19.04.1978
Efri deild: 80. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3627 í B-deild Alþingistíðinda. (2767)

184. mál, réttur til fiskveiða í landhelgi

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Þetta frv. fjallar um breytingu á lögum 33 frá 19. júní 1922, um rétt til fiskveiða í landhelgi, en þrátt fyrir ákvæði þeirra laga gerir þetta frv. ráð fyrir því, að sjútvrh. sé heimilt að leyfa íslenskum aðilum, sem útgerð stunda hér á landi, að taka á leigu um takmarkaðan tíma erlent skip til fiskveiða í íslenskri landhelgi ef íslenskt skip verður fyrir verulegum áföllum vegna bilana eða skip verður dæmt ónýtt og ekki reynist unnt að fá annað íslenskt skip í þess stað. Um heimild til veiða og löndunar á þó að fara eftir sömu reglum og gilda um íslensk skip, að svo miklu leyti sem ekki er annað ákveðið í sérstökum reglum sem ráðh. er heimilt að setja við veitingu leyfis um veiði og landanir hins erlenda skips.

Þessi breyting á lögum frá 1922 er ákaflega þröng, eins og orðalagið gefur til kynna. Frv. er flutt með það fyrir augum, að þegar skip verður fyrir áfalli, áhöfn tvístrast og ekki er hægt að fá skip í þess stað, þá megi sjútvrh. veita slíkt leyfi um takmarkaðan tíma, eins og t. d. út vertíð eða ef vélaskipti eða önnur viðgerð á að fara fram á viðkomandi skipi, þá á meðan sú viðgerð fer fram.

Ég mundi, þegar ég fylgdi þessu frv. úr hlaði í Nd., tvö dæmi. Loðnuveiðiskipið Sigurður bilaði alvarlega fyrir loðnuvertíðina í vetur, eitt af afkastamestu loðnuveiðiskipum íslenska flotans. Ef slík heimild hefði verið fyrir hendi hefði verið hægt að leyfa útgerð þess skips og áhöfn að taka erlent skip á leigu á meðan vélaskipti fara fram á Sigurði. Annað óhapp kom fyrir íslenskt skip, Jón Finnsson. Vélin hrundi rétt í byrjun vertíðar. Sama hefði verið gert undir þeim kringumstæðum. Sama getur einnig komið fyrir þar sem jafnvel eitt skip er svo að segja grundvöllur atvinnulífs, hvort sem það er á minni eða stærri stöðum. Þá er eðlilegt að slík heimild sé fyrir hendi. En þessi heimild á auðvitað aldrei að vera notuð á þann veg. að það eigi að fjölga skipum og auka sókn í fiskstofna innan íslenskrar fiskveiðilandhelgi.

Í Nd. var gerð breyting á upprunalegri grein frv.. sem varð til þess að taka af öll tvímæli. Bætt var við: „enda verði leiguskipið með íslenskri áhöfn“, en fram kom í grg. að til þess var ætlast. Hafði ég síst á móti því, að slík breyting yrði gerð. Jafnframt var bætt við: „búið líkum útbúnaði og með sambærilegri veiðigetu“

Þessi þröngu ákvæði, sem verið hafa og verða auðvitað áfram, gera það að verkum, að útlendingar hafa mjög hvatt menn til þess að sækja um að fá skip flutt inn. Þegar hefur verið reynt að draga verulega úr innflutningi skipa, og má segja að nú hafi ekki, sennilega í 10 mánuði, verið veitt leyfi til innflutnings á skipum erlendis frá og aðeins örfá skip ókomin sem leyfi hafa, þá verður þessi heimild auðvitað til þess einnig að draga úr því, því að víða er hægt að fá skip á leigu ef slík óhöpp eiga sér stað eins og ég hef hér nefnt. Það getur jafnvel kostað heil byggðarlög eða stóra hópa af verkafólki atvinnumissi ef hvergi er hægt að fylla í skarðið með skipum þeim sem fyrir eru innanlands. Þess vegna er þetta frv. flutt, til þess að þessi heimild sé í lögum.

Í Nd. var fullkomin samstaða um þetta mál með fulltrúum allra flokka, enda var leitað til allra þingflokka, áður en frv. var flutt, til að samstaða gæti náðst um málið. En ég endurtek að ég tel að þessari heimild verði að beita með mikilli varkárni og gefa aldrei erlendum aðilum neitt undir fótinn með það, að hægt sé að komast á bak við þessa heimild. Þess vegna er hún orðuð eins þröngt og þm. sjá í þessu frv.

Ég vil svo, herra forseti, leggja til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til sjútvn.