17.04.1978
Efri deild: 79. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3491 í B-deild Alþingistíðinda. (2652)

63. mál, innkaupastofnun ríkisins

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Með frv. til l. um breyt. á l. nr. 72 frá 5. júní 1947, um Innkaupastofnun ríkisins, er lagt til að Innkaupastofnuninni sé sett stjórn sem Alþ. kjósi hlutbundinni kosningu til fjögurra ára í senn. Ástæðurnar fyrir því, að þetta frv. er fram borið, er að leita til þeirrar staðreyndar, að umsvif stofnunarinnar hafa aukist með hverju árinu og margfaldast frá því að hún tók til starfa og eru nú allt önnur og meiri en höfð voru í huga þegar lögin um hana voru sett á sínum tíma. Upphaflega var hlutverk stofnunarinnar það eitt að annast innkaup vegna ríkisstofnana og sérstakra framkvæmda ríkisins. Er það verkefni skýrt afmarkað í lögunum. Með lögum nr. 63 frá 12. maí 1970, um skipan opinberra framkvæmda, eru stofnuninni fengin ný verkefni og starfssvið hennar aukið og fært að nokkru leyti yfir á nýjan vettvang. Í 23. gr. laganna eru fyrirmæli um að koma skuli á fót framkvæmdadeild við Innkaupastofnun ríkisins. Framkvæmdadeildin fer með yfirstjórn verklegra framkvæmda, sbr. IV. kafla, nema til komi ákvæði 2. og 3. mgr. 21. gr., og hefur auk þess frumkvæði um stöðlun mannvirkja, eftir því sem við getur átt. Framkvæmdadeildin tekur við starfsemi byggingadeildar menntmrn. og byggingaeftirlits við embætti húsameistara ríkisins.

Í 14. gr. sömu laga segir: „Innkaupastofnun ríkisins annast útboð verka. Framkvæmdadeild Innkaupastofnunar ríkisins, sbr. 3. gr., undirbýr samningsgerð við verktaka.“ Því ætti að liggja ljóst fyrir að það eru engin smáverkefni sem lögin um skipan opinberra framkvæmda hafa falið Innkaupastofnuninni að annast. Með ákvæðum þessara laga gerbreytist hlutverk og starfsemi stofnunarinnar frá því sem haft var í huga og stefnt var að með setningu laganna um Innkaunastofnun ríkisins árið 1947 og með setningu núgildandi reglugerðar nr. 164 frá 1959, sem sett var samkv. heimild í sömu lögum. Með auknum umsvifum og nýjum verkefnum fer ekki hjá því, að margháttuð vandamál komi upp sem eðlilegt væri að kjörin stjórn stofnunarinnar tæki afstöðu til og leysti, enda er oft um að ræða veigamiklar ákvarðanir sem bæði beint og óbeint snerta hagsmuni almennings og þjóðarbúsins í heild. Það er því mesti misskilningur, sem fram kemur í áliti fjmrn. á frv. þessu og dags. er 31. jan. s. l., að tilgangur þessara laga sé að troða aukinni vöruþekkingu inn á stofnunina. Ekki skal dregið í efa, að hún sé ærin fyrir hendi nú þegar. Hins vegar voru fyrst og fremst höfð í huga ákvæði 21. gr. laga um skipan opinberra framkvæmda, bar sem segir að framkvæmdadeild Innkaupastofnunar ríkisins fari með yfirstjórn verklegra framkvæmda, sbr. IV. kafla laganna. Þetta er aðalatriðið sem liggur að baki flutningi þessa frv. um Innkaupastofnunina, að Innkaupastofnuninni sé sett stjórn, þar sem hún hefur svo veigamiklu hlutverki að gegna sem framangreind lagafyrirmæli bera vott um. Með þessu frv. er lagt til, að Alþ. kjósi sjálft stjórn stofnunarinnar og tryggi með því að stefnu þess sé fylgt í öllum meiri háttar málum, sem stofnunin á ákvörðunarvald í. Að öðru leyti vil ég vísa til grg. sem fylgir frv.

Ég vil líka harma það, sem kom fram hjá hv. frsm. fjh.- og viðskn. Ed., 5. þm. Austurl., að n. sendi, eftir því sem fram kom á fundi fjh.- og viðskn. Ed., þremur aðilum þetta frv. til umsagnar. Það eru Verslunarráð Íslands, Samband ísl. samvinnufélaga og fjmrn. Þar sem ekki bárust umsagnir gerði ég mér far um að kanna hvort Verslunarráð Íslands hefði gleymt að svara. Verslunarráðið kannaðist ekki við að hafa fengið sérstaka ósk frá nefndinni um álit á þessu frv., en lýsti því munnlega við mig, að Verslunarráðið væri fyrir sitt leyti samþykkt frv. og mundi styðja það, ef um það væri beðið.

Það kom fram hjá hv. frsm. fjh.- og viðskn. Ed., að þetta væri ekki rétta leiðin, að Alþ. kysi stjórnir til að hafa eftirlitshlutverk, og ætti ekki að auka vald Alþ. á því sviði. En það kom líka fram svolítið seinna í ræðu hans, að uppi hefðu verið hugmyndir um millileið, þar sem slíkri stjórn á stofnuninni væri gefið minna vald. Mér finnst stangast þarna á annars vegar alger afneitun á stjórn og hins vegar að það kæmi til greina að hafa einhvers konar stjórn á stofnuninni. Fagna ég því út af fyrir sig, vegna þess að ég finn þá að forustumaður fjh.- og viðskn. Ed. er ekki alveg ákveðinn í þeirri skoðun sinni, að alfarið sé rangt að hafa þarna einhvers konar stjórn á, enda hljóta allir að sjá við nánari umhugsun, að stjórn á þessari stofnun er nauðsynleg.

Hvað varðar fjölda pantana og erfiðleika á því, að stjórnin taki ákvarðanir um samtals 6000 pantanir á ári, hef ég sjálfur þá reynslu af setu minni í borgarstjórn Reykjavíkurborgar, að slíkt skapar ekki nokkur vandamál. Ýmislegt hefur lagast hjá Innkaupastofnun Reykjavíkurborgar við það, að stofnuninni var sett stjórn. Svo að við tökum eitt dæmi þá þarf að gæta að því — ekki af því að það sé raunhæft, heldur er þetta dæmi, — að oft vill það bregða við þegar ákveðnar vélar eða vélasamstæður eru keyptar, að ákveðinn hluti af varahlutum er tekinn með, sem er hrein sölumennska frá fyrirtækinu sjálfu. Fjárfesting er þá e. t. v. langt umfram þörf viðkomandi vélasamstæðu á líftíma hennar, þannig að stofnunin situr uppi með mikið fjármagn í erlendum gjaldeyri í varahlutum á lager, sem eru ekki notaðir þegar allt kemur til alls. Fróðlegt væri að láta fara fram birgðatalningu hjá lnnkaupastofnun ríkisins og vita, hvort nokkuð af vörum liggur þar fyrir eða hvort stærri pantanir hafa e. t. v. verið gerðar en eðlilegt er miðað við þarfir stofnana ríkisins.

Á því ári, sem vitnað var til, var velta stofnunarinnar um 3 milljarða. Hvort nákvæmlega rétt er farið með töluna 2.7 milljarða í grg. má gagnrýna. Sú tala, eftir því sem mér var sagt á seinna stigi, er hærri og sýnir þá að það eru engar smáupphæðir af fjárlögum, sem fara í gegnum þessa stofnun.

Ég fagna því, að 2. þm. Norðurl. e. styður þessa till. mína eða alla vega hugmyndina sem í henni býr, þó að hann leggist gegn ákveðnu orðalagi. Ég hef orðið var við þá ádeilu, sem hann benti á, á samskipti bæjarfélaga úti á landsbyggðinni við Innkaupastofnun ríkisins. Hefur verið fullyrt að framkvæmdir á vegum stofnunarinnar, eins og að þeim er staðið, væru mörgum sinnum dýrari en þær þyrftu að vera, vegna þess að heimamenn á hverjum stað komi þar oft ekki nálægt.

Ef við komum að því ákvæði, sem hv. 2. þm. Norðurl. e. minntist á, en það er sú setning í 1. gr. sem tekur afdráttarlaust af um það, hverjum ber að ákveða um kaup, bæði innkaup og framkvæmdir, og ákveða starfshætti, þá er þetta nákvæmlega tekið upp úr ákvæðunum sem snerta Innkaupastofnun Reykjavíkurborgar og ég hef fundið að hafa reynst mjög vei. Alger samstaða var hjá öllum stjórnmálaflokkum, sem standa að borgarstjórninni, um þetta fyrirkomulag, enda væri erfitt í mínum huga að koma á öðru fyrirkomulagi en að stjórn þessarar stofnunar taki ákvarðanir og verði þá ábyrg fyrir því sem gerist í stofnuninni, en starfsmenn að sjálfsögðu bara starfsmenn sem framkvæma ákvarðanir stjórnarinnar.

Ég vil taka sem dæmi, að frá því að stjórn Innkaupastofnunar Reykjavíkurborgar var sett á laggirnar og þar til slík setning kom inn í reglugerð um hana hafa útboð gersamlega breyst hjá Reykjavíkurborg. Það er löngu hætt að taka sérstaklega til um nafn vöruheita í útboðslýsingu og allt að því í hvaða fyrirtæki þær vörur fáist. Útboðslýsingarnar eru nú hlutlausar að því leyti til, að nú er bannað að taka til vöruheiti eða velja frá hvaða erlendum framleiðendum vörur skuli keyptar. Þar er talað um gæðin og þá staðla sem tilheyra viðkomandi vörum og fyrirtækjum. Innkaupastofnuninni er gert að skyldu að hafa gæðaflokkinn ákveðinn, en ekki að vörumerkin séu tiltekin. Svona má lengi telja. Ég held að það hafi verið mjög mikill sparnaður fyrir Reykjavíkurborg að hafa það eftirlit sem nú er þar á. Ég sé ekki nokkra ástæðu til þess að það reynist verr hjá ríkinu eða ríkisstofnunum en það hefur reynst hjá Reykjavíkurborg.

Ég endurtek, að ég harma að ekki skuli hafa borist umsagnir frá nema einum aðila af þrem sem mér skilst að umsagnar hafi verið leitað hjá, en það er fjmrn. Þessu máli er að sjálfsögðu ekkert öðruvísi farið en mörgum öðrum, að þegar embættismenn eru beðnir um álit á frv. til laga, sem snerta að einhverju leyti rekstur sem þeir sjálfir eiga að sjá um og hafa eftirlit með, þá er afskaplega erfitt að ná þeim stofnunum eða valdi undan embættismönnum. Með leyfi forseta vitna ég í umsögn fjmrn. Þar segir:

„Samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir er undir forustu formanns fjvn. Alþ. Nefnd þessi fylgist með fjármálalegri hlið opinberra framkvæmda og er ekki í neinar framkvæmdir ráðist fyrr en ljóst er að Alþ. hefur veitt fé til þeirra og þær taldar nægilega undirbúnar.“

Þetta er allt ágætt og þarna er heimild til þess að ráðast í framkvæmdir, en ekki er sagt til um það, hvernig að útboðunum er staðið, hvort það er rétt eða rangt frá viðskiptalegu sjónarmiði, enda væri það allt of mikið verk fyrir formann fjvn. eða þá n., sem hann veitir forustu, að fara að fylgjast með svo umfangsmikilli vinnu. Þarna eru þó tengsl við Alþ., en frsm. fjh.- og viðskn. Ed. taldi að óeðlilegt væri að hafa of mikil tengsl á milli framkvæmdaaðilanna úti í kerfinu og Alþingis beint.

En það segir á bls. 2 í þessari einu umsögn, sem barst, að rn. telur mjög vafasamt að stjórn, sem kjörin væri til fjögurra ára, mundi bæta til muna við þá vöruþekkingu sem nú er fyrir hendi hjá stofnuninni. Ég er afskaplega ánægður með að rn. skuli ekki vera alveg visst um að það sé til hins verra að hafa stjórn. En þeir eru þó ekki vissir um að það sé rangt heldur. Sem sagt, þeir hafa ekkert álit á málinu. Það hefur aldrei staðið til í mínum huga að bæta við þá vöruþekkingu sem nú er fyrir hendi hjá stofnuninni. Ég hugsa að hún sé út af fyrir sig alveg nóg, vöruþekkingin. Það fer náttúrlega eftir vali manna í stjórnina, hvort þarna kæmi einhver viðbótarvöruþekking eða ekki. En hlutverk stjórnar á stofnun sem þessari hlýtur að vera að gæta hlutleysis í gerð útboðslýsinga og í mati á tilboðum. Ég held að það kæmi miklu meira af tilboðum en er núna, eins og kom fram hjá hv. 2. þm. Norðurl. e. Og með þeim vinnubrögðum væri að sjálfsögðu miklu betra eftirlit með ráðstöfun á því fjármagni sem ætla ð er í hverja framkvæmd fyrir sig.

Talað er um, að sá háttur sé hafður á um öll meiri háttar innkaup, að þau fari fram að undangengnu útboði. Þetta eru engar nýjar upplýsingar, þetta vita allir. En það er útboðsgerðin sjálf, sem skiptir miklu máli, sem ég rakti hér áðan.

Rn. undirstrikar þarna eina mgr., að komi upp ágreiningur milli Innkaupastofnunarinnar og þeirrar stofnunar, sem keypt er fyrir, um hvaða tilboði skuli tekið, er málinu vísað til ákvörðunar fjmrn. Það breytist ekkert. Ef upp kemur ágreiningur milli stofnunar, sem verslað er fyrir, keypt er inn fyrir, og stjórnarinnar, þá verður rn. að sjálfsögðu að skera úr um ágreininginn sem slíkan. Það gerir borgarráð líka. Ef svo er ágreiningur áfram í borgarráði, þá verður borgarstjórn að taka málið til meðferðar og þar kemur það á dagskrá.

Það segir hér í bréfinu líka, að rn. telji að ekkert hafi komið fram er bendi til annars en innkaup stofnunarinnar séu í samræmi við góðar og gildar verslunarvenjur. Þetta draga allir á efa eða a. m. k. flestir sem hafa skipt við stofnunina. Þeir hafa árum saman talið sig gera stofnuninni mjög góð tilboð og ekki fengið samþykkt. Það kom fram líka hjá hv. 2. þm. Norðurl. e. Full ástæða er til þess að draga í efa að alltaf hafi verið farið eftir góðum og gildum verslunarvenjum.

Í síðustu mgr. í bréfinu segir rn., að það telji fimm manna stjórn, sem taki lokaákvörðun um öll innkaup, líklega gera starfsemina seinvirkari og um leið dýrari. Þessu vil ég mótmæla. Ég held að starfsemin mundi verða miklu fljótvirkari ef fyrirkomulagið væri líkt og hjá Innkaupastofnun Reykjavíkurborgar. Sú stjórn hittist einu sinni í viku á föstum fundum og tekur þá fyrir þau mál, sem forstjórinn leggur fyrir hana, og afgreiðir þannig að ég held að það yrði til þess að hraða málum. Ég hef sjálfur orðið fyrir þessum seinagangi og ekki fyrir löngu. Það var kvartað undan því, að lægstbjóðandi fékk ekki pöntun, sem hann átti von á, fyrr en eftir að tilboðstíminn var runninn út, og pöntunin var þegar orðin 20% hærri en hún þurfti að vera hefði verið pantað á réttum tíma. Ég vil því draga þetta mjög í efa, og ég vil mótmæla því, að 5 manna stjórn kosin af Alþ. hafi ekki miklu betri stjórn á fyrirtækinu, miklu meira eftirlit og aukinn hraða á afgreiðslum en nú er fyrir hendi.

Ég vona að það verði fleiri til þess að styðja þetta frv., greiða atkv. á móti nál., en hv. 2. þm. Norðurl. e., þó að við höfum ekki náð samkomulagi á nefndarfundunum um að taka út úr 1. gr. frv. það sem hann las upp og ég ætla að leyfa mér að endurtaka. Í 1. gr. segir:

„Stjórn Innkaupastofnunar ríkisins skipa 5 menn, sem Alþ. kýs hlutbundinni kosningu til fjögurra ára í senn, ásamt jafnmörgum til vara. Stjórnin hefur yfirumsjón með starfsemi stofnunarinnar.“ Hv. þm. vildi sleppa því, sem á eftir kemur: „tekur lokaákvarðanir um öll innkaup og framkvæmdir og ákveður starfshætti.“

Ég gat ekki sætt mig við að þessi setning yrði tekin úr, en ég var reiðubúinn til þess að umorða hana, ef till. kæmu fram um það. Hvorki hv. 2. þm. Norðurl. e. né 1. landsk. þm. sáu ástæðu til þess að koma með orðalagsbreytingu, svo að ég stóð að því að láta þessa setningu halda sér, enda er hún mergurinn málsins í frv.