17.04.1978
Efri deild: 79. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3497 í B-deild Alþingistíðinda. (2655)

63. mál, innkaupastofnun ríkisins

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Ég þarf að sjálfsögðu ekki að vera langorður um þetta frv., sem hér liggur fyrir, en mér þótti rétt að láta koma skýrar fram en enn hefur orðið í þessum umr., að fjmrh. hefur falið fjvn. að endurskoða lög um skipan opinberra framkvæmda og er það gert í samræmi við þál. sem var samþykkt hér á hinu háa Alþ. Þessi endurskoðun, sem stendur yfir, á nokkuð í land að henni verði lokið, en n. hefur fram að þessum tíma safnað að sér miklum gögnum. Enn er að sjálfsögðu allmikil vinna að vinna úr þeim og ljúka þeirri endurskoðun, sem í gangi er. Ég veit að mönnum skilst það, að orðið hafa nokkrar tafir á þessari endurskoðun, einkum vegna mannaskipta, sem hafa orðið í fjvn., og sjúkleika fyrrv. formanns. En það kemur vonandi einhvern tíma að því, að hægt verði að ljúka þeirri endurskoðun sem ráðgert er að koma á.

Öðrum þræði stóð ég upp til þess að benda á það, að ég hygg að ákvæði í 1. gr. þessa frv. stangist á við ákvæði laga um skipan opinberra framkvæmda, þar sem gert er ráð fyrir því, að stjórn stofnunarinnar taki lokaákvarðanir um ýmislegt, eins og innkaup og framkvæmdir, en það eru einmitt framkvæmdir, sem framkvæmdardeild Innkaupastofnunarinnar gerir áætlun um og leggur fyrir samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir, sem er skipuð þremur mönnum: hagsýslustjóra, sem er formaður nefndarinnar, formanni fjvn. og forstjóra framkvæmdadeildar Innkaupastofnunar ríkisins. Eftir þeirri venju, sem skapast hefur í vinnubrögðum í sambandi við opinberar framkvæmdir, hefur samstarfsnefndin tekið lokaákvarðanir um framkvæmdir. Ég held að það þyrfti þá að athuga enn betur, hvort þetta stangast ekki á. Það var ekki annað erindi mitt hingað upp í ræðustólinn.

Ég verð að segja það, að ég er ekki sannfærður um það fyrirfram, að sú skipan mála, sem hér er lagt til, að Alþ. kjósi sérstaka stjórn fyrir þessa stofnun, leiði til neinnar sérstakrar farsældar í starfi stofnunarinnar. Ég hallast miklu fremur að því, að ekki sé rétt að Alþ. sé ofan í hverju máli og hverri stofnun sem ríkið hefur með höndum. Ég mun þess vegna ekki, af þessum tveimur ástæðum sem ég hef hér bent á, greiða þessu frv. atkv.