19.04.1978
Efri deild: 81. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3635 í B-deild Alþingistíðinda. (2806)

151. mál, samkeppni í verðmyndun og samruni fyrirtækja

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég hlýt eins og hv. síðasti ræðumaður, Ragnar Arnalds, að lýsa yfir andstöðu minni við þetta frv. og vil að það verði fellt, en uni hreint ekki þeirri afgreiðslu sem er fyrirhuguð samkv. álíti meiri hl. fjh.- og viðskn., að afgreiða það með rökstuddri dagskrá á þessa lund, vegna þess að það er rétt, sem hv. flm. frv. sagði, þessi frv. tvö eru ekki sambærileg. Frv. Alberts Guðmundssonar gengur mun lengra og er í ýmsum greinum ekki sambærilegt við frv. það sem meiri hl. n. vísar til.

Ég skildi orð hv. þm. Jóns G. Sólness á þá lund, að honum félli allvel ýmislegt í frv. því sem hér er um að ræða nú. Hann tilgreindi ekki þau atriði sem hann hefði út á að setja, heldur aðeins gat þess, að þau væru nokkur. Hann gaf einnig í skyn að ástæðan fyrir því, að hann kysi nú að vísa þessu frv. frá, væri sú, að náðst hefði samkomulag innan stjórnarflokkanna um frv. sem væri að hans dómi til nokkurra bóta. Tónninn var hins vegar sá, að maður gat ráðið það af honum að hann teldi það frv. e, t. v. ekki jafngott frv. því sem hann vill nú vísa frá.

Ég hygg að hv. þm. gerist þarna sekur um að taka hinn praktíska þanka fram yfir það sem hann hafði þó lofað að ráða afstöðu mála sinna á hv. Alþ. þar sem samviskan er. Ég vil vekja athygli hans á því, að vel væri honum unnt að greiða atkv. með frv. ríkisstj. til vara. Hann mundi aðeins með því móti gera það sem hann hefur fyrr gert á hv. Alþ., að bæta gráu ofan á svart.