19.04.1978
Efri deild: 81. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3638 í B-deild Alþingistíðinda. (2809)

151. mál, samkeppni í verðmyndun og samruni fyrirtækja

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, því satt er það, að óviðkunnanlegt er að kasta aðeins fram spurningum til ræðumanns í ræðustól og hafa svo ekkert annað að segja en trufla hann í annars skörulegri ræðu. Því vildi ég segja fáein orð um þetta.

Þetta frv. út af fyrir sig er aukaatriði í þessu máli í heild, því að í Nd. er nú frv. — við höfum heyrt af því óminn núna undanfarna tíma, óminn af þeim umr. sem þar hafa farið fram um það mál, — sem skiptir auðvitað öllu í þessu, þ. e. a. s. frv. sem ríkisstj. er núna að leggja fram af fáheyrðri ósvífni, vil ég segja, því það snýst um að afnema verðlagshömlur sem allra mest, á sama tíma og nýbúið er að setja hömlur á laun manna, eins og gert hefur verið. En búið er að ræða um það mál meira en svo að ég þurfi þar nokkru við að bæta.

Rætt var um Samband ísl. samvinnufélaga. Ég er því ekki svo kunnugur að ég geti dæmt um hvort allt það sé rétt sem hv. þm. Albert Guðmundsson sagði. En þó er ég hræddur um að kannske kunni að leynast í því meiri sannleikur en við, sem fylgjum samvinnustefnunni að málum vildum að væri. Ég er ósköp hræddur um að þar sé ekki nægilega vel á málum haldið. En það kemur ýmislegt fleira inn í þetta, og af því að minnst var á kaupfélögin almennt og kaupfélögin úti á landi, þá er rétt að geta þess, að kaupfélögin úti á landi þurfa mjög víða að sinna ákaflega veigamiklu hlutverki í sambandi við verslunarsviðið. Þau geta ekki leyft sér einhverja ákveðna sérstaka gróðavöru til þess að byggja á verslun sína og umsetning þar öll fer auðvitað miklu hægar fram en hér á þessu svæði. Þar fyrir utan eru kaupfélögin úti á landi ekki bara verslunarfélög. Þau gegna miklu stærra hlutverki og þýðingarmeira fyrir íbúana en því að vera með verslunina eina. Og áskotnist þeim eitthvað í verslunargróða, ef hann er þar fyrir hendi, þá fullyrði ég að sá verslunargróði fer sem betur fer til þeirra sem við kaupfélagið versla. Á þessu er auðvitað grundvallarmunur og hinu með kaupmanninn. Þar skilur á milli hugsjóna sem hv. þm. Albert Guðmundsson var að tala um áðan. Kaupfélögin hafa t. d. notað fjármuni sína til þess að byggja upp atvinnulíf heilla staða. Það vitum við best, sem búum úti á landi, að er ómetanlegt í mörgum tilfellum og við sjáum ekki eftir þeim peningum sem í það fara hjá kaupfélögunum.

Hv. þm. talaði um að KRON gæti ekki eða virtist ekki geta veitt þá samkeppni sem nauðsynleg væri gagnvart kaupmönnum hér. Ég vil taka undir það sem hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson sagði um það efni. Þar er komið inn á mjög veigamikið atriði án efa. En ég held að félagsmenn í KRON geti yfirleitt verið allþokkalega ánægðir með viðskipti sín hjá því fyrirtæki. Ég veit ekki betur en þeir fái vissan afslátt. Ég veit ekki hver hann er í prósentum. Sessunautur minn segir að menn fái 10% afslátt af vöruviðskiptum þar. Ég tel það ekki svo lítið, af þeim vöruviðskiptum sem menn geta haft við það ágæta kaupfélag.

En mér leiddist það, þegar hv. þm. var að tala um að hann treysti dómgreind fólks, en við Alþb.-menn gerðum það ekki, því þar er komið inn á það sem bæði hv. þm. Ragnar Arnalds og hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson komu inn á: Hverjum dettur í hug og allra síst svo verslunarglöggum manni sem hv. þm. Albert Guðmundssyni, að menn geti haft í sambandi við verðlag almennt óbrjálaða dómgreind í því kapphlaupi, sem hefur ríkt undanfarið, og þeirri óðaverðbólgu, sem ríkt hefur? Það er gjörsamlega útilokað.

Ég kom í verslun til þess að kaupa mér ákveðna vörutegund rétt fyrir gengisfellinguna. Þar var mér sagt hvað varan kostaði þá, hvað hún mundi kosta eftir gengisfellinguna og hvað ég mundi græða á því ef ég keypti hana þarna strax. Ég gat ekki valið þessa vöru alveg á stundinni og hún var horfin úr búðinni daginn eftir, annaðhvort seld eða kannske horfin inn á lager — ég veit ekki hvort hefur verið, en alla vega var hún horfin. En þegar ég svo keypti þessa vöru, vegna þess að ég þurfti að kaupa hana, þá var hvorki það verð uppi, sem mér hafði verið sagt að hefði verið á áður en gengisfellingin varð, né það verð, sem mér hafði verið sagt í versluninni að yrði eftir að gengisfellingin skylli á. Það voru komin 15% ofan á það verð sem hefði eðlilegt getað talist. Ég kannaði hvort þessi vara heyrði undir verðlagsyfirvöld, því ég ætlaði hreinlega að kæra þetta, vegna þess að mér var fullljóst að þarna hafði verið farið, eins og svo oft er gert af verslunum í sambandi við gengisfellingar, út fyrir hinn lagalega ramma og einhverju bætt ofan á. Því miður var þessi vara ekki undir neinu verðlagseftirliti svo að ég varð að láta málið niður falla.

Auðvitað veit hv. þm. Albert Guðmundsson að í þessu máli þýðir ekki að tala fagurlega um dómgreind fólks. Ef hann, sem vera kann, verður í forustu sjálfstæðismanna í Reykjavík, sem allir trúa nú á og sjálfstæðismenn vona einnig eftir þeim úrslitum sem þar hafa orðið þá hlýtur hann að beita sér fyrir því, að þessi dómgreind komist í lag, með þeim hætti að hann stöðvi óðaverðbólguna. Þá getum við aftur farið að spjalla um þessa dómgreind almennings sem hann var að ræða um áðan, og þá skulum við vita hvort við getum ekki orðið tiltölulega sammála um hana. En þá verður hann búinn að vinna það afrek, sem engum öðrum hefur tekist, að stöðva óðaverðbólguna, og það er sannarlega kominn tími til. Þegar nýr maður kemur í forustu flokks, eins og hv. þm. Albert Guðmundsson í þessu stærsta kjördæmi, þá er von að menn voni fyrst og fremst að hann ráðist að þeirri meinsemd sem hrjáir okkur hvað mest.