18.04.1978
Neðri deild: 78. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3568 í B-deild Alþingistíðinda. (2720)

217. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. meiri hl. (Ólafur G. Einarsson) :

Hæstv. forseti. Fjh.- og viðskn. Nd. hefur haft til meðferðar frv. til laga um breyt. á lögum um tollskrá o. fl. Ég mæli hér fyrir áliti meiri hl. n., en álit meiri hl. er á þskj. 557.

Þetta frv. er eingöngu flutt til samræmingar á tollnafnaskrá Tollasamvinnuráðsins. Meiri hl. n. er því þeirrar skoðunar, að ekki sé ástæða til að fara nú af þessu tilefni út í meiri endurskoðun á gildandi tollskrá en sem af þessu leiðir, og þess vegna flytur meiri hl. ekki brtt., sem varða lækkun tolla, og styður ekki heldur fram komnar brtt. Það má segja að þar hafi skilið á milli meiri hl., fulltrúa stjórnarflokkanna, og minni hl., hv. þm. Lúðvíks Jósepssonar, en fjarverandi afgreiðslu málsins var hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason.

Í samráði við fjmrn., en ekki sérstaklega að ósk þess, flytur meiri hl. nokkrar brtt. á þskj. 558. Þessar brtt. horfa allar til leiðréttingar og til lausnar á vafamálum og ágreiningsmálum sem upp hafa komið. Ég skal nú rekja þessar brtt. með örfáum orðum.

Það er þá fyrst brtt. við 1. gr. frv., en þar er bætt við nokkrum orðum. Þetta er tollskrárnúmer 39.07.81 Skúffuskápar. Bætt er við orðunum: og hlutar til þeirra. En þessir hlutar til skápanna hafa verið í 70% tolli á móti 34%, sem þetta tollnúmer segir til um.

2. brtt. gengur út á það að lækka tolltaxta úr 7% og niður í 0.

Í 3. brtt. er skotið inn orðum, en það tollskrárnúmer á við vélaþéttingar úr asbesti og asbestblöndum. Þar er skotið inn orðunum : og efni í þær. Átt er við efni í vélþéttingar.

Í 4. brtt. er bætt við nýjum undirlið: færibönd — og þarfnast ekki sérstakrar skýringar.

Í 5. brtt. er einnig bætt við orðum í d-lið og e-lið. Við tollskrárnúmer 85.01.31 er bætt orðunum: og minni. Í stað orðanna „600 volt“ komi: 660 volt. Þetta eru líka beinar leiðréttingar.

6. brtt. er nýr liður í tollskránni. 17. undirliður. Ökutæki með burðarþol 3 tonn og þar yfir til flutnings bæði á mönnum og vörum ótalið annars staðar, þar skuli tolltaxti vera 30%, en þessi tæki hafa verið tolluð með 90% tolli og hefur svo verið gert fyrir hrein mistök eða gleymsku við setningu síðustu tollskrárlaga.

Í b-lið þessara brtt. er eingöngu verið að hækka krónutölu, það á við gjafir sem hafa verið tollfrjálsar allt að 5 þús. kr., en það er hækkað í 10 þús. kr.

Eins og ég sagði áðan treystir meiri hl. n. sér ekki til að fylgja brtt. sem fluttar hafa verið. Í sambandi við brtt., sem fluttar voru á þskj. 451 af hv. þm. Pálma Jónssyni, Ingólfi Jónssyni og Páli Péturssyni, vil ég aðeins segja örfá orð. Þær styður meiri hl. n. ekki vegna þess að þar er um að ræða beina lækkun tolla úr 7% í 4% og 2% eftir árum, en auk þess er í 2. lið brtt. komið með till. um nýjan undirlið við tollflokk 87.01. undir lið 32, almennar hjóladráttarvélar með drifi á öllum hjólum. Ég vil upplýsa að fyrir liggur nú bréf frá fjmrn. sem tekur af allan vafa um að hjóladráttarvélar með drifi á öllum hjólum verða flokkaðar í þennan tollfokk, 87.01.31, og þarf því ekki að gera þarna nýjan undirlið eins og till. gerir ráð fyrir. Þessar vélar fara því í sama tollflokk og aðrar, þ. e. a. s. í 7%. Þetta bréf liggur nú fyrir og fjmrn. hefur sent það til tollstjóra, sýslumanna og bæjarfógeta. Að öðru leyti ætta ég ekki að gera þessar brtt. eða aðrar að umræðuefni, enda hefur ekki verið talað fyrir þeim.

Þá vil ég aðeins geta um eina leiðréttingu, sem þarf að gera, en ekki þótti ástæða til að vera að flytja sérstaka brtt. um, vegna þess að þar er um augljósa ritvillu að ræða. Það er í 30. till. í frv. Í 30. till., 44. kafla, 44.09.22, þar sem talið er upp: trjáviður í göngustafi, regnhlífar, handföng. Þetta á að færast í eitt orð og vera regnhlífahandföng. Þetta vildi ég láta koma hér fram, vegna þess að fyrir liggur bréf frá fjmrn., þar sem bent er sérstaklega á þetta, en engin ástæða er til að flytja um það sérstaka brtt.

Meira þarf ég í sjálfu sér ekki að segja um þetta mál. Meiri hl. leggur til að frv. verði samþ. með þeim brtt. sem ég hef hér greint frá og eru á þskj. 558.