19.04.1978
Efri deild: 81. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3642 í B-deild Alþingistíðinda. (2812)

151. mál, samkeppni í verðmyndun og samruni fyrirtækja

Stefán Jónason:

Herra forseti. Ég mun ekki halda langa ræðu, en vil í upphafi máls míns leiðrétta smámisskilning, sem fram kom hjá hv. þm. Jóni G. Sólnes á orðum mínum úr hinni fyrri ræðu. Ég taldi ekki að hv. þm. bætti gráu ofan á svart með því að víkja frv. hv. þm. Alberts Guðmundssonar, 12. þm. Reykv., til hliðar og greiða síðan atkv. með frv. ríkisstj. Ég var að vekja athygli hans á því gullna tækifæri sem hann átti á því að bæta enn einu sinni gráu ofan á svart, þar sem hann gat greitt atkv. með frv. hv. þm. Alberts Guðmundssonar um þessi mál og síðan, ef svo færi — sem líklegt væri — að það félli eigi að síður, þá átti hann enn þá skot í hinu hlaupinu til þess að vinna sér til sæmdar með því að greiða síðara frv. atkv. er það hingað kemur.

Ég ætla að það hafi eigi farið fram hjá hv. dm., hversu hljómað hefur hinn hvelli og hreini rómur hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasonar inn um gættina hjá okkur, þar sem hann hefur einmitt verið að ræða frv. ríkisstj. á þessari sömu stundu. Það er nú væntanlegt — ef það má nota sögnina „að vænta“ í svo umhverfðri merkingu — hingað inn í d. innan skamms. Þá hefði enn verið fyrir hendi þriðji kosturinn, að doka nú við með að afgreiða úr n. frv. hv. þm. Alberts Guðmundssonar til þess að geta athugað þessi frv. saman og tekið þá úr frv. hv. þm. Alberts Guðmundssonar í formi brtt. inn í frv. ríkisstj. það sem hv. þm. Jóni G. Sólnes líkaði betur í hinu frv., ef hann vildi raunverulega vel gjöra.

Það fór ekki neitt á milli mála í síðari ræðu hv. þm. Alberts Guðmundssonar, að honum er enn í fersku minni ýmislegt af því sem hann lærði í Samvinnuskólanum á sínum tíma, þegar Jónas Jónsson stýrði þeim skóla sællar minningar. Enn þá er hann kunnugur markmiðum samvinnuhreyfingarinnar og kaupfélaganna og gerir sér fulla grein fyrir því, hvílíkum stórvirkjum samvinnuhreyfingin má fram koma á landi hér í versluninni ef rétt er á haldið.

Ég er þeirrar skoðunar, sömu skoðunar og hv. þm. Albert Guðmundsson, að æskilegt sé að kaupfélögin hafi það afl, að þeim sé fengið það afl — og það afl getur enginn fengið kaupfélögunum nema fólkið sjálft — sem til þess þarf að þau annist hið virka verðlagseftirlit í landinu við gefnar hagstæðar aðstæður. Ég er sömu skoðunar. Ég get einnig tekið undir þau orð hv. þm. Jóns G. Sólness, að gildandi verðlagslöggjöf er síður en svo í hvívetna lýtalaus. Hann orðaði það nú svo, að löggjöf þessi væri kolvitlaus. Hún er á margan hátt röng. Ég lái honum ekkert þó hann kveði svo sterkt að orði. Á henni hafa ekki verið gerðar nauðsynlegar breytingar til þess að halda henni í takt við ástandið í verðlagsmálunum og í verslunarmálunum á landi hér. Þetta viðurkenni ég alveg fúslega. En þar með er ekki sagt að úr verði bætt með því einu að fella þá löggjöf úr gildi — með því er ekki sagt að aðrir kostir kunni ekki að vera verri.

Ég er mjög svo til viðræðu um að gera breytingar á verðlagslöggjöfinni, en ég er því algjörlega mótfallinn, að samtímis því sem Alþ. undir stjórnarforustu Sjálfstfl. og Framsóknar bannar með lögum að alþýðusamtökin ákvarði verð á vinnustundum síns fólks, þá sé kaupsýslustéttinni heimilað að ráða algjörlega upp á eigin spýtur verði á nauðsynjavörum þessa sama alþýðufólks. Það er ekki bara kolvitlaus aðferð, ekki bara það, auk þess er þetta siðlaus aðferð.

Ég neita því algjörlega, að ég eða hv. þm. Ragnar Arnalds í ræðu sinni áðan, við hefðum talað um hina vondu kaupmenn. Mér væri ákaflega fjarri skapi að nota slíka nafngift um kaupmenn. Enda þótt ég leyfði mér að kalla fram í fyrir hv. þm. Albert Guðmundssyni áðan og minnast á svik undan söluskatti í sambandi við samkeppni kaupmanna og samvinnufélaga um verðlag, þá vil ég alls ekki væna kaupmannastéttina í heild um söluskattssvik. Því fer víðs fjarri. Kaupmenn eru jafnmisjafnir þegnar eins og þeir eru margir. Enn í dag hygg ég að varla verði á móti því mælt, að þeir sinni þýðingarmiklu hlutverki í þjóðlífi okkar, ýmsir þeirra með ágætum. Ef við athugum söguna frá upphafi íslenskrar verslunar, þá mun koma í ljós, ef grannt er skoðað og af heiðarleika, að margir þeir einstaklingar, sem stundað hafa kaupmennsku á landi hér, hafa reynst hinum máttarminni hjálparhellur.

En svo ég rifji aðeins upp fyrir hv. þm. Albert Guðmundssyni hin fornu fræði er hann áður nam við kné Jónasar Jónssonar, þá hygg ég að færa megi að því gild rök, að það hafi einmitt verið tilkoma samvinnuhreyfingarinnar á landi hér sem fyrst og fremst efldi verslunina í þágu alþýðu manna og einmitt á þeim árum þegar verslunarhættir voru þess háttar og verðlagsmálin lutu skynsamlegum lögmálum, þá hafi það einmitt verið samkeppni kaupfélaganna sem hélt niðri verðlaginu á landi hér. Ég dreg ekki í efa að Samband ísl. samvinnufélaga gegni enn þýðingarmiklu hlutverki fyrir kaupfélögin úti á landi. Aftur á móti er ég þeirrar skoðunar, að í yfirstjórn Sambandsins gæti nú, — ef ég má leyfa mér að nota orðið, talsvert algengt orð, sem mér finnst nú enn þá hafa framandi bragð, — að það gæti nokkurrar firringar á milli yfirstjórnar Sambandsins og hins almenna kaupfélagsmanns sem æskilegt væri að ráða bót á. Ég leyfi mér að draga í efa að Samband ísl. samvinnufélaga hafi í hvívetna gert lækkað vöruverð að meginmarkmiði í rekstri sínum hin síðari árin, þó e. t. v. megi til sanns vegar færa að þar hafi Samband ísl. samvinnufélaga eða að einhverju leyti gengið nauðugt til leiks.

Ég vil minna á í sambandi við ummæli hv. þm. Jóns Helgasonar um eðlilegan kostnaðarauka af því að dreifa varningi frá Reykjavík til kaupfélaganna úti á landi, að stöku heildsalar í Reykjavík hafa boðið kaupfélögunum úti á landi ýmsan varning við lægra verði en Sambandið hefur gert. Það er ástæðan fyrir því, að ýmis kaupfélög úti á landi versla við heildsalana fremur við Samband ísl. samvinnufélaga. Loks minni ég enn einu sinni á það, að við Alþb-menn bárum á þessu kjörtímabili fram till. um að niður yrði felldur söluskattur af flutningskostnaði á vörum út á land, sem nemur nú 20% ofan á flutningskostnaðinn sem er ýkjahár annars, en þeir hv. stjórnarþm., þ. á m. þm. Framsfl., börðust gegn því.

Aðeins svo þetta í lokin: Ég hefði gjarnan viljað að meiri hl. fjh.- og viðskn. hefði ekki tekið þann kostinn að svipta mig möguleika á því að greiða atkv. gegn frv. hv. þm. Alberts Guðmundssonar sem hér er um að ræða. Ég skal að vísu játa að ég hygg að þetta hafi hv. fjh.- og viðskn. ekki gert af útspekúleruðum hrekk við mig. Kannske hefur hún gert það af þrauthugsaðri tillitssemi við hv. þm. Jón G. Sólnes, af ótta við að honum yrði þarna valdið óhæfilegu hugarstríði eða innri lemstrun af baráttu við samvisku sína.