17.04.1978
Efri deild: 79. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3501 í B-deild Alþingistíðinda. (2657)

63. mál, innkaupastofnun ríkisins

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Umr. um þetta mál hafa orðið mjög langar og raunverulega farið yfir á annað svið en efni frv. og snúist miklu meira um lög um skipan opinberra framkvæmda sem voru samþ. á Alþ. 30. apríl 1970. Í fjh.- og viðskn. Ed. kom fram, að það gæti verið hljómgrunnur fyrir því, ef flm. vildi fallast á það, að breyting yrði gerð á orðalagi í frvgr. M. a. sagði ég, að hugsanlegt væri að taka fram í erindisbréfi til stjórnarinnar, ef samkomulag næðist um að koma málum svo fyrir í frv., taka skýrt fram í erindisbréfi, hvert hlutverk stjórnin ætti að hafa. En flm. var ekki til umræðu um eitt eða neitt í orðalagsbreytingarátt, og við gátum þess vegna ekki, hinir mennirnir í n., sem þá vorum viðstaddir, samþykkt framgang málsins eins og það lá fyrir. En flm. frv. kom inn á fleiri atriði og einn nm. einnig, 2. þm. Norðurl. e. Hann fullyrti úr ræðustól, og ég vil fá dæmi, þegar fullyrðingar koma svona fram, að vegna seinagangs þessarar stofnunar og mér skildist jafnvel þvermóðsku hefðu framkvæmdir orðið margsinnis dýrari. Margsinnis þýðir að mínum skilningi a. m. k. þrisvar sinnum eða meira. Um þetta verða menn að fá dæmi. Þegar slíkt er fullyrt er ekki nóg að segja það í ræðustól og nefna svo ekkert dæmi.

Ég hef í höndunum skjal frá fjárlaga- og hagsýslustofnun, sem ég hef skrifað inn á og móttekið 2. júlí 1976 fyrir hádegi. Efnið er yfirlit yfir hagsýsluverkefni sem unnið var á árinu 1975 og fyrri helmingi ársins 1976. Á bls. 6 er liður 2.6, sem heitir framkvæmdadeild Innkaupastofnunarinnar:

„Forstöðumaður framkvæmdadeildar óskaði í febrúar 1976 eftir aðstoð hagsýslunnar við athugun á skipulagi og rekstri framkvæmdadeildar. Samkv. úttekt var um þrjú meginvandamál að ræða:

1. Lög um skipan opinberra framkvæmda.

2. Eftirlit með framkvæmdum.

3. Skipulag og stjórnun deildarinnar.

Samin hefur verið grg. um lög um skipan opinberra framkvæmda og er hún hugsuð sem bakhjallur vegna frekari athugunar á stofnuninni. Verið er að vinna að því að koma á tölvubókhaldi hjá framkvæmdadeild, þannig að upplýsingastreymi verði skjótt og virkt. Í síðasta lagi verða innra skipulag og stjórnun deildarinnar tekin fyrir í heild sinni, enda þótt sum þeirra atriða komi fyrr fyrir, á fyrri stigum athugunarinnar.“

Þetta eru aths., sem fjárlagastofnunin gefur um lög um skipan opinberra framkvæmda, og er ákveðin athugun í gangi út af ýmsum kvörtunum sem fram hafa komið í sambandi við þessi lög. Ég vil leyfa mér, herra forseti, að lesa niðurlag 22. gr. í þessum lagabálki, en þar segir svo:

„Nefndin“ — þ. e. a. s. samstarfsnefndin „hefur það hlutverk að leiða saman sjónarmið eignaraðila opinberrar framkvæmdar á undirbúnings- og framkvæmdastigi og rannsaka frumathugun og áætlunargerð, sem er undanfari verklegrar framkvæmdar. Nefndin fylgist að öðru leyti með framkvæmd hinnar fjármálalegu hliðar opinberrar framkvæmdar.

Ef nefndin telur, að óþarfa dráttur sé á afgreiðslu máls, sem sameignaraðili sendir hlutaðeigandi rn., skal hún hlutast til um, að úr sé bætt:

Það vantar ekki lög í landinu. Það vantar framkvæmd á lögunum. Nú kann vel að vera að ný stjórn yfir Innkaupastofnun ríkisins væri miklu betri framkvæmdaaðili en rn. og okkar ágæti og virðulegi fulltrúi úr Ed. Alþ., sem er form. fjvn. Það kann vel að vera. Ég vil engu spá um það. En ég álít ekki að þetta frv., sem hér er til umr. og ég lagði til að yrði fellt í núverandi formi, bæti hér úr. Þess vegna taldi ég of einstrengingslegt að vera ekki til umr. um að breyta orðalagi og fá það fram, að aðalatriðið væri efling þessarar stofnunar til þæginda fyrir bæði ríkisvaldið, sveitarfélögin og hugsanlega einhverja aðra. Þess vegna varð niðurstaðan í n. sú, eins og þskj. bera vitni um og umr. hafa gefið til kynna, að í fjh.- og viðskn. Ed. varð ekki hljómgrunnur fyrir því að styðja frv. eins og það lá fyrir. En mjög athyglisvert er að umr. manna hafa einkum runnið í þann farveg að snúast um önnur lög en sjálfa Innkaupastofnunina. Kann það að ýta á eftir þeirri nauðsyn, sem mér skilst að flestir séu sammála um, að lög um skipan opinberra framkvæmda verði endurskoðuð og nýtt frv. komi um þessar framkvæmdir. Fullyrt hefur verið úr ræðustóli á þingi, að þessi lög hafi reynst mjög illa. Ég skal ekki dæma það ákveðið. Hitt kann að hafa verið stór þáttur í framkvæmd laganna, að fjármagnið lá ekki alltaf á lausu, hvort sem um er að ræða fjármagn frá hendi sveitarfélaga eða ríkisvaldsins. Á meðan maður heyrir ekki nánar um þann þátt, sem fjármagnsskortur hefur átt í framkvæmdunum, þá get ég ekki dæmt um það ákveðið, að lögin sem slík séu óhafandi, en sjálfsagt er að endurskoða þennan lagabálk og leysa úr margvíslegum vandamálum sem koma upp við skipan opinberra framkvæmda.

Við höfum allir heyrt margvíslegar sögur um mikinn drátt á framkvæmdum og menn hafa verið mjög harðir, jafnvel alþm. — utan Alþ. — og ýmsir forsvarsmenn sveitarfélaga, að skella allri skuldinni á svokallaða samstarfsnefnd. Nú höfum við formanninn, eins og ég sagði, í þessari ágætu nefnd hér á meðal vor. Ég veit ekki hvort hann hefur verið mjög aðþrengdur af starfi sínu í þessari nefnd, en ég held að oft sé þægilegt að hafa einhvern sem óánægjunni er beint að, jafnvel þó að hann eigi engan þátt í óánægjunni. Það þarf alltaf að kenna einhverjum um ef eitthvað gengur ekki eðlilega.