18.04.1978
Sameinað þing: 67. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3546 í B-deild Alþingistíðinda. (2701)

354. mál, hátíðarbrigði vegna stórafmælis Snorra Sturlusonar

Stefán Jónason:

Herra forseti. Fyrirsögn þessarar fsp. er um hátíðabrigði vegna stórafmælis Snorra Sturlusonar. Það er alls ekki með ólíkindum að hv. alþm. beri af því nokkrar áhyggjur, hvort þetta merkisár frá fæðingu Snorra Sturlusonar verði látið hjá líða án þess að hans sé í nokkru getið, ekki síst með tilliti til þess, að á engu þingi eða engu kjörtímabili munu alþm. hafa látið svo mjög í ljós elsku sína á tungu þeirra Egils og Snorra eins og því sem nú er að líða.

Meginástæðan fyrir því, að ég kveð mér nú hljóðs, er aftur á móti sú, að ég hef grun um eða mér hefur verið sagt af fróðum mönnum, að það sé nú málvenja að orðið „afmæli“ sé aðeins haft um fæðingardag lifandi manna. Snorri hefði átt 800 ára afmæli í ár ef hann hefði lifað og væri þá, eins og að líkum lætur, fjörgamall maður. Ég veit ekki sönnur á því, að nokkur maður hafi átt 800 ára afmæli. Fjöldi fólks hefði hins vegar átt 800 ára afmæli ef það hefði lifað svo lengi. En það er sannarlega vel þess virði að minnast þess, að 800 ár eru liðin frá fæðingu orðsnillingsins og skáldsins Snorra Sturlusonar og þess þá með, að hann hefði átt 800 ára afmæli ef hann hefði lifað. Þessa má minnast með ýmsum hætti. T. d. væri ekkert óviðeigandi að beina því til almennings, ef ekki beinlínis að skylda fólk með lögum til þess að taka sér fyrir fyrirmyndar framsögn og málfar þeirra 13 alþm., sem best eru máli farnir. Þar væru ráðh. 6 náttúrlega sjálfkjörnir, en það mætti fela hv. þm. Sverri Hermannssyni að tilnefna hina 7 og haldi þeir þá út þessu málfari sínu árið á enda.

Sá er þó annmarki á, að fæðingarár Snorra er víst ekki alveg á hreinu. Sumir segja að það hafi verið 1179, en aðrir 1178. Ef við eigum að vera viss, þá mundi fæðingarhátíðin sem sagt hlaupa á tveimur árum og svo lengi má ekki skylda neinn Borgfirðing t. d. til að stæla málfar hæstv. ráðh. Halldórs E. Sigurðssonar, þó í minningu Snorra Sturlusonar sé, þó ég vilji hreint ekki setja neitt út á það. En um ártíð Snorra Sturlusonar virðast fræðimenn hins vegar vera nokkurn veginn sammála, að það hafi verið árið 1241 sem þeir Árni beiskur stungu hann undir kamrinum í Reykholti.

Till. mín er sú, að við biðum með hátíðahöldin til ártíðarinnar 2041. þegar efalítið má telja að 800 ár séu liðin frá dauða Snorra, en ákvörðun má náttúrlega taka um hátíðahöldin nú þegar. Að vísu má til sanns vegar færa, að þeim Íslendingum, sem þá verða uppi, verði ekki í jafnfersku minni málfar hinna snjöllustu alþm., eins og þeirra sem nú eru hér. En við getum fundið einhverja aðra merkilega leið til þess að halda minningu Snorra Sturlusonar á lofti, hvort heldur verður nú í tilefni af fæðingu hans fyrir 800–900 árum eða dauðdaga hans, sem fólki er að vísu ekki eins kært að minnast og bar að með dálítið vandræðalegum hætti fyrir 746 árum, sem verða 800 ár árið 2041. Á þetta vil ég sem sagt leggja áherslu, að hvort heldur sem það verður nú ártíðin, sem við minnumst, eða fæðingarárið, þá er ekki ráð nema í tíma sé tekið að upphugsa ráð til þess að minnast þess arna með verðugum hætti.