17.04.1978
Efri deild: 79. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3485 í B-deild Alþingistíðinda. (2642)

276. mál, vöruhappdrætti Sambands íslenskra berklasjúklinga

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., er flutt að ósk stjórnar Sambands ísl. berklasjúklinga. Er efni þess að framlengja heimild sambandsins til rekstrar vöruhappdrættis S. Í. B. S. um 10 ár, eða til ársloka 1989.

Vöruhappdrætti S. Í. B. S. var komið á fót með lögum á árinu 1949. Var heimild til rekstrar happdrættisins fyrst í 10 ár, til ársloka 1959, en hefur síðan tvívegis verið framlengd um 10 ár í senn og er því nú til ársloka 1979. Vegna framtíðaráætlana S. Í. B. S. er nú farið fram á framlengingu um 10 ár, þótt enn sé ár eftir af heimildinni. Samkv. lögum fyrir vöruhappdrætti S. Í. B. S. skal ágóða af happdrættinu varið til að greiða stofnkostnað við byggingarframkvæmdir vinnuheimilisins að Reykjalundi til byggingar og rekstrar á vinnustofum fyrir öryrkja og til annarrar félagsmálastarfsemi S. Í. B. S. sem viðurkennd er af ríkisstj.

Hér er ekki þörf á því að rekja sögu eða starf Sambands ísl. berklasjúklinga á undanförnum 40 árum, en sambandið var stofnað árið 1938. Þjóðin þekkir það og þakkar hið frábæra starf sem þar hefur verið unnið í baráttunni við berklaveikina í landinu, þann mikla vágest sem lagði fjölmarga samborgara okkar að velli og marga hverja á besta aldri, en nú má heita að sá vágestur sé horfinn.

Meginstofnanir S. Í. B. S. eru tvær, þ. e. a. s. Vinnuheimilið að Reykjalundi, sem starfað hefur frá árinu 1945, og Múlalundur, öryrkjavinnustofur í Reykjavík sem tók til starfa árið 1959. Tilvera þessarar stofnunar byggist að mjög verulegu leyti á tekjum þeim sem fást af vöruhappdrættinu, en ágóði þess varð 63.2 millj. kr. á árinu 1976 og 55 millj. kr. á síðasta ári.

Að því er varðar framtíðarverkefni stofnana S. Í. B. S. hafa borist allítarlegar grg., sem jafnframt eru þá rökstuðningur fyrir framlengingu happdrættisins, um framtíðaráform í sambandi við starfsemi Vinnuheimilisins að Reykjalundi, þar sem bæði er fjallað um byggingarframkvæmdir, um iðjuþjálfun, sjúkraþjálfun, vinnu- og starfsþjálfun og um það að vernda vinnuaðstöðu og annað sem í þessari grg. segir. Þessi grg. er undirrituð af Birni Ástmundssyni framkvæmdastjóra og Hauki Þórðarsyni yfirlækni. Samsvarandi að nokkru og þó e. t. v. ekki eins ítarleg grg. er varðandi stofnunina Múlalund.

Ég sé ekki ástæðu til þess, herra for seti, að tefja tímann með því að lesa þessar grg. upp, en leyfi mér að fullyrða, að í þeim eru rök færð fyrir þessari beiðni, en grg. mun ég afhenda þeirri n. sem málið fær til meðferðar. Ég vænti þess, að fallist verði á ósk um framlengingu þessa happdrættis, og vil leyfa mér að óska þess, að frv. fái afgreiðslu á þessu þingi. Ef hv. þn., sem fær málið til meðferðar, þætti ásaæða til að fá frekari upplýsingar, þá mun stjórn S. Í. B. S. án alls efa veita allar nauðsynlegar upplýsingar.

Ég leyfi mér með tilliti til þess, að ég tel að mál þetta sé í sjálfu sér einfalt og mjög er liðið á þingtímann, að mælast til þess, að málinu verði veitt skjót meðferð. Ég leyfi mér að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn. Það kann þó að orka tvímælis, til hvaða n. eigi að vísa því. Það hefur vist verið venja, held ég, stundum að vísa því til fjh.- og viðskn.