19.04.1978
Neðri deild: 79. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3647 í B-deild Alþingistíðinda. (2825)

226. mál, stimpilgjald

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen) :

Virðulegi forseti. Hér liggur fyrir til umr. frv. til nýrra heildarlaga um stimpilgjald. Samhliða frv. þessu er flutt frv. til l. um breyt. á lögum um aukatekjur ríkissjóðs og verður að skoða ákvæði þessara frv. í samfellu.

Samkv. gildandi lögum er gjaldtaka af skjölum þríþætt. Í fyrsta lagi er tekið af þeim stimpilgjald samkv. ákvæðum stimpilgjaldslaganna frá 1921, sem ræðst af hæð þeirrar fjárhæðar sem á skjalinu stendur. Í öðru lagi er tekinn 140% stimpilgjaldsviðauki af flestum hinna stimpilskyldu skjala, en viðauki þessi hefur verið samþykktur til eins árs í senn undanfarna áratugi. Í þriðja lagi er við þinglýsingu tekið sérstakt þinglýsingargjald, sem eins og stimpilgjaldið er háð fjárhæð hinna þinglýstu skjala. Með frv. þessu er lagt til, að öllum þessum gjöldum verði steypt saman í eitt gjald, stimpilgjald, en stimpilgjaldsaukinn verði felldur niður svo og þinglýsingargjald í núverandi mynd. Ekki þykir þó fært að fella þinglýsingargjaldið með öllu niður, en þess í stað er lagt til að fyrir þinglýsingu verði tekið tiltölulega lágt fast gjald, óháð fjárhæð hinna þinglýstu skjala, svipað og nú gerist um veðbókarvottorð. Þessi breyting ætti að horfa til verulegrar einföldunar, þannig að gjaldendum ætti að geta orðið ljósara en nú hvernig gjöldin eru reiknuð og veruleg vinna ætti að geta sparast við útreikning gjaldanna.

Þessari breytingu á gjaldtökunni er ekki ætlað að auka tekjur ríkissjóðs og má ætla að þær verði nær óbreyttar, en nákvæm áætlun um tekjubreytingar þær, er af frv. þessu leiðir, er örðug vegna þess að skýrslur um fjölda og fjárhæð stimplaðra og þinglýstra skjala eru ósundurliðaðar. Gjaldtaka af einstökum skjölum breytist hins vegar nokkuð, ýmist til hækkunar eða lækkunar, og vísast til fskj. með frv. um yfirlit yfir þær breytingar.

Auk fyrrgreindra sameiningargjalda felast í frv. allviðamiklar breytingar á ýmsum ákvæðum stimpillaga, enda eru núgildandi lög úrelt orðin að ýmsu leyti, sem engan skyldi undra eftir '57 ára gildistíma. Ég sé ekki ástæðu til að rekja þessar breytingar í smáatriðum, en vil þó vekja athygli á eftirfarandi atriðum:

Samkv. frv. er gert ráð fyrir að stimpilgjaldið hlaupi á hærri fjárhæðum en er samkv. gildandi lögum. Þannig er t. d. stimpilgjald af víxlum 250 kr. af hverjum 104 þús. af fjárhæð víxils samkv. frv. í stað 0.24% af víxilfjárhæðinni áður. Er þessari breytingu, eins og svo mörgum öðrum sem í frv. felast, ætlað að spara vinnu við útreikning gjaldanna.

Þá er gerð till. um breyttan gjaldstofn við útreikning stimpilgjalds af eignarheimildum fyrir fasteignum. Fram til þessa hefur stimpil- og þinglýsingargjald af þessum skjölum verið miðað við söluverð eignarinnar ef það hefur komið fram á hinu þinglýsta skjali, ella hefur verið miðað við fasteignamatsverð. Þar sem fasteignamatsverð er alla jafna nokkru lægra en gangverð fasteigna hefur þessi háttur við gjaldtöku leitt til þess, að menn hafa látið hjá líða að þinglýsa kaupsamningum. Þannig hafa þeir sparað sér hluta af stimpilgjaldi með því að greiða það af lægri gjaldstofni og um leið sloppið við að greiða þinglýsingargjald bæði af kaupsamningi og afsali. Þetta hefur hins vegar leitt til verulegrar skerðingar á réttaröryggi fasteignakaupenda, þar sem þeir hafa átt á hættu að skuldheimtumenn seljanda eða grandlausir síðari viðsemjendur hans gætu útrýmt eða skert rétt kaupsamningshafa. Verður að telja mjög óæskilegt að gjaldtökuákvæði dragi á þennan hátt úr réttaröryggi við fasteignakaup, og er því lagt til í 17. gr. frv. að jafnan skuli miða gjaldstofn stimpilgjalds við fasteignamat eða áætlað fasteignamat þegar því verður við komið. Þessi breyting, samhliða niðurfellingu þinglýsingargjalds í núverandi mynd, ætti að leiða til þess að opinber gjaldtaka verði mönnum ekki framvegis hindum við að tryggja rétt sinn.

Nefna má að í frv. er lagt til að það breyti ekki stimpilskyldu skjals þótt það sé gefið út til tryggingar öðru skjali. Þannig gerir frv. ráð fyrir að fullt stimpilgjald sé tekið af tryggingarbréfi sem gefið er út til tryggingar á greiðslu víxils, en samkv. gildandi lögum er við ákvörðun stimpilgjalds af tryggingarbréfum tekið tillit til stimplunar víxilsins. Jafnframt er lagt til að stimpilgjald af tryggingarbréfum verði almennt lækkað, þannig að þessi breyting ætti ekki að vera til íþyngingar gjaldendum. Hins vegar ætti hún að geta sparað nokkuð vinnu við ákvörðun stimpilgjalds og geta flýtt afgreiðslu nokkuð.

Þá er lögð til nokkur breyting á stimplun hlutabréfa frá gildandi lögum. Nemur stimpilgjaldið 2.4% af verði bréfsins ef bréfið hljóðar á handhafa, en 1.6% ef bréfið hljóðar á nafn. Auk þess eru framsöl nafnbréfa stimpilskyld. Í frv. er lagt til að sama stimpilgjaldið gildi fyrir öll hlutabréf og framsal þeirra allra verði stimpilfrjálst. Á sama hátt er lagt til að framsal á réttindum í öðrum félögum en hlutafélögum verði stimpilfrjálst. Loks má geta þess, að niður lagsákvæði þessa frv. eru mun skýrari en samsvarandi ákvæði í gildandi lögum og gerður er skýrari munur á stjórnvaldsviðurlögum og eiginlegum refsingum, andstætt því sem er í gildandi lögum.

Ég leyfi mér, virðulegi forseti, að leggja til að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.