17.04.1978
Neðri deild: 77. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3530 í B-deild Alþingistíðinda. (2685)

246. mál, Seðlabanki Íslands

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Það, sem gaf mér ástæðu til að koma upp í ræðustólinn aftur, var það, að þegar hv. 4. þm. Reykn., formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands, var að lesa upp úr ræðu forsrh. 1974, sem hann flutti í sambandi við frv. um verðstöðvunina, þá sleppti hann einmitt þeirri málsgrein úr ræðunni sem ég tel að gildi í sambandi við það frv. sem við erum að ræða um, en það er vald Seðlabankans til þess að ákveða vextina. Ég skal halda áfram, þar sem hv. þm. hætti, og lesa þessa síðustu málsgrein, en hún hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta.

„En þó að þetta standi svona, eins og það stendur í 4. gr., þá stendur hins vegar skýrum stöfum í annarri grein í seðlabankalögunum, í 13. gr., að Seðlabankinn ákveði vexti, það er alveg skýrt tekið fram. Út af fyrir sig skilur stjórn Seðlabankans það ákvæði svo, að hún geti gert þetta án þess að fá til þess samþykki ríkisstj.

Þetta er einmitt það sem þetta frv., sem hér er til umr., gengur út á, að taka þetta vald sem seðlabankastjórnin telur sig hafa til að ákveða einhliða vextina, jafnvel gegn vilja ríkisstj. (Gripið fram í: Hvenær hefur hún gert það?)

Hún gerði það 1974. Þá var fellt í ríkisstj. að hækka vextina, en það var gert samt. Og hæstv. þáv. forsrh., núv. viðskrh., telur að stjórn Seðlabankans skilji 13. gr. þannig, að hún hafi til þess einhliða vald að ákveða vextina, hvort sem ríkisstj. er því samþykk eða ekki. Þess vegna tel ég að þetta frv., sem hér liggur fyrir, sé alveg rökrétt ef Alþ. vill ekki afhenda seðlabankastjórninni slíkt vald. Ég fyrir mitt leyti tel þetta alveg rétt. Ég er alveg samþykkur því, þar sem þetta er það mikið atriði í efnahagsmálum þjóðarinnar, að það eigi að vera í höndum stjórnvalda og Alþingis. Stjórnin á þannig að vera ábyrg fyrir því sem í þessum málum gerist.

Það, sem ég hélt fram áðan, var að með óbreyttri vaxtastefnu hlyti þetta að lenda í sjálfheldu fyrr en varir. Við erum þegar komnir í 30% vexti til atvinnuveganna. Miðað við yfirdráttarlán á hlaupareikningi eru þeir yfir 30%. Með hækkandi verðbólgu og hækkandi vaxtapólitík hjá Seðlabankanum, eins og virðist vera þegar ákveðið, sjáum við að útilokað er að útflutningsatvinnuvegirnir geti staðið undir þessu þegar þeir eru komnir með upp undir 40% vexti af yfirdráttarlánunum. Þannig held ég að það þurfi að endurskoða þetta kerfi. Ég benti á lögin frá 1966, þar sem Seðlabankinn hefur heimild til verðtryggingar. Ef sú heimild er ekki nægileg tel ég að stjórn Seðlabankans eigi að athuga þetta mál og leita þá eftir frekari heimildum í lengri lánum. Þannig hlýtur að vera hægt að koma því við, að hin lengri lán, sem skoða má sem fjárfestingarlán, skuli verðtryggð, enda gera lögin frá 1966 ráð fyrir að þar sé um lengri lán að ræða. og þá lán til fasteigna eða annarra fjármuna, eins og þar segir, sem hækka í verði með almennum verðlagsbreytingum. Það er einmitt þetta sem ég tel að bæði stjórnvöld og stjórn Seðlabankans hljóti að verða að íhuga, hvort ekki er komið á það stig í vaxtamálum, að þar verði að verða á breyting. Ég held því alveg hiklaust fram, að áfram verði ekki haldið á þeirri braut að tryggja sparifé landsmanna með því að hækka útlánsvexti til atvinnuveganna. Ég held að það hljóti að vera komið á það stig þegar, að við séum komnir þar alveg á fremsta hlunn, ekki verði haldið áfram á sömu braut og Seðlabankinn gerir nú, að ætla sér að halda vaxtahækkun áfram bæði á útlánum og innlánum og tryggja þannig hag sparifjáreigenda. Ég held að það hljóti að verða að leita að öðrum leiðum en nú er farið og stjórn Seðlabankans virðist ætla sér að halda áfram að fara.

Ég undirstrika, að það er álit núv. viðskrh. að seðlabankastjórnin hafi til þess heimild að fara sínu fram á þessum málum án tillits til aðstöðu ríkisstj. og að hún telji sig hafa þessa heimild, líti þannig á lögin að hún telji sig hafa þarna alveg óskoraða heimild til þess að haga þessum málum eins og henni finnst réttast á hverjum tíma.

Ég benti á þann kostnað sem væri við Seðlabankann. Ef á að fara að endurskoða bankakerfið og draga eitthvað úr kostnaði við það, þá kemur Seðlabankinn að mínum dómi þar til greina alveg eins og aðrar þankastofnanir. Ég benti á að örugglega er hægt að koma þessu þannig fyrir, að hluta af starfi Seðlabankans geti Landsbankinn tekið að sér og hluta af skýrslugerðinni geti aðrar stofnanir, sem nú eru í gangi, bæði Þjóðhagsstofnun og fleiri, tekið að sér fyrir minni kostnað en er nú hjá Seðlabankanum.

Hv. þm., form. stjórnar Seðlabankans, endurtók það hér, sem hann sagði í fyrri ræðu sinni, síðast þegar mál þetta var til umr., að óþarfi væri að athuga rekstur Seðlabankans vegna þess að þar hafi ekki orðið nein fjölgun á starfsmönnum. En einhvern veginn kemur það ákaflega einkennilega fyrir ef maður lítur á niðurstöðu kostnaðarreiknings Seðlabankans. 1973 er það samkv. reikningunum 106 millj., en árið 1975 hrekkur það upp í 263 millj. og árið 1976 upp í 333 millj. Þetta er langt umfram þær kauphækkanir sem hafa orðið á þessu tímabili, þannig að það hlýtur þá að liggja í einhverju öðru, sem það hefur hækkað, en launum starfsfólksins.

Ég skal ekki fjölyrða frekar um þetta. En ég vil aðeins undirstrika, að ég tel að þá stefnu, sem nú er rekin og ég tel alveg hiklaust að Seðlabankinn hafi einhliða ákveðið 1974, en ekki verið breytt, hvorki af fyrrv. né núv. ríkisstj., þurfi að endurskoða og finna þurfi nýjar leiðir til þess að tryggja sparifé almennings, þá frekast með því að verðtryggja hluta af útlánum bankakerfisins, ekki sjóðakerfisins, það kemur auðvitað ekki sparifjáreigendum til góða, en .að verðtryggja hluta af útlánum bankakerfisins, þannig að eftir þeirri leið yrði sparifjáreigendum bætt það tjón sem þeir verða fyrir í sambandi við vaxandi verðbólgu.