17.04.1978
Neðri deild: 77. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3521 í B-deild Alþingistíðinda. (2683)

246. mál, Seðlabanki Íslands

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Ég gat ekki verið viðstaddur, þegar þetta mál var rætt síðast á fundi, og fylgdist því ekki nákvæmlega með því sem þar var sagt, en hef þó séð nokkuð greint frá því í blöðum og styðst nokkuð við þá frásögn þegar ég vitna til þess sem hefur komið fram í umr. áður.

Þetta frv. gerir að mínum dómi ráð fyrir tiltekinni formbreytingu á mikilvægu valdi, sem er það, hver eigi að ákveða að formi til hámark og lágmark vaxta í útlánum. Með þessu frv. er gert ráð fyrir því, að það verði ríkisstj. sem formlega tekur þessa ákvörðun, en ekki Seðlabankinn eins og gert er ráð fyrir nú í lögum. Ég heyrði að á það hefði verið bent, m. a. af hv. þm. Jóni Skaftasyni, að hér væri ekki um mikla efnisbreytingu að ræða, vegna þess að raunverulega væri þetta vald í höndum ríkisstj. á hverjum tíma. Ég tek undir þetta sjónarmið hans. Þetta er rétt. En þrátt fyrir það, þó að það sé að formi til, þá mundi ég styðja þetta frv. og hallast að því að gera þá breytingu, sem felst í þessu frv., til þess að gera þessi mál nokkru skýrari fyrir þeim, sem hlut eiga að máli, en nú virðist vera. Það er rétt, að það mun í lögum um Seðlabanka ákveðið að Seðlabanki ákveði hámark og lágmark vaxta, eftir að hann hefur borið sig saman við ríkisstj. um málið, því það er áskilið að hann verði að gera það áður en hann ákveður vextina. Á öðrum stað í lögunum segir hins vegar, að það sé skylda Seðlabankans að standa að því að framkvæma stefnu ríkisstj. í efnahagsmálum á hverjum tíma. Nú fer auðvitað ekkert á milli mála, að ákvörðun vaxta og þar með meginstefnan í peningamálum á hverjum tíma er hluti af þeirri efnahagsmálastefnu, sem ríkisstj. ákveður, en Seðlabankinn er skyldugur samkv. lögunum að vinna að framkvæmd á. Því er það líka rétt hjá hv. þm. Jóni Skaftasyni, að í öllum aðalatriðum er það svo, að þó að það sé að formi til Seðlabankinn sem ákveður vexti, þá á hann ekki að gera það nema að fengnu samþykki ríkisstj. og á ekki að geta gert það lögum samkvæmt í andstöðu við ríkisstj.

Ég sé líka, að minnst hefur verið á það, þegar málið var rætt fyrr í þinginu, og vitnað hefur verið til þess, að ég hefði sagt í umr. á Alþ. að þetta hefði þó orðið með nokkuð öðrum hætti sumarið 1974, nánar tiltekið í júnímánuði 1974, vegna þess að sú ríkisstj., sem þá sat enn — vinstri stjórnin — þó að kosningar væru um garð gengnar, samþykkti ekki þá vaxtabreytingu, sem þá var ákveðin, þá vaxtahækkun, heldur var hún gerð eingöngu á ábyrgð Seðlabankans. Þetta er rétt. En sagan er bara ekki sögð öll. Seðlabankinn hafði gert ítrekaðar tilraunir til þess að fá samþykki ríkisstj. fyrir ákvörðun um hækkun á vöxtum í apríl og maímánuði á árinu 1974 eða nokkru fyrir kosningar. Þá var þessari beiðni Seðlabankans hafnað. Ég lýsti mig algjörlega andvígan þessum till. Seðlabankans, og á þeim tíma tókst að koma í veg fyrir þessa hækkun. En þegar ríkisstj. hafði sagt af sér, kosningar höfðu farið fram og hún sat aðeins sem óvirk stjórn og beið nýrrar stjórnarmyndunar, þá lýsti forsrh. því yfir, að hann teldi ekki að ríkisstj. hefði aðstöðu til þess, eins og komið væri, að stöðva Seðlabankann í þessum efnum. Og í krafti þess lýsti Seðlabankinn einhliða yfir vaxtahækkun í júlímánuði 1974. Lögum samkvæmt hefur bankinn þetta formlega vald, og ef maður á að gera ráð fyrir því, að svona tilfelli komi upp, er að sjálfsögðu betra að hafa þetta með ákveðnu orðalagi, þannig að þetta mikla vald til stjórnunar í efnahagsmálum sé beint hjá ríkisstj. Að því leyti til er ég samþykkur þessu frv., að breyta þarna um formið.

Það er einnig annað sem gerir það að verkum að ég er samþykkur þessari formbreytingu. Ég verð líka var við, að a. m. k. einstakir ráðh. hafa sterka tilhneigingu til þess — og jafnvel ríkisstj. sem heild — að skjóta sér undan ábyrgð sinni í sambandi við þessi mál. Ég hef t. d. veitt því athygli nú að undanförnu, að annað aðalstuðningsblað ríkisstj., Tíminn, birtir hvern leiðarann af öðrum þar sem hann fordæmir vaxtahækkun og telur hina háu vexti til bölvunar. Þetta er nokkuð einkennilegt á sama tíma sem Framsfl. á fjóra af átta ráðh. í ríkisstj. og Framsfl. á sjálfan bankamálaráðh., og formann flokksins, í ríkisstj. Ég tel engan minnsta vafa vera á því, að ríkisstj. sem heild beri ábyrgð á öllum þeim vaxtahækkunum, sem Seðlabankinn að forminu til hefur ákveðið á undanförnum árum. Núv. ríkisstj. sem heild ber öll ábyrgð á þessum vaxtahækkunum og þessari vaxtapólitík sem rekin hefur verið. Ég efast ekkert um að Seðlabankinn hefur ákveðið sínar vaxtabreytingar á hverjum tíma eftir að hann hefur borin sig saman við ríkisstj. Það er því rétt að það komi alveg skýrt fram, að allar vaxtahækkanir, sem ákveðnar hafa verið nú að undanförnu, eru á ábyrgð hæstv. ríkisstj. Þó að frumtillagan um þessar vaxtahækkanir komi frá Seðlabankanum, það er hugsanlegt, þá er það ríkisstj. sem hlýtur að hafa samþ. þær. Annars er verið að brjóta lög og reglur — þau lög og þær reglur sem er að finna í lögum um Seðlabanka Íslands.

Það undantekningartilvik, sem ég minntist á að átti sér stað á árinu 1974, er alveg auðskilið, hvernig á því stendur. Seðlabankinn, sem sótti þá fast á, eins og ég sagði, og hafði ger; í langan tíma um að koma fram vaxtahækkun, hafði verið stöðvaður á meðan ríkisstj. var við völd. Um hitt mátti eflaust deila eða það gat verið ágreiningur um það, hvort stjórnin, sem sat til bráðabirgða að kosningum loknum, hefði vald til þess að halda aftur af Seðlabankanum í þessum efnum lengur eða ekki. En það var mat forsrh. þá, að við þessar aðstæður gæti ríkisstj. ekki út af fyrir sig sagt neitt við því, þó að Seðlabankinn notaði hið formlega vald sitt og ákvæði þessa vaxtahækkun. Þannig stóð á þeirri vaxtahækkun. Hún var aldrei samþykkt í ríkisstj.

Ég deildi ekki á neinn hátt við fyrrv. hæstv. forsrh. og núv. hæstv. dómsmrh. um þetta álit hans. Það mátti eflaust deila um, hvort svona ætti á þessu að halda eða ekki. Hitt er aðalatriði málsins, að núgildandi vaxtapólitík er á ábyrgð ríkisstj. samkvæmt lögum. En ég skal segja það, að ég er ekki aðeins mjög andvígur þessari vaxtastefnupólitík, sem ákveðin hefur verið með þeim skelfingum sem eru nú að fylgja í kjölfar hennar og menn fara að reka sig á svona smátt og smátt, — ég er ekki aðeins andvígur þeirri stefnu, heldur er ég mjög andvígur því, að jafnþýðingarmiklu máli og þessu geti menn kastað á milli sín þannig og látist hvergi nærri koma. Þeir eiga vitanlega að standa við sína ábyrgð, sem ábyrgðina hafa, og vegna þess er ég samþykkur þessu frv.

Ég skal að vísu ekki nú við þetta tækifæri fara að ræða mjög almennt um vaxtapólitíkina. Þó vil ég, þegar þetta mál ber á góma, ef það mætti verða til þess að stugga við einhverjum hv. alþm., sem eiga vitanlega sína ábyrgð einnig í þessum tilfellum, minna aðeins á örfá atriði varðandi það sem er verið að gera með núverandi vaxtapólitík. Hafa menn t. d. áttað sig á því, að nú er svo komið, að þó að aðill sem er að eignast íbúð yfir kollinn á sér, þurfi ekki að ganga lengra en svo til þess að komast inn í íbúð að taka 5 millj. kr. að láni, — margir verða eðlilega að taka miklu meira ef þeir eiga að komast inn, — þá má, miðað við þau vaxtakjör sem menn verða nú að búa við frá lífeyrissjóðum, sem hjálpa þarna eitthvað til, frá bönkunum að nokkru marki, sem bjóða vaxtaaukalán sin, og frá öðrum aðilum og jafnvel þó að hér væri um eitthvert lán að ræða frá húsnæðismálastjórn, — þá má reikna með því, að vextirnir af 5 millj. kr. láni séu nú orðnir í kringum 120 þús. kr. á mánuði? Ég veit að mönnum hnykkir við og þeir ætla ekki að trúa þessu. Svo eru menn eitthvað hissa á því, að þeir menn, sem vinna allan daginn baki brotnu, t. d. við fiskframleiðslu og eru ráðnir upp á 116 þús. kr. í laun á mánuði ef þeir vinna réttan dagvinnutíma, skuli vera óánægðir með launin sín. Auðvitað sjá allir og vita, að þetta dæmi gengur ekki upp. Ekki er hægt að halda þessari vitleysu áfram. Áframhald á þessu þýðir einfaldlega að eftir stuttan tíma verður mönnum ljóst að þessi stefna segir blátt áfram, að venjulegur launamaður í landinu skuli ekki búa í húsi. Það er ekki hægt að láta hann búa í húsi. Lánakjörin eru orðin þannig, að það er með öllu útilokað. Auðvitað sjá menn að vextir, sem leiða af sér aðrar eins skrípamyndir og þessa, fá ekki staðist. Það breytir engu þó að menn segi: Ja, vextirnir eru enn þá ekki svo háir að þeir þýði raunvexti. Menn fá enn þá fyrir peningana sína með því að geyma þá í bönkum nokkra nettóvexti umfram verðbólgu. — Þrátt fyrir alla þessa vaxtahæð, standa sparifjáreigendur nú með sparifé sitt verr en þeir stóðu fyrir nokkrum árum. Þeir standa verr af því að þessi vaxtastefna hefur sín sterku áhrif á þróun verðlagsmálanna í landinu, kemur út í mynd verðbólgu og kallar á gengislækkun sem sker niður verðgildi sparifjárins. Þessi vaxtastefna er vitanlega engin leið út úr þeim vanda. Það er hægt að viðurkenna, að það er viss vandi, að sparifé landsmanna skuli vera að rýrna í verði í gegnum verðbólgu, en vandinn verður ekki leystur á þennan hátt. Þar þarf annað til að koma.

Ég vil einnig nefna það sem menn hugsa mikið um þessa daga, að uppi eru hörð átök um launakjörin í landinu og liggur við að hér geti skollið á annaðhvort allsherjarverkfall út af því, að áður gerðir launasamningar fá ekki að standa, menn fá ekki fullar verðlagsbætur á laun sín, eins og þeir höfðu samið um, eða þá að gripið verði til annarra ráðstafana en allsherjar vinnustöðvunar eins og t. d. útflutningsbannsins, sem nú er rætt um, með tilheyrandi afleiðingum fyrir atvinnureksturinn í landinu og kannske þjóðarbúið sem heild. Það kom fram í útvarps- eða sjónvarpsþætti um þetta mál fyrir nokkrum dögum, að einn af framkvæmdastjórum Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna játaði að ef menn lækkuðu vextina, sem framleiðslan býr við nú í dag, um það sem menn hafa verið að hækka vextina á framleiðslunni að undanförnu, þá nemur það fyllilega þeirri upphæð sem menn eru að deila um á launamarkaðinum, þá nemur það fyllilega 10% af öllu kaupi. Þeir sögðu: Framleiðslan getur ekki borið alveg svona hátt kaup, það verður að skera svolítið af kaupinu. — En þeir segja nú: Þessi sama framleiðsla getur borgað jafnháa fjárhæð í aukna vexti. — Og þeir stefna á það að hækka vextina enn þá meira. Auðvitað eru þetta einnig sönnunardæmi um það, að þessi vaxtapólitík fær ekki staðist.

Það eru furðulega skammsýnir menn, sem tala um að þeir séu að styðja íslenskan iðnað og vilji láta hann standa í samkeppni við erlendan iðnað, en hleypa hingað erlendum iðnaðarvörum inn til samkeppni án allrar tollunar á hinum erlendu iðnaðarvörum, og svo ætla þeir að búa þannig að íslenskum iðnaði, að hann verði að borga 25–35% vexti af því fjármagni, sem hann verður að hafa til meðferðar, á sama tíma sem erlendi iðnaðurinn, sem framleiðir samkeppnisvörurnar sem hingað eru sendar, býr við 6–8% vexti. Dettur nokkrum manni í hug, að þetta sé framkvæmanlegt? Kannske er það framkvæmanlegt með því að menn standi látlaust við hjólið og haldi áfram að snúa því og segja: Gengislækkun, gengislækkun, gengislækkun. — Með því að standa þannig við gengislækkunarhjólið getur þetta gengið, en öðruvísi ekki.

Ég hef nokkrum sinnum vakið athygli á því á Alþ., hve skammsýn pólitík hér er á ferðinni í vaxtamálum. Mér er alveg ljóst að fleiri og fleiri eru að átta sig á þessu nú, — einnig nokkrir þeirra sem börðu höfðinu við steininn lengi. En auðvitað þarf að liggja ljóst fyrir mönnum, að það eru ekki bara einhverjir bankastjórar í Seðlabankanum, sem hafa ákveðið þessa stefnu, þó að þeir hafi verið hrifnir af henni. Það er ríkisstj. í landinn, sem hefur samþykkt þessa stefnu, og hún er framkvæmd á hennar ábyrgð.

Eins og ég sagði fyrr í umr. um þetta mál, þá er ég á því, að þetta frv. ætti að samþykkja til þess að taka af allan vafa um það, að ríkisstj. á hverjum tíma ákveði þetta þýðingarmikla stefnuákvörðunaratriði í efnahagsmálum, ákveði vextina, en ríkisstj. geti ekki skotið sér á bak við Seðlabanka eins og mjög ber á að hún geri nú. En þrátt fyrir þetta get ég vel viðurkennt að það sjónarmið, sem kom fram hjá hv. þm. Jóni Skaftasyni varðandi þetta formlega atriði, er rétt, því að eins og lögin eru nú getur Seðlabankinn ekki ákveðið vexti nema að höfðu samráði við ríkisstj. Hann á að framkvæma stefnu hennar í efnahagsmálum samkvæmt því sem segir í lögum um Seðlabankann. Ég held því, að ekki þurfi að spyrja neitt frekar varðandi þetta mál, hver beri ábyrgðina á vaxtastefnunni og vaxtahækkununum. Á því leikur enginn vafi að mínum dómi. Það er ríkisstj. sem ber þessa ábyrgð. Þetta er gert að hennar vilja. Hún hefur verið svo glámskyggn að halla að þetta væri ráðlegt í baráttunni við verðbólguna.