18.04.1978
Neðri deild: 78. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3603 í B-deild Alþingistíðinda. (2730)

282. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Ég skal ekki víkjast undan því, að frv. það, sem hér er til umr., kemur seint fram á þessu þingi. En ég á von á að þeir, sem eru nokkuð vel að sér í skattamálum og hafa unnið að þeim á undanförnum áratugum, geri sér grein fyrir hversu mikið og erfitt verk hér er um að ræða og þá sér í lagi þegar gerð er till. um kerfisbreytingu eins og er í sambandi við þessi tvö frv. sem eru til umr. á þessum fundi. Ég vildi gjarnan þakka þeim hv. þm., sem hér hafa talað þrátt fyrir þá annmarka, hversu seint frv. koma fram, þeirra skilning á því, að nauðsynlegt er að skattalög verði sett áður en þessu þingi lýkur. Jafnframt þakka ég undirtektir hæstv. landbrh. sem ég reyndar vissi um. Ég vonast til þess að nefndarstörfin hjá fjh.- og viðskn. geti gengið með þeim hætti, að þessu takmarki verði náð, sem við erum allir þrátt fyrir skiptar skoðanir á vinnubrögðum og e. t. v. einhverjum efnisatriðum sammála um: að skattalöggjöfin verði sett.