19.04.1978
Efri deild: 80. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3623 í B-deild Alþingistíðinda. (2762)

162. mál, kaupstaðarréttindi til handa Selfosskauptúni

Fram. (Steinþór Gestsson) :

Herra forseti. Frv. til l. um kaupstaðarréttindi handa Selfosskauptúni er komið hingað frá Nd. Frv. er flutt að beiðni hreppsnefndar Selfosshrepps sem hafði gert um það samþykkt með samhljóða atkv. allra hreppsnefndarmanna að æskja þess, að þm. Suðurlandskjördæmis beittu sér fyrir flutningi frv. um þetta efni og framgangi þess á þingi.

Félmn. fékk ráðuneytisstjórann í félmrn. til fundar við sig og fékk hjá honum upplýsingar varðandi efni frv., sem hann taldi vera í samræmi við venjulega afgreiðslu hliðstæðra mála eins og þau hafa þróast hin síðari ár.

Umsagnir höfðu borist til félmn. Nd. frá sambandi sunnlenskra sveitarfélaga, sem ekki tók afstöðu til frv., svo og frá sýslunefnd Árnessýslu sem mælir gegn frv. eins og það er og leggur til að því verði breytt. Að athuguðu máli töldu nm. í hv. félmn. Ed. ekki fært að taka till. sýslunefndar upp, enda þótt ýmsir nm. lýstu áhyggjum sínum yfir þeirri þróun mála sem virtist vera afleiðing af því, að sveitarfélög skuli ekki öll hafa sömu réttarstöðu. Sú staða hefur leitt til skipulagslausra breytinga á samvinnu sveitarfélaga vítt og breitt um landið. Það er mál sem vissulega þarf að taka til endurskoðunar í heild og það heldur fyrr en seinna, en varðar ekki þetta frv. sérstaklega. Hins vegar voru allir nm. sammála um að mæla með samþykkt þessa frv. eins og það liggur hér fyrir. Selfosshreppur er með rúmlega 3 þús. íbúa og er áttunda stærsta sveitarfélag utan Reykjavíkur. Það má því segja að kaupstaðarrétt hafi ýmis sveitarfélög fengið á undanförnum árum sem stóðu fjær því en Setfosshreppur þegar lítið er til stærðarmarka hans.

Eins og segir í nál. á þskj. 606, þá leggur félmn. til að frv. verði samþykkt óbreytt. Voru allir nm. á fundi þegar sú ákvörðun var tekin.