01.11.1977
Sameinað þing: 11. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 345 í B-deild Alþingistíðinda. (274)

319. mál, fóstureyðingalöggjöf

Fyrirspyrjandi (Sigurlaug Bjarnadóttir):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram á þskj. 35 svo hljóðandi fsp. til hæstv. heilbrrh.:

„1. Hvenær er að vænta reglugerðar með fóstureyðingalöggjöfinni?

2. Hvað líður framkvæmd á þeim kafla laganna sem fjallar um ráðgjöf og fræðslu?“

Það er nú um það bil hálft annað ár síðan lög voru sett á Alþ. um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir. Um þetta urðu, eins og menn muna, allmiklar deilur og sviptingar á sínum tíma og lagasetningin var lengi á döfinni áður en hún varð að lögum. Mér segir svo hugur um, að það sé þörf á að taka þessi mál öllu fastari tökum en gert hefur verið frá þessari lagasetningu. Og þá vil ég sérstaklega benda á, að þegar þessi lög voru sett var talið að meginsjónarmið laganna skyldi vera það, að fóstureyðing væri ávallt neyðarúrræði og ekkert annað en neyðarúrræði og til þess að koma í veg fyrir fóstureyðingar átti að beita fræðslu og leiðbeiningum og fyrirbyggjandi ráðstöfunum hvers konar. Því er það að 2. liður fsp. beinist sérstaklega að I. kafla laganna, sem er um leið einn aðalkafli þeirra, um ráðgjöf og fræðslu. Samkv. lögunum skal þessi fræðsla veitt á vegum landlæknis sem yfiraðila, og hún skyldi fara fram annars vegar á heilsugæslustöðvum og sjúkrahúsum og hins vegar í samráði við skólayfirlækni og fræðsluyfirvöld í öllum skólum landsins, á skyldunámsstigi og einnig á öðrum námsstigum. Í nágrannalöndum okkar, þar sem slík löggjöf eða hliðstæð okkar löggjöf er á komin, hefur þessum þætti, fræðsluþættinum, verið stórlega ábótavant, og margir halda því fram, sem þekkja til t.d. í Danmörku, að þar sé fóstureyðing notuð í stað getnaðarvarna. Um þetta þarf að sjálfsögðu, eins og lög gera ráð fyrir, að koma leiðbeining, fræðsla og eftirlit, og þess vegna spyr ég sérstaklega í 2. lið fsp. hvað líði framkvæmd á þessum þætti laganna. Og eins er þessi fsp. í heild borin fram til þess að ýta á eftir að reglugerð verði sett til þess að marka með öruggara móti framkvæmd laganna. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því, að það getur verið hyggilegt að bíða með að setja reglugerð með lögunum þangað til nokkur reynsla er fengin. En ég tel, að nú sé tími til kominn, þegar þetta langt er um liðið frá setningu laganna, að undirbúa vandlega samda reglugerð.