18.04.1978
Neðri deild: 78. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3603 í B-deild Alþingistíðinda. (2732)

245. mál, verðlag, samkeppnishömlur og óréttmætir viðskiptahættir

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti, Ég mæli hér fyrir áliti meiri hl. fjh.- og viðskn. um frv. til l. um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti. Ég geri þetta í fjarveru hv. þm. Eyjólfs K. Jónssonar, sem átti að vera frsm. meiri hl. nefndarinnar. N. varð ekki sammála um afgreiðslu málsins. Minni hl., hv. þm. Lúðvík Jósepsson, skilar séráliti þar sem hann lýsir andstöðu sinni við frv. En hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason var fjarverandi afgreiðslu málsins.

Meiri hl. n. leggur til að frv. verði samþ. með þeim brtt., sem getur á þskj. 559.

Á fund n. komu fulltrúar frá Verslunarráði Íslands og Sambandi ísl. samvinnufélaga og gerðu þar grein fyrir viðhorfum sínum til frv. og brtt. sem þeir óskuðu eftir að fluttar yrðu. Meiri hl. n. hefur tekið sumar þessara till. upp og flytur þær sem sínar till. á þskj. 559. Á aðrar gat meiri hl. hins vegar ekki fallist.

Hér er á ferðinni hið merkasta mál, sem ég vona að nái fram að ganga á þessu þingi. Ég mun ekki ræða frv. sérstaklega við þessa umr., enda var það gert við 1. umr. í þessari hv. d., bæði af hæstv. viðskrh. og öðrum hv. þm. Ég mun hins vegar nú rekja í sem stystu máli þær brtt., sem meiri hl. fjh.- og viðskn. flytur.

1. brtt. á þskj. 559 er við 3. gr. frv. og varðar skipan verðlagsráðs. Meiri hl. n. telur ekki ástæðu til að fækka verðlagsráðsmönnum úr 9 í 7, eins og gert er ráð fyrir í frv. Fækkun fulltrúa samtaka atvinnurekenda og launþega verður hvort eð er við það, að tveir verðlagsráðsmanna eru skipaðir af Hæstarétti. Rétt er einnig að taka fram, hvaða samtök skuli eiga rétt til tilnefningar í verðlagsráði, og svo er gert með brtt.

2. brtt. er við 4. gr., 4. málsl. 1. mgr. Hann er svo hljóðandi: „Verðlagsráð getur að meira eða minna leyti falið verðlagsstofnun ákvörðunarvald sitt“, en síðan er hætt við: eftir afmörkuðum reglum, sem ráðið setur. — Það er ekki eðlilegt, að verðlagsráð geti framselt verðlagsstofnun vald sitt án takmarkana. Þess vegna er lagt til að verðlagsráð skuli setja afmarkaðar reglur við slíkt framsal ákvörðunarvalds síns.

3. brtt. er svo við 6. gr. og felur það í sér, að 2. málsliður 2. mgr. falli niður.

4. brtt. er við 8. gr. Þar er um lítils háttar orðalagsbreytingu að ræða, en skiptir þó nokkru máli. Í stað orðanna „Nú hefur verðlagning verið gefin frjáls“ í 2. málsl. komi: Nú er verðlagning frjáls.

5. brtt. er svo við 9. gr., en þar þykir rétt til skýringarauka að taka fram, að ákvæði greinarinnar gildi því aðeins að verðlagsákvörðunum hafi verið heitt, enda hefur hugsunin verið sú.

6. brtt. er við 10. gr. frv. Í 4. tölul. 2. mgr. 8. gr. er verðlagsráði veitt heimild til að setja reglur um verðlagningu og viðskiptakjör sem það telur nauðsynlegar hverju sinni þegar skilyrði greinarinnar eru fyrir hendi. Þykir rétt að þessar reglur skuli gilda takmarkað tímabil í senn, eftir því sem kostur er, eins og önnur þau urræði sem um getur í 2. mgr. 8. gr.

Þá er 7. brtt. við 18. gr. Hún er ekki mikilvæg, en hefur þó gildi, þar sem í stað orðsins „hækka“ komi orðið: breyta.

Þá er 8. brtt. við 19. gr. Þar er orðalagi breytt og gert skýrara án þess að stefnt sé að efnisbreytingu.

9. brtt. er við 20. gr., en þar er bætt við nýrri mgr. sem verður 3. mgr. og er svo hljóðandi: „Mat á því, hvort verð og álagning sé ósanngjörn, skal byggt á ákvæðum 12. gr.“ Í greinar frv. vantar ákvæði um það, við hvað á að miða þegar metið er hvort verð og álagning sé ósanngjörn. Þess vegna er þessari mgr. bætt við.

10. brtt. er við 21. gr. Þar er lagt til að bannregla greinarinnar gildi því aðeins að verðlagningin sé frjáls, enda hefur verið til þess ætlast.

11. brtt. er við 22. gr. Þar er breytt einu orði. Í stað orðsins „útboð“ komi orðin: gerð tilboða. Það er gleggra og réttara.

12. brtt. er svo við 25. gr. Meiri hl. n. telur vanta í greinina leiðbeiningar við mat á því, hvenær beri að telja sölusynjun óréttmæta. Hér er þess vegna lagt til að skilgreining verði tekin upp um þetta efni.

13. brtt. er við 38. gr. og þar er bætt við : „Févíti má innheimta með lögtaki:

14. brtt. er við 42. gr. Þar bætist við: „Endanlega ákvörðun verður að taka innan sex vikna frá því að bann til bráðabirgða var lagt á.“ Það er nauðsynlegt að setja bráðabirgðabanni því, sem greinin fjallar um, einhver tímatakmörk. Þessi brtt. miðar að því.

15. brtt. er svo við 45. gr., en þar eru felld niður orðin: „svo og um afborgunarskilmála“. Það er eðlilegt, að ákvæðin um afborgunarskilmála séu sett í sérstaka löggjöf um afborgunarviðskipti almennt. Þess vegna eiga ákvæði um afborgunarskilmála tæpast heima í frv.

16. brtt. er svo við 48. gr. Eðlilegt er að allar ákvarðanir samkeppnisnefndar megi bera undir dómstóla, einnig ákvarðanir samkv. 18. gr. frv. Þess vegna er felldur niður síðasti málsl. í 48. gr. sem hljóðaði svona: „Ákvarðanir samkeppnisnefndar samkv. 18. gr. er ekki unnt að bera undir dómstóla.“ Það er hæpið að ákvæði sem þetta standist, og því er lagt til að það verði fellt brott.

17. brtt. er svo við 49. gr. Þar er um tvær breytingar að ræða: annars vegar að fjárhæðum dagsekta séu sett ákveðin mörk, og er miðað við 5000–20000 kr., og hins vegar að verðlagsráð ákveði dagsektir í stað þess að verðlagsnefnd geri það.

18. brtt. er svo við 50. gr. Þar er orðalag gert skýrara, en engin efnisbreyting er þar á ferðum.

19. brtt. er svo við 54. gr. og er umorðun hennar, þar sem talið er upp í skýru máli, hvaða lög falli úr gildi við lögfestingu þessa frv. Þar er ýmsu bætt við það sem áður var í greininni eða það sem er í upphaflega frv., svo sem lögum um launajöfnunarbætur o. fl., lögum um einkasöluheimild landsstjórnarinnar á steinolíu, lögum um heimild til handa ríkisstj. til einkasölu á bifreiðum, rafvélum, rafáhöldum o. fl., lögum um heimild fyrir ríkisstj. til að taka í sínar hendur alla sölu á hrossum til útlanda o. fl., lögum um heimild fyrir ríkisstj. til þess að veita einkaleyfi til að flytja út mó og vörur unnar úr mó og selja á erlendum markaði. og lögum um heimild fyrir ríkisstj. til ýmislegra ráðstafana vegna yfirvofandi styrjaldar í Norðurálfu, þetta eru lög frá 1939, og svo önnur ákvæði, sem fara í bága við þessi lög. Kannske sjá einhverjir eftir þessum lögum úr lagasafninu, en við leggjum til, að þau verði afnumin við þetta tækifæri.

Ég hef þá rakið, hæstv. forseti, brtt. meiri hl. n. og hef ekki meira um þetta mál að segja.