19.04.1978
Neðri deild: 79. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3649 í B-deild Alþingistíðinda. (2827)

227. mál, aukatekjur ríkissjóðs

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Virðulegi forseti. Frv. það, sem hér er til umr., er flutt samhliða frv. til laga um stimpilgjald, er ég gerði grein fyrir hér fyrr, og vísast því að mestu til þess sem ég sagði þá. Með frv. þessu er lagt til, að þinglýsingargjaldið verði lagt niður í núverandi mynd og sameinað stimpilgjaldinu. Í stað núverandi þinglýsingargjalds er lagt til að dómsmrh. ákveði með reglugerð fast gjald fyrir hverja þinglýsingu og yrði sú gjaldtaka óháð fjárhæð þess skjals sem þinglýst er, eins og áður sagði. Þannig yrði þinglýsingargjaldið nokkurs konar þjónustugjald fyrir framkvæmd þinglýsingar, hliðstætt t. d. gjaldi fyrir veðbókarvottorð.

Ég leyfi mér, virðulegi forseti, að leggja til að frv. þessu verði vísað til 2. umr. og hv. fjh- og viðskn.