17.04.1978
Efri deild: 79. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3487 í B-deild Alþingistíðinda. (2644)

280. mál, umferðarlög

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson) :

Herra forseti. Það frv., sem hér er til umr., fjallar um breytingu á umferðarlögum. Er það mjög einfalt í sniðum og að efni til. Í því er lagt til að vátryggingarfjárhæðir vegna hinnar lögboðnu ábyrgðartryggingar ökutækja verði tvöfaldaðar vegna verðlagsþróunar þeirrar sem orðið hefur frá því að fjárhæðirnar voru síðast hækkaðar með lögum í maímánuði 1976. Er þannig lagt til að vátryggingarfjárhæðin verði 24 millj. kr. fyrir bifreiðar almennt, en 12 millj. kr. fyrir önnur vátryggingarskyld ökutæki. Þá er lagt til að vátryggingarfjárhæð vegna bifreiða, sem flytja mega 10 farþega eða fleiri, hækki um 1200 þús. kr. fyrir hvern farþega umfram 10.

Vátryggingu þessari er ætlað að tryggja, að því leyti sem hrekkur, greiðslu bóta vegna tjóna af völdum ökutækja í notkun. Nauðsynlegt er að vátryggingarfjárhæðir þessar fylgi verðlagsþróun í landinu, svo að tryggt verði öryggi þeirra, sem fyrir tjóni kunna að verða, og einnig eigenda ökutækjanna. Eru vátryggingarfjárhæðir þær, sem frv. felur í sér, eftir atvikum taldar í samræmi við það sem verið hefur.

Samkv. umferðarlögum skal sá, sem fébótaábyrgð ber á tjóni af völdum bifreiðar, endurgreiða vátryggingarfélaginu fyrstu 15 þús. kr., en fyrstu 7500 kr. af hverju tjóni af völdum annarra ökutækja. Eigi hefur þótt rétt að láta eigin áhættu hækka að sama skapi og vátryggingarfjárhæðirnar. Með brtt. þeirri, sem felst í 2. gr. frv., verður eigin áhætta 24 þús. kr. fyrir bifreið, en 12 þús. kr. fyrir önnur ökutæki.

Frv. þetta gerir ráð fyrir því, að breytingar þær, sem í því felast, komi til framkvæmda 1. maí n. k. Rétt er að fram komi, að till. þær, sem í frv. þessu felast, eru að nokkru tengdar ákvörðun vátryggingariðgjalda fyrir vátryggingartímabil það sem hófst hinn 1. mars s. l., en með hækkun eigin áhættu og krónutölu miðað við það sem verið hefur reynist ekki þörf eins mikillar hækkunar iðgjalda og ef krónutalan hefði verið óbreytt. Hækkun vátryggingarfjárhæðarinnar sjálfrar hefur hins vegar í för með sér mjög óverulega hækkun iðgjalda.

Herra forseti. Ég leyfi mér að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.