19.04.1978
Efri deild: 80. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3624 í B-deild Alþingistíðinda. (2763)

162. mál, kaupstaðarréttindi til handa Selfosskauptúni

Jón G. Sólnes:

Herra forseti. Ég hef ekki hugsað mér að leggjast gegn því frv. sem hér er til meðferðar, um kaupstaðarréttindi til handa Selfosskauptúni. Aðeins vildi ég nota tækifærið til að koma þeirri skoðun minni á framfæri, að ég hef nokkrar áhyggjur af því, hvernig þróun mála hefur verið í sambandi við hina hraðvaxandi tilhneigingu til þess að veita þéttbýliskjörnum víðs vegar um landið kaupstaðarréttindi. Ég held að hér sé á ferðinni þróun sem væri rétt að gefa nánari gaum áður en lengra er haldið. Mér finnst að í okkar fámenna þjóðfélagi geti það leitt til óþurftar ef við gerum of mikið að því að skilja sundur sýslufélögin og stjórn þeirra með því að veita kaupstaðarréttindi hverjum þéttbýliskjarna sem nær svo og svo hárri íbúatölu og nær þannig að vissu leyti sérstöðu í sambandi við ýmis atvinnuskilyrði, þjónustustarfsemi og annað. Þá hef ég í huga einnig þegar verið er að framkvæma lagasetningu eins og hér til umr., hvort ekki beri einnig að gefa því gaum, að lögsagnarumdæmi væntanlegs kaupstaðar sé stækkað — eða réttara sagt að fleiri sveitarfélög verði þá sameinuð um leið, þannig að lögsagnarumdæmi væntanlegs kaupstaðar verði nokkru stærra en þess hreppsfélags sem í það og það skiptið er verið að ræða um að veita kaupstaðarréttindi. Ég nefni sem dæmi þessu máli mínu til stuðnings, að ég er ekki í nokkrum minnsta vafa um að þegar lög voru á sínum tíma afgreidd um kaupstaðarréttindi fyrir Dalvík, þá hefði að mörgu leyti verið miklu meiri hagkvæmni í því að láta lögsagnarumdæmi Dalvíkurkaupstaðar ná einnig yfir núverandi Svarfaðardalshrepp.

Eins og ég sagði í upphafi máls míns, herra forseti, þá ætla ég ekki að standa gegn þessu frv. og mun ekki gera neina tilraun til þess að tefja framgang þess, aðeins þótti mér rétt að láta þessa skoðun mína og sjónarmið koma fram við þessa umr. málsins.