17.04.1978
Efri deild: 79. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3503 í B-deild Alþingistíðinda. (2659)

63. mál, innkaupastofnun ríkisins

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil þakka öllum þeim sem hafa fundið sig knúna til þess að taka þátt í þessum umr. um Innkaupastofnun ríkisins. Ég leyfi mér að túlka það á þann hátt, að þetta sé stofnun sem Alþ. þurfi að beina athygli sinni frekar að og af þeim ástæðum og þeim hvötum sem urðu til þess að ég flutti það frv. sem er til umr.

Ég vil leiðrétta þann misskilning og bið hv. 5. þm. Austurl. afsökunar, ef ég hef misskilið málflutning hans, að hann hafi verið með í huga að fara einhvern milliveg um skipan stjórnar Innkaupastofnunar. Hann vill alls ekki stjórn, hvorki á Innkaupastofnun ríkisins né aðrar stofnanir, og hann tiltók þar tvær stofnanir sérstaklega sem dæmi, Póst og síma og Rafmagnsveitur ríkisins. Ég held að Rafmagnsveitur ríkisins hafi stjórn. (HÁ: Hún er ekki kosin af Alþ.) Ekki kosin af Alþ., en Rafmagnsveitur ríkisins hafa stjórn, hvort sem hún er kosin af Alþ. eða ekki. Ég held að það sé alveg rétt ráðstöfun, að Rafmagnsveitur ríkisins hafi stjórn. Ég tel líka, þrátt fyrir að hv. 5. þm. Austurl. er mér ekki sammála, að það væri mjög þörf ráðstöfun að setja góða stjórn á Póst og síma. Ég tel það allt að því nauðsynlegt. Ég er ekki þar með að gefa í skyn að þeir, sem stjórna Pósti og síma nú, séu slæmir menn, en það eru takmörk fyrir því, hvað hægt er að leggja á einstakling, því Póstur og sími er gríðarlega stór og umfangsmikil stofnun.

Talað er um, að þó stjórn komi á Innkaupastofnun ríkisins verði fyrir fram séð að stjórnin á fyrirtækinu mundi ekki batna. Það getur út af fyrir sig verið rétt, en þó er líklegt að hún mundi batna. Ég er aðallega með það í huga, að t. d. mundi stjórn gæta betur að því en nú er gert, að útboðslýsingar á frumstigi yrðu athugaðar eins og gert er í Innkaupastofnun Reykjavíkurborgar og ég gat um áðan, strika út þar sem ekki væri af einhverjum ástæðum algert hlutleysi í útboðslýsingu og svo aftur stjórna innkaupum stofnunarinnar. Þarna skiptir það milljörðum af almannafé sem fer í gegnum stofnunina. Engum er greiði gerður með því að hlaða svo ábyrgð á einstaklinga eins og þarna á sér stað.

Síðan hafði ég hugsað mér að nákvæmlega það sama gerðist og í Innkaupastofnun Reykjavíkurborgar, að þessi stjórn mundi fylgjast með áfangakostnaði framkvæmda og hefði þá alltaf nokkuð gott yfirlit yfir það, hvort verklegar framkvæmdir væru á einhverju stigi að fara fram úr áætlun. En það er vitað mál, að framkvæmdir á vegum Innkaupastofnunar ríkisins hafa oft farið mjög mikið fram úr áætlun. Það er þetta sem ég hafði helst í huga. Að sjálfsögðu yrðu þeir starfsmenn, sem á vegum stofnunarinnar er falið að hafa eftirlit með þeim framkvæmdum, að gefa skýrslu til stjórnarinnar nokkuð reglulega, eftir því sem framkvæmdum miðar áfram og eftir því sem áföngum er lokið.

Hv. þm. er andvígur stjórn á Innkaupastofnun ríkisins og andvígur stjórnum yfirleitt við þessar stofnanir. Ég virði skoðun hans. Hún er eflaust byggð á reynslu. Ég þykist flytja þetta frv. byggt á þeirri reynslu sem ég hef sjálfur. Aðalatriðið er að við virðum hver annars skoðanir, ef þær eru á rökum reistar.

Hv. 6. þm. Suðurl., Steinþór Gestsson, sagði — ég krotaði það orðrétt — að ekki væri rétt að Alþ. væri ofan í hverri stofnun. Ég álít aftur á móti nauðsynlegt að Alþ. fylgist mjög vel með stofnunum sem fara með eins mikla fjármuni og Innkaupastofnun ríkisins gerir. Þegar féð er farið að skipta milljörðum, þá er hvorki hægt að gera lítið úr stofnuninni með því að tala um ljósaperuinnkaup né heldur að magna upp umfang hennar með því að tala um jarðbora, sem eru kannske keyptir einu sinni á áratug eða svo. Umsögn fjmrn. er því, ef maður les hana vel og hugsar um það, frekar neikvæð fyrir rn. að láta svona fara frá sér, ekki af því sem stendur þarna, heldur því sem maður les á milli linanna. Og ég harma afstöðu 6. þm. Suðurl., því að ég hefði metið jákvæða afstöðu hans mikils. Eins og kom fram áðan, þá er hann einn af þeim þm. d. sem vega mikið í málflutningi.

Á sama tíma þakka ég þeim Stefáni Jónssyni og Helga Seljan fyrir góðar undirtektir þeirra og sérstaklega þau dæmi sem hv. 7. landsk. þm. kom með og eru þekkt. Þarf ekki að gera því skóna, að hér sé verið að fara með eitthvert fleipur sem ekki megi tala um vegna þess að viðkomandi starfsmenn stofnunarinnar séu ekki hér til að verja hendur sínar. Fleiri en einn þm. hafa komið með dæmi um slík vinnubrögð. Það ætti að nægja til þess að sanna að hér er farið með sannleikann, hvort sem viðkomandi starfsmaður stofnana er viðstaddur til þess að mótmæla honum, gefa einhverjar skýringar á honum eða ekki. Það er óþarfa innskot og gert eingöngu til þess að gera lítið úr þeim málflutningi sem á sér stað við þessar umr.

Ég ætla ekki að vitna mikið í ræðu hv. 1. landsk. þm. annað en það, að hann virðist ekki skilja að stjórnunarlegt eftirlit með stofnunum eða fyrirtækjum er enginn leikaraskapur, sérstaklega í stórum fyrirtækjum eins og Innkaupastofnunin er. Og við verðum líka að vera viss um að slíkar stofnanir séu ekki reknar eins og einkafyrirtæki. Sá er alls ekki tilgangurinn með stofnunum. Þær á að reka á allt annan hátt en einkafyrirtæki og miklu betra eftirlit þarf að vera með þeim og kannske miklu meira stjórnunarlegt eftirlit vegna þess að þær eru ekki fyrirtæki og ekki venjuleg hlutafélög. Það getur vel verið, að lög um opinberar framkvæmdir séu einhver þrándur í götu hér, en ég held ekki.

Það er talað um samstarfsnefnd við Innkaupastofnun ríkisins. Samstarfsnefnd við stjórn Innkaupastofnunarinnar gæti alveg jafnt verið áfram og starfsfólk stofnunarinnar. Hún er bara samstarfsnefnd við Innkaupastofnun ríkisins eins og hún er hverju sinni.

Ég vil leiðrétta þann misskilning hjá hv. 1. landsk. þm., að einstrengingslega hafi verið tekið á móti hugmynd hans um orðalagsbreytingu á till. minni. Það er alls ekki rétt. Hv. þm. bað um að orðalaginu yrði breytt, en það er rétt að ég féllst ekki á það. Aftur á móti bað ég um till. að orðalagsbreytingu, en svarið, sem ég fékk frá hv. þm., var að ég skyldi koma með hana. Það þýðir ekki að hrista höfuðið, form. n. fer þá með rangt mál, því að þetta eru þau orðaskipti sem fram fóru yfir borðið milli hv. 1. landsk. þm. og mín og svo aftur hv. 2. þm. Norðurl. e. Ég sem flm. treysti mér ekki til að finna annað orðalag, sem næði betur því hugtaki og því stjórnunarfyrirkomulagi, sem ég vil koma á, en það sem ég hef sjálfur búið til. En að sjálfsögðu var ég reiðubúinn til þess að athuga hvaða orðalagsbreytingu sem fram hefði komið, ef hún hefði ekki brenglað of mikið þann þankagang sem ég hafði hugsað mér að hafa í till. minni. Ég vil því leiðrétta það, að þarna hafi verið um einhverja einstrengingslega skoðun að ræða á hugmyndum sem hann hafi komið fram með. Ég veit ekki, hvort hv. þm. tekur þessa till. alvarlega, því að mér skildist helst á ræðu hans í lokin, að eiginlega þyrfti að ráða saklausan mann til stofnunarinnar til að taka á sig ásakanir og ádeilur á stofnunina. Það finnst mér þó að ætti að vera undirstrikun þess, að hann veit þá sjálfur, hv. þm., að það eru uppi ásakanir og ádeilur á stofnunina. Það þýðir þá um leið, að hann hlýtur að vera sammála mér um að stjórnunarlegra breytinga er þörf. Þá er ég sammála.