn, að þetta geti komið næsta ár. En það fer nú að syrta í álinn ef það verður farið að taka þetta í 7 ára aföngum.

Við fluttum nokkrir þm. í fyrra till. til þál. um að marka ákveðinn tekjustofn til þessa verks og lögðum til að tekin yrði hluti af afnotagjöldunum í þetta. Sú till. náði ekki fram að ganga. í umr. um þá till. lét ég í ljós ótta um að allt kappið yrði lagt á litvæðinguna, en hitt látið sitja á hakanum, og því miður verð ég enn að láta í ljós ótta minn og hryggð yfir því að svo kynni að fara jafnvel á þessu ári líka.