17.04.1978
Neðri deild: 77. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3520 í B-deild Alþingistíðinda. (2682)

246. mál, Seðlabanki Íslands

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er nú nokkuð um liðið síðan umr. um þetta mál fóru fram. Þá stóðu svo mál að einungis stjórnarliðar gerðu grein fyrir afstöðu sinni til þessa. En mig langar til þess að leggja örfá orð í belg út af þessu máli.

Ég skal segja það strax um mína skoðun, að ég tel þetta mál sjálfsagt. Ég tel sjálfsagt að breyta í þessu tilviki til á þann veg, að viðkomandi ríkisstj. hafi þetta ákvörðunarvald og beri ábyrgð á því. Ég tók eftir því, að hv. þm. Jón Skaftason, sem nú gegnir formennsku í bankaráði Seðlabankans, sagði við umr. síðast þegar þetta mál var á dagskrá, að þetta frv. mundi í engu breyta þeirri skipan eða framkvæmd mála, sem á þessu hefur verið, það mundi verða nákvæmlega sama framkvæmd eftir breytingu í þessa átt eins og verið hefur. Hann sagði jafnframt, að engin ákvörðun hefði verið tekin um vaxtahækkun í andstöðu við ríkisstj. Þó svo að engin breyting yrði í reynd varðandi framkvæmd málsins, þá tel ég eigi að síður að nauðsynlegt sé að menn viti almennt, hver það er sem ber ábyrgð á ákvörðun eins og vaxtabreytingum. Nú hefur þessu verið vísað, má segja, frá manni til manns. Annars vegar hefur verið sagt, að um væri að ræða ákvörðun Seðlabankans og aðrir hafa sagt Seðlabankans að fengnu samþykki hæstv. ríkisstj. Og nú hefði ég gjarnan viljað spyrja hæstv. ráðh. — ekki síst hæstv. bankamálaráðh. — um það, reyndar alla hæstv. ráðh., hver túlkun þeirra sé á málinu eins og það er í dag. Er það einvörðungu á valdi Seðlabankans eða seðlabankastjórnar að ákvarða vaxtabreytingar, eða telja hæstv. ráðh. sig hafa borið ábyrgð á þeim vaxtabreytingum sem gerðar hafa verið? Nauðsynlegt er að menn viti almennt, hver í raun og veru hefur ákvörðunarvaldið um breytingu á vöxtum. Og ég vildi gjarnan óska eftir því við hæstv. bankamálaráðh., að hann gerði grein fyrir afstöðu sinni til þess hér, hvort það er bankastjórn Seðlabankans, sem hefur hið endanlega ákvörðunarvald, eða hvort það er í höndum einhverra annarra aðila. Ef það er bankastjóri Seðlabankans, sem hefur það ákvörðunarvald, sýnist mér að það hlyti að breyta málunum ef viðkomandi ríkisstj. væri gerð ábyrg fyrir ákvörðun af þessu tagi.

Nú er mér það — að ég held — ljóst, að þegar, vaxtabreytingar hafa átt sér stað, hafa ákvarðanir um þessi atriði að sjálfsögðu verið ræddar og kannske í flestum tilfellum fengist samþykki fyrir þeim hjá viðkomandi ríkisstjórn. Þó er þess dæmi, að vaxtabreyting hefur átt sér stað í andstöðu við ríkisstjórn. A. m. k. upplýsti núv. hæstv. bankamálaráðh., sem var forsrh. í tíð fyrrv. ríkisstj., að sú vaxtabreyting, sem gerð var á sumarþingi 1974, hefði verið gerð í andstöðu við ríkisstj. Og þó ekkert væri annað, en að fá þetta á hreint, þá tel ég að frv. eigi fyllilega rétt á sér og er þeirrar skoðunar, að það eigi að ná fram að ganga.

Hv. þm. Jón Skaftason kom líka inn á það, að hann reiknaði varla með að ríkisstjórnir mundu óska sér þess að hafa þetta vald í hendi. Það breytir í engu viðhorfi mínu til málsins, hvort viðkomandi ríkisstj. óskar eftir að hafa valdið eða ekki. Ég tel, að valdið eigi að vera í hennar höndum og hún eigi að bera ábyrgð á þeim ákvörðunum, sem hún tekur í sambandi við það en ekki að geta, eins og mál hafa verið á undanförnum árum, vísað á víxl ábyrgðinni frá ríkisstj. til seðlabankastjórnar eða öfugt, þannig að í raun og veru viti enginn hver raunverulega ábyrgð bar á ákvörðuninni.

Hitt verður að teljast athyglisvert, og raunar kom hv. þm. Jón Skaftason, formaður bankaráðs Seðlabankans, inn á það í umr. fyrr, að þeir, sem að þessu máli standa og það flytja, eru þrír hv. þm. Framsfl. — þess flokks sem á bankamálaráðh. Mig minnir að hv. þm. Jón Skaftason nefndi þetta sýndarmennskufrv., sem borið væri fram af hreinni sýndarmennsku. Óneitanlega kemur það nokkuð einkennilega fyrir sjónir, að slíkt frv. sé borið fram af flokksbræðrum hæstv. bankamálaráðh. Ég vil ekki á nokkurn hátt stimpla flm. þessa frv. sýndarmennskuflm., en þetta kemur óneitanlega spánskt fyrir sjónir. Eigi að síður tel ég að þetta eigi fullan rétt á sér, að þessi breyting verði gerð. Það má vel vera að breytingin, sem hér er gert ráð fyrir, hefði ekki í för með sér að vextir lækkuðu, eins og komið hefur fram hjá a. m. k. hv. frsm. frv. að full ástæða væri til að gerðist. En ég held samt, að nauðsynlegt sé, að skipa málum með þeim hætti, að almennt sé vitað um, hver ábyrgð ber á þessum hlutum eins og öðrum.

Ég vil sem sagt ítrekað óska eftir því við hæstv. viðskrh. eða bankamálaráðh., að hann segi skoðun sína á því, ekki síst með tilliti til þeirra ummæla sem hann viðhafði sumarið 1974 — þá sem hæstv. forsrh. — hver í raun og veru hefur þetta ákvörðunarvald og hvort breyting sem þessi yrði að hans mati eða hefði að hans mati enga breytingu í för með sér frá því fyrirkomulagi sem nú er og hefur tíðkast um nokkurt skeið. Telur hann, eins og hv. þm. Jón Skaftason fyrr við umr., að hæstv. ríkisstj. á hverjum tíma sé líka ábyrgðaraðili þegar vaxtabreytingar eru gerðar af hálfu Seðlabankans og að slíkt hafi ekki verið og verði ekki gert nema með því aðeins að búið sé að fá stimpil ríkisstj.? Ef þetta er svona, held ég að tími sé kominn til að taka af öll tvímæli og að þetta ákvörðunarvald verði í höndum ríkisstj. sem síðan ber á því ábyrgð eins og ég tel sjálfsagt og eðlilegt.