17.04.1978
Neðri deild: 77. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3510 í B-deild Alþingistíðinda. (2667)

243. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Gunnlaugur Finnsson:

Hæstv. forseti. Ég fagna því út af fyrir sig, að þessu máli skuli hafa verið hreyft af hv. flm. Það hefur mjög komið fram á undanförnum mánuðum, að landbúnaðarstefnan hefur verið gagnrýnd þannig, að rekin væri röng landbúnaðarstefna í landinu. Ég vil í því sambandi fyrst og fremst benda á, að þeir, sem hafa farið með málefni landbúnaðarins, hafa haft takmarkaða möguleika til þess að móta landbúnaðarstefnu vegna þess að þá hefur skort lagaheimildir frá Alþ. Ég vil líka fagna þeirri yfirlýsingu, sem kom frá hæstv. ráðh. áðan, og mér fínust ástæða til þess að minna á, að í frv. 1972 var gert ráð fyrir slíkum ákvæðum. Má spyrja um það líka eða velta því fyrir sér, hvernig á því stóð, að þau ákvæði eða það frv. náði þá ekki fram að ganga. Þegar framleiðsluráðslögin voru til endurskoðunar og samþykkt á þeim breyting, ég hygg vorið 1975, þá lagði ég mikla áherslu á það fyrir mitt leyti í þann tíð, að slíkar stjórnunarlegar heimildir kæmu þá inn í lögin fyrir Framleiðsluráð og Stéttarsamband bænda úr að vinna. Þá voru aðrir flokkar við völd en 1972, en eigi að síður náðist ekki samkomulag um þessi atriði þá. Ég vil minna á þessi atriði tvö, vegna þess að ég tel mjög þýðingarmikið varðandi alla stjórnun að slík aukin heimild fáist inn í lögin.

Landbúnaðarmálin hafa verið viðkvæm mál fyrr en nú, þó staðan sé nokkuð önnur nú en stundum áður, þegar tekist hefur verið á um vissa þætti og þá fyrst og fremst innan bændastéttarinnar sjálfrar, tekist á um verðhlutfall milli sauðfjárafurða annars vegar og afurða nautpenings eða mjólkurframleiðslunnar hins vegar. Þess hefur stundum gætt, að orðið hafa miklar sveiflur í einstökum búgreinum. Á tilteknu tímabili hafa sauðfjárafurðir verið allt of miklar og skortur á mjólk. Síðan hefur myndast smjörfjall, en skortur á kjöti og þurft að slátra snemma hausts eða svokallaða sumarslátrun. Á síðari árum hefur tekist betur til að mínu mati um þetta hlutfall og kemur það fram nú í því, að raunar í báðum búgreinum er of mikil framleiðsla miðað við innanlandsþarfir.

En það er fleira, sem kann að vera ágreiningsmál, en þetta hlutfall eitt. Það kann líka að vera ágreiningsmál, hvernig að framleiðslunni er búið í hinum einstöku landshlutum. Ég hef oft og tíðum bent á það, að á sama tíma og löggjafinn gerir ráð fyrir sama verði um land allt, þá eru engin ákvæði til í þá átt, að líka sé gert ráð fyrir því, að aðstaða sé svipuð, að bændur kaupi sínar framleiðsluvörur á svipuðu verði. Það nær að vísu til áburðarins, sem er nokkurn veginn á sama verði um land allt. Það nær til fleiri þátta, en það nær t. d. ekki á nokkurn hátt til fóðurbætis, sem er einn stærsti kostnaðarliðurinn á búrekstrinum, sem og til mjög misjafnrar aðstöðu vegna flutninga.

Þessar umr. hafa m. a. farið fram í ljósi þess, að á norðanverðum Vestfjörðum, á Ísafjarðarsvæðinu, hefur oft verið skortur á mjólk og fengist hefur heimild til þess að greiða flutningskostnað á milli sölusvæða og verið sagt, að það væri eins gott að gera það eins og að auka framleiðsluna á viðkomandi stað. Nokkur reynsla hefur fengist af þessu undanfarin ár. Og hver er sú reynsla? Hún er sú, að mjög oft að vetrinum er alvarlegur skortur ekki aðeins á nýmjólk, heldur á vinnsluvörunum sjálfum, svo sem skyri, mjólk, súrmjólk og öðru slíku á þessum stöðum. Reynslan er sú, að við búum við það veðurfar, að það tekst ekki að tryggja íbúum í þessum þorpum nýjar neysluvörur á þessu sviði. Þess vegna tel ég, að það sé ekki áhorfsmál, að við eigum að veita Framleiðsluráði og samtökum bænda rétt eða a. m. k. möguleika til þess að gera svipaðar ráðstafanir og t. d. í Noregi, þar sem ákveðið er misjafnt verð eftir landshlutum, hvort tveggja að þarna sé heimild til hækkaðs verðs sem og að heimild sé til þess að jafna aðstöðu. Ég tek þess vegna heils hugar undir þá hugmynd sem þarna er sett fram. Ég fagna enn fremur því, sem ráðh. sagði áðan, og vil endurtaka og leggja áherslu á það, að ég vænti þess, að þegar þeirri endurskoðun lýkur, sem nú stendur yfir, þá verði hægt að tryggja þessum hugmyndum framgang þegar lögunum verður breytt.