17.04.1978
Efri deild: 79. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3488 í B-deild Alþingistíðinda. (2650)

63. mál, innkaupastofnun ríkisins

Frsm. meiri hl. (Halldór Ásgrímsson) :

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. Ed. hefur haft til meðferðar frv. til 1. um breyt. á l. nr. 72 frá 5. júní 1947, um Innkaupastofnun ríkisins. N. sendi frv. þetta til umsagnar nokkurra aðila. Frv. gengur út á það, að stjórn Innkaupastofnunar skuli skipa 5 menn sem Alþ. kýs hlutbundinni kosningu til fjögurra ára í senn. Þessi stjórn á að hafa yfirumsjón með starfsemi stofnunarinnar, taka lokaákvarðanir um öll innkaup og framkvæmdir og ákveða starfshætti. Umsögn barst frá aðeins einum aðila, þar sem komu fram upplýsingar um starfsemi Innkaupastofnunarinnar, eða frá fjmrn. Vil ég — með leyfi hæstv. forseta — leyfa mér að lesa upp þessa stuttu umsögn:

„Starfsemi Innkaupastofnunar ríkisins skiptist í tvo næsta sjálfstæða þætti. Hér er um að ræða framkvæmdadeild Innkaupastofnunarinnar og það sem kalla mætti innkaupadeild og er í reynd hin upprunalega mynd Innkaupastofnunarinnar. Framkvæmdadeildin er A-hlutastofnun og lýtur forstöðumaður hennar í reynd einnig yfirstjórn fjmrn. Deild þessi var stofnuð með lögum nr. 63 frá 1970 og er hlutverk hennar að hafa yfirumsjón með verklegum framkvæmdum á vegum ríkisins. Innkaupastofnunin, innkaupadeild, annast fjárreiður framkvæmdadeildar ásamt auglýsingum og ýmsum útboðum á hennar vegum. Að öðru leyti eru tengsl þessara deilda lítil.

Samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir er undir forustu formanns fjvn. Alþ. Nefnd þessi fylgist með fjármálalegri hlið opinberra framkvæmda og er ekki í neinar framkvæmdir ráðist fyrr en ljóst er að Alþ. hefur veitt fé til þeirra og þær taldar nægilega undirbúnar.

Innkaupastofnun ríkisins, innkaupadeild, er B-hlutastofnun. Fjmrh. skipar stofnuninni forstjóra. Stofnunin annast lögum samkv. kaup á hvers konar vörum sem ríkisstofnanir þurfa á að halda til starfsemi sinnar. Hér er um innkaup á ljósaperum og jarðbornum Jötni að ræða, svo að dæmi séu nefnd. Á árinu 1976 voru afgreiddar 5997 pantanir hjá Innkaupastofnuninni. Rn. telur mjög vafasamt að stjórn, sem kjörin væri til fjögurra ára, mundi bæta til muna við þá vöruþekkingu sem nú er fyrir hendi hjá stofnuninni.

Sá háttur er hafður á með öll meiri háttar innkaup, að þau fara fram að undangengnu útboði. Tilboð, sem berast, eru vandlega yfirfarin með þeim aðilum sem keypt er fyrir. Teljist allir bjóðendur hæfir er lægsta tilboðið tekið að öðru jöfnu. Komi upp ágreiningur milli Innkaupastofnunarinnar og þeirrar stofnunar, sem keypt er fyrir, um hvaða tilboði skuli tekið, er málinu vísað til ákvörðunar fjmrn. Rn. telur að ekkert hafi fram komið er bendir til annars en innkaup Innkaupastofnunarinnar séu í samræmi við góðar og gildar verslunarvenjur. Sveitarfélög og opinberar stofnanir, sem ekki er að lögum skylt að skipta við Innkaupastofnunina, leita þangað í vaxandi mæli og ætti það að vera nokkur viðurkenning á gildi þeirrar þjónustu sem stofnunin veitir. Rn. telur að fimm manna stjórn yfir stofnuninni, sem taki lokaákvarðanir um öll innkaup, yrði líkleg til að gera starfsemina seinvirkari og um leið dýrari.“

Meiri hl. n. komst að þeirri niðurstöðu og leggur til að frv. verði fellt. Albert Guðmundsson skilar séráliti. Jón G. Sólnes tók ekki afstöðu við afgreiðslu málsins í n. Fjarverandi afgreiðslu málsins var Ragnar Arnalds.

Ég vil aðeins geta þess, að það má vel vera að að mörgu megi finna hjá hinum ýmsu stofnunum á vegum ríkisins og sjálfsagt er svo einnig hjá Innkaupastofnuninni. Ég tel hins vegar ekki rétta leið að Alþ. kjósi stjórnir allra stofnana sem starfa á vegum ríkisins, hvort sem það er Innkaupastofnun eða aðrar stofnanir. Ég tel að Alþ. eigi að auka eftirlit sitt með þessum stofnunum, en ekki að skipa þeim stjórnir. Mikilvægt er að Alþ. sé sem mest óháð þessum stofnunum, fái nákvæmar skýrslur um það, sem er að gerast í stofnunum ríkisins, og stækki aðhalds- og eftirlitshlutverk sitt. Ég tel að hér sé um að ræða leið, þ. e. a. s. að Alþ. kjósi stjórn yfir Innkaupastofnun ríkisins, sem ekki muni leiða til neinna bóta í þessum efnum. Með því eru ekki tryggð nein tengsl á milli þingsins og þessarar stofnunar frekar en annarra stofnana á vegum ríkisins. Ég get því sagt fyrir mitt leyti, að ég er andvígur slíkri skipan. Hins vegar var nokkuð rætt um það í n., að fara mætti þarna einhverja millileið, þ. e. a. s. að þessi stjórn hefði ekki eins viðamikið hlutverk og kemur fram í frv., þ. e. a. s. taki lokaákvarðanir um öll innkaup og framkvæmdir. Flm. taldi að þetta væri það sem skipti meginmáli og vildi ekki breyta þessu atriði. Ýmsir nm. töldu koma til greina að skipa þessari stofnun stjórn, en að hlutverk stjórnarinnar yrði eins viðamikið og gert er ráð fyrir í frv. áttu þeir erfitt með að sætta sig við, þ. e. a. s., svo að dæmi sé tekið um árið 1976, að taka lokaákvarðanir um nær 6000 pantanir hjá þessari stofnun.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mál, en vísa aðeins til þess sem ég hef áður sagt, að meiri hl. n. leggur til að frv. verði fellt.