19.04.1978
Efri deild: 80. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3618 í B-deild Alþingistíðinda. (2743)

228. mál, Sölustofnun lagmetisiðnaðarins

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég vil taka undir þann hluta í málflutningi hv. þm. Jóns Árm. Héðinssonar, að grásleppuveiðimenn hafa verið afskiptir á marga vegu í þessu landi. Og að mínu viti er rétt núna, þegar aftur er hreyft við lögum um Sölustofnun lagmetisiðnaðarins, að vekja athygli á vissum þáttum í því sambandi. Ég hefði t. d. talið eðlilegt, að Samtök grásleppuhrognaframleiðenda fengju fulltrúa í stjórn Sölustofnunar lagmetisiðnaðarins. Það er mjög óeðlilegt að þeir séu látnir bera þarna uppi stóran kostnað öðrum fremur, án þess að eiga stjórnaraðild. Ég vænti þess, að hæstv. iðnrh. líti á það með velvild, því að ég hygg að ástæðan, að þeir voru ekki inni í dæminu upphaflega, sé fyrst og fremst sú, að þá höfðu þeir engin samtök sín á milli.

Jafnframt virðist mér að ekki sé óeðlilegt að allir hrognaframleiðendur á Íslandi sitji við sama borð, því að tvímælalaust er Sölustofnun lagmetisiðnaðarins ætlað meira hlutverk en að glíma við niðursuðu á grásleppuhrognum einum. Það væri t. d. eðlilegt að tekinn væri skattur af loðnuhrognum og hann væri sá sami og af söltuðum grásleppuhrognum. Með því móti mætti lækka þann heildarskatt sem hér er um að ræða, reikna þetta einfaldlega út, til þess að niðurstöðuupphæðin yrði sú sama og gert er ráð fyrir í þessu frv. Ég tel, að hér sé um réttlætismál að ræða, og vænti einnig að tekið verði á því með fullum skilningi.

Við eitt atriði í 2. gr. þessa frv. vil ég líka gera vissa aths. Þar er lagt til, að iðnrh. sé heimilt að fela Iðnaðarbanka Íslands hf. daglegan rekstur sjóðsins samkv. sérstökum samningi. Að mínu viti finnst mér eðlilegra að opinberir sjóðir séu ávaxtaðir í bönkum sem íslenska þjóðin á öll sem heild. Í þessu sambandi get ég ekki varist þeirri hugsun, að þar sem þetta er sjávarútvegsiðnaður væri eðlilegra að sjóðurinn yrði ávaxtaður í Útvegsbankanum og bendi hér með á það.

Ég vil svo í lok máls míns geta þess, að ég tel að Sölustofnun lagmetisiðnaðarins sé að sinna mjög þörfu og merku verkefni í þessu landi, þ. e. a. s. að við hættum að flytja úr landi óunna vöru og náum því stigi sem þróaðar iðnaðarþjóðir eru komnar á, en það er að flytja fyrst og fremst fullunna vöru úr landi.