17.04.1978
Neðri deild: 77. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3509 í B-deild Alþingistíðinda. (2666)

243. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson) :

Virðulegi forseti. Það eru örfá orð sem ég vildi segja í sambandi við þetta mál. Í fyrsta lagi það, að þau atriði, sem hér eru til meðferðar, voru í frv. því um breytingar á framleiðsluráðslögunum, sem lagt var fram á hv. Alþingi 1972. Í öðru lagi vil ég segja það, að eins og hv. flm. tók fram er nú unnið að endurskoðun framleiðsluráðslaga og á þessum vetri hefur því verki skilað verulega áfram. M. a. fóru fulltrúar úr nefndinni til Norðurlanda nú um þessa helgi til að kynna sér þessi mál á Norðurlöndunum. Ég geri mér því vonir um að kannske náist samkomulag um þessa heildarendurskoðun á framleiðsluráðslögunum, sem brýna nauðsyn ber til að gera. Með tilliti til þess er það ósk mín, að ekki verði gerðar á lögunum neinar breytingar á þessu þingi, enda tel ég það ekki framkvæmanlegt tímans vegna, en þó einnig vegna þess að ég hef sjálfur beitt mér gegn því, þar sem ég hef komið því við, að það væri gert vegna þessarar heildarendurskoðunar, því að öll frávik eða smáatriði í þeirri breytingu á lögunum gætu haft áhrif í sambandi við það mál. Hins vegar tel ég mig mega fullyrða, að þetta verður eitt af þeim atriðum, sem kæmu inn í nýtt frv. að framleiðsluráðslögum þegar það sér dagsins ljós, sem ég vona að geti orðið í byrjun næsta þings, ef þessi nefnd ber gæfu til þess að ná saman. Í viðræðum, sem ég átti við nm. nú fyrir stuttu, fullyrtu þeir allir við mig, að það væri þeirra einlægi vilji að vinna að þessum málum eins vel og rækilega og þeir gætu með það fyrir augum, að þeir freistuðu þess að ná samkomulagi. Með tilliti til þessa er ósk mín fram borin um að engar breytingar verði gerðar á lögunum á þessu þingi, því að ég vænti þess, sem ég hef nú þegar lýst.