01.11.1977
Sameinað þing: 11. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 342 í B-deild Alþingistíðinda. (268)

313. mál, bifreiðahlunnindi bankastjóra

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Út af fyrirspurn þessari var leitað til ríkisbankanna og spurst fyrir um hver væru bifreiðahlunnindi bankastjóra, hvenær ákveðin og af hverjum. Svör hafa borist frá öllum þeim ríkisbönkum sem heyra undir viðskrh., þ.e.a.s. Seðlabankanum, Landsbankanum og Útvegsbankanum. Svör þessi eru að efni til samhljóða og sé ég þess vegna ekki ástæðu til að lesa upp bréf frá hverjum banka fyrir sig. Í þeim kemur fram að bankastjórar njóta sömu hlunninda um kaup og rekstur bifreiða eins og ráðh., enn fremur að ákvörðun um þetta efni er í öllum bönkunum tekin árið 1970, vorið 1970. Ákvörðun þessi er tekin í öllum tilfellum af bankaráðum bankanna á formlegum fundi og með sérstakri samþykkt og bókun bankaráðanna.

Ég get að sjálfsögðu ekki gert grein fyrir því, hvaða rök hafa þá legið til þessarar ákvörðunar bankaráðsmanna, en vil minna á það, að það kemur ekki annað fram en að þessi ákvörðun hafi verið tekin af bankaráðsmönnum samhljóða, og ég hygg að allir stjórnmálaflokkar hafi þá átt fulltrúa í bankaráðunum. Ég get þó bent á það, að e.t.v. má leita skýringar í því sem kemur fram í bréfi Landsbankans, þar sem segir svo, með leyfi forseta: „Í þessu sambandi er rétt að taka fram, að fyrir þennan tíma höfðu bankastjórar haft til afnota bifreiðar sem voru eign bankans. Bankinn greiddi allan rekstrarkostnað þeirra.“ Og í svari Útvegsbanka og Seðlabanka er greint frá því, að sömu reglur hafi gilt um þetta efni hjá þeim eins og hjá Landsbanka.

Samkvæmt munnlegum upplýsingum, sem fengist hafa frá Búnaðarbanka, þó hann heyri ekki undir mig, munu gilda þar sömu reglur og annars staðar hjá þessum bönkum. Og sama er að segja um þá banka sem eru hlutafélög. Ég hef að vísu ekki fengið skrifleg svör frá þessum bönkum, en eftir fengnum upplýsingum og eftir því sem næst verður komist gilda þar sömu reglur.

Ég sé ekki að það skipti út af fyrir sig miklu máli að ég fari að skrifta hér um mína persónulegu skoðun á þessu máli, þar eð ákvörðun um þetta hefur hvorki verið tekin af mér né af öðrum ráðh.og það er ekki heldur á valdi ráðh. að breyta þessari ákvörðun bankaráða. Ég lít svo á, að það verði að líta á þessi hlunnindi sem þátt í launakjörum bankastjóra, og það er bankaráðið sem ákveður þau, en ekki ráðh. (Gripið fram í.)

Ég geri ráð fyrir því, án þess að ég ætli að fara að gerast dómari í þessu máli, að það yrði talið að bankaráðið hefði heimild til að ákveða þetta bankastjórum til handa. En ég get sagt það sem mína skoðun um þessi hlunnindi, að auðvitað skil ég það vel að skoðanir geta verið skiptar um þessi bifreiðahlunnindi bankastjóra, ekkert síður en um bifreiðahlunnindi ráðh. og kannske jafnvel enn þá frekar. En ekki er ástæða til að vera að ræða um það í sambandi við þessa fyrirspurn. Ég hef gefið þær upplýsingar sem ég hef fengið varðandi hana, og ég tel að það séu þær upplýsingar um staðreyndir málsins sem máli skipta, en ekki mín skoðun.