19.04.1978
Neðri deild: 79. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3649 í B-deild Alþingistíðinda. (2829)

152. mál, þinglýsingalög

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson) :

Virðulegi forseti. Þetta frv., sem hér er lagt fram um þinglýsingar, varðar mjög mikilvægt mál. Það er allumfangsmikill lagabálkur og hefur að geyma mörg nýmæli. Frv. hefur þegar verið til meðferðar í hv. Ed. og hefur verið samþykkt þar með þeirri breytingu einni, að inn í það hafa verið tekin ákvæði um þinglýsingar á bifreiðum, en þau ákvæði voru ekki í frv. þegar það var lagt fram, vegna þess að rétt þótti að láta reyna á það til þrautar, áður en þau ákvæði væru sett, hvort fengjust settar nýjar reglur um skráningu bifreiða. Virðist ekki vera þingvilji til slíks, og þess vegna voru í hv. Ed. felld inn í frv.-bálkinn ákvæði um þinglýsingu bifreiða. Að öðru leyti var frv. afgreitt í hv. Ed. óbreytt.

Sjálfsagt væri viðeigandi að halda alllanga ræðu um þetta mál, því að eins og ég sagði er hér um mjög mikilvægt mál að ræða, en ég skal reyna að hafa þessi orð ekki mjög mörg, en vísa þess í stað til þeirra rækilegu aths. sem frv. fylgja.

Að sjálfsögðu hefur mönnum verið lengi ljóst að þörf væri á lagasetningu um þinglýsingar. Gildandi löggjöf um það efni hefur alltaf verið ófullkomin að því leyti til, að hún hefur fyrst og fremst aðeins varðað framkvæmd þinglýsingar, en hins vegar hefur hún ekki geymt að kalla má nein ákvæði um réttaráhrif þinglýsingar. En þau ákvæði um framkvæmd þinglýsingar, sem finna má í lögum, eru fyrir löngu orðin úrelt og ófullkomin. Það var þess vegna fyrir u. þ. b. 20 árum efnt til athugunar á þessari löggjöf og samið frv. um það efni. Það var lagt fyrir Alþ. einum þrisvar sinnum, síðast að ég ætla árið 1964, en það frv. hlaut ekki byr og munu ýmsar ástæður hafa legið til þess. Við samningu þess frv., sem nú liggur fyrir, hefur að sjálfsögðu verið stuðst að ýmsu leyti við gamla frv., en þó er þetta nýja frv. mjög frábrugðið að ýmsu leyti. Frv. hefur samið dr. Gaukur Jörundsson prófessor og notið aðstoðar tveggja starfsmanna í dómsmrn., þeirra Þorleifs Pálssonar deildarstjóra og Þorsteins A. Jónssonar fulltrúa. Þetta frv., ef að lögum verður, felur í sér gagngera breytingu á framkvæmd þinglýsingar. Enn fremur er í frv. að finna ákvæði um réttaráhrif þinglýsingar, en slík ákvæði hefur hingað til að mestu vantað í íslenska löggjöf, eins og ég gat um áður.

Þetta nýja frv. til þinglýsingalaga miðar að því, eins og fram kemur í aths., að á hverjum tíma sé unnt að fá sem greiðastar og öruggastar upplýsingar um réttindi yfir fasteignum og öðrum eignum sem jafna má til fasteigna, svo og að reglur um réttaráhrif séu sem skýrastar. Eins og ég gat um í upphafi hefur alllengi verið ljóst að fyrirkomulag það á skráningu réttinda yfir fasteignum, sem gert er ráð fyrir í núgildandi löggjöf, svarar hvergi nærri kröfum tímans. Í fyrsta lagi skiptir það nú mun meira máli en áður, að þinglýst réttindi séu nægilega afmörkuð og skýr og styðjist að auki við réttarheimildir að lögum. Samkv. núgildandi þinglýsingalögum lýtur athugun þinglýsingardómara á skjali nær einvörðungu að því að kanna hvort á því séu einhverjir formgallar. Þetta getur aftur á móti leitt til mikillar réttaróvissu. Því er að finna í frv. ákvæði sem leggja þinglýsingardómara þær skyldur á herðar að kanna betur en nú er gert efni skjals áður en því er þinglýst.

Að því er varðar framkvæmd þinglýsingar, þá er gert ráð fyrir því í þessu frv., að tekin sé upp ný skipun í því efni, því að framkvæmdin er í rauninni löngu orðin úrelt, eins og ég drap á, og má raunar telja það mikið happ, að ekki skuli hafa átt sér stað mikil og alvarleg mistök í sambandi við framkvæmd þeirra mála.

Ég skal þá aðeins víkja örfáum orðum að einstökum atriðum í frv.:

I. kafli frv. fjallar um þinglýsingardómara. Þar með er staðfest sú niðurstaða hæstaréttar, að þinglýsing sé dómsathöfn, en engin ákvæði um það efni er að finna í núgildandi þinglýsingalögum og í sjálfu sér er engan veginn sjálfgefið samkv. eðli málsins að þinglýsingarathöfn eigi að vera dómsathöfn. En hér er alveg úr því skorið og því slegið föstu í samræmi við téðan hæstaréttardóm að svo skuli vera.

Í II. kafla frv. er vikið að framkvæmd þinglýsinga. Þar er gert ráð fyrir að teknar verði upp breyttar aðferðir bæði við skráningu og vörslu skjala. Í fyrsta lagi er lagt til að skjöl, sem afhent eru til þinglýsingar, séu færð í sérstaka dagbók. Réttaráhrif þinglýsingar eru tengd afhendingu skjals til þinglýsingar og er því þýðingarmikið að sem öruggust sönnun liggi fyrir um það, hvort skjal hafi yfirleitt veríð afhent til þinglýsingar og þá hvenær það hafi gerst. Við móttöku skjals í upphafi er gert ráð fyrir því, að dómari þurfi aðeins að kanna hvort tilteknir augljósir gallar séu á skjali. Þegar skjöl hafa verið færð í dagbók gefst svo ráðrúm til nánari athugunar áður en þau eru færð í þinglýsingabók. Þessi tilhögun eykur mun meira öryggi við þinglýsingu en sú sem nú tíðkast.

Dagbókarfærsla hefur lengi tíðkast í nágrannalöndum okkar, en aftur á móti ekki hér á landi. Hætt er við því, að þinglýsing verði nokkurn tímafrekari með því móti að færa dagbók, en á móti kemur að ætlast er til þess, að dagbók geti jafnframt gegn hlutverki aukatekjubókar og komið í stað skrár yfir þinglýst skjöl, sem leggja á nú fram í hverri viku hjá þeim embættum sem þinglýsingu annast. Þegar á þetta er litið ætti dagbókarfærsla ekki að leiða til aukinnar vinnu.

Í öðru lagi er lagt til að þinglýsingabækur skuli vera laushlaðabækur eða í spjaldskrárformi. Með þessu móti ættu bækurnar að vera handhægari í notkun en nú er og færsla upplýsinga gleggri. Stefnt er að því, að ljósrit úr slíkri bók eða spjaldskrá verði fullnægjandi veðbókarvottorð. Þar með yrði komist hjá því að rita veðbókarvottorð hverju sinni, en það verk er mjög tímafrekt og auk þess hætta á að misritun geti átt sér stað. En auðvitað er mjög mikilvægt í þessu sambandi, að þar skeiki engu.

Nái frv. það, sem hér er lagt fram, fram að ganga er óhjákvæmilegt að færa upplýsingar úr núverandi fasteignaregistri inn á laus blöð eða spjöld, eftir því hvor kosturinn yrði fyrir valinu. Slíkt útheimtir að sönnu bæði fé og fyrirhöfn, en á aftur á móti að leiða til meira réttaröryggis. Það verður að viðurkenna, eins og áður er sagt, að núverandi framkvæmd á skráningu þinglýstra réttinda er löngu orðin úrelt og felur í sér hættu á réttaróvissu á þessu sviði. Möguleiki er á því, að skráning skjala, sem afhent eru til þinglýsingar, dragist — má vera, að einhverjir þekki það — eða það farist hreinlega fyrir, þannig að gefin séu út hrein veðbókarvottorð. Mistök af því tagi geta bakað ríkissjóði skyldu til greiðslu skaðabóta er hugsanlega geta skipt milljónum króna hverju sinni. Þó úrbætur á núverandi skráningarkerfi kosti nokkurt fé geta þær því sparað mun hærri fjárhæðir þegar til lengdar lætur.

Rétt er að geta þess, að sérstaklega hefur verið athugað við samningu þessa frv., hvort leyft sé að taka upp tölvuskráningu á upplýsingum úr þinglýsingabókum. Sú athugun hefur leitt í ljós að ekki séu skilyrði til þess að taka upp slíka skráningu í tölvu, en hins vegar er veitt heimild til þess í frv. Sú endurskráning, sem ég vék að hér á undan, er óhjákvæmilegur undanfari þess. að tekin verði upp tölvuskráning. Það er því ekki um neinn tvíverknað að ræða, þótt upplýsingar úr fasteignaregistri séu fyrst skráðar inn á taus blöð eða spjöld og þær síðan lesnar inn í tölvu.

Núverandi fasteignaregistur eru þess eðlis, að upplýsingar úr þeim ern alls ekki tölvutækar.

Fella þarf burt ýmis eldri réttindi sem fallin eru niður einhverra hluta vegna svo og er nauðsynlegt að skera úr fjölda ágreiningsefna sem núgildandi þinglýsingalög hafa ekki gert ráð fyrir að gert sé. Nútíma tölvutækni gerir kleift að safna saman á einn stað öllum upplýsingum sem máli skipta um fasteignir. Mætti með því móti fá með skjótum og öruggum hætti upplýsingar um einstakar fasteignir úr slíkum upplýsingahanka. Vísi að tölvuskráðum upplýsingum um fasteignir er að finna hjá Fasteignamati ríkisins, þótt í takmörkuðum mæli sé. Álitamál er hins vegar hvernig slíkri skráningu skuli háttað. Meðal þess, sem kanna þarf í því sambandi, eru tengsl þinglýsingar við aðra gagna- og upplýsingaöflun um fasteignir. Er gert ráð fyrir því í þessu frv., að dómsmrh. geti ákveðið að hafa þennan hátt á ef afráðið verður að taka upp tölvuskráningu þinglýstra réttinda.

Þá er í þriðja lagi lagt til að horfið sé frá því skipulagi á geymslu þinglýstra skjala sem nú tíðkast. Það er, eins og kunnugt er, fólgið í því, að skjölin eru bundin inn í sérstakar bækur sem eru allfyrirferðarmiklar og því heldur óhandhægar í notkun, eins og e. t. v. einhverjir hv. dm. hafa séð. Í stað þessara bóka er gert ráð fyrir að tekin verði upp sérstök skjalahylki svo búin að nema megi skjöl úr hylkinu þegar þeim er aflýst eða þau missa þinglýsingargildi sitt að öðru leyti. Í tengslum við þessa breytingu er veitt heimild til þess í frv., að sérstakri tækni verði beitt við vörslu skjala, t. d. með því að taka myndir af þinglýstum skjölum á svonefndar mikrofilmur.

Samkv. núgildandi lögum er nauðsynlegt að vélrita upp afsal og öll skjöl varðandi skip 5 rúmlestir eða stærri sem flytjast á milli umdæma. Samkv. 42. gr. frv. er horfið frá þessu þar sem lagt er til að skjöl, sem skip varða, skuli fylgja skipinu, ef svo má að orði komast. Þessi eina breyting ætti að hafa í för með sér umtalsverðan vinnusparnað í þeim umdæmum þar sem eitthvað kveður að flutningum á skipum til annarra umdæma. Það má segja að í þessu sambandi skipti nokkru máli það frv. sem hæstv. fjmrh. mælti fyrir áðan — að ég ætla — varðandi stimpilgjald, þar sem af þeim hætti, sem þar er gert ráð fyrir að verði tekinn upp varðandi stimpilgjöld, leiðir líka nokkra hagræðingu varðandi þinglýsingu.

Þó að ég hafi nú minnst nokkuð á framkvæmd þinglýsingar, þá er það auðvitað svo, að meginefni þessa frv. er um réttaráhrif þinglýsingar og önnur atriði sem þar að lúta.

III. kafli frv. hefur að geyma reglur um forgangsáhrif þinglýsingar og gildi grandleysis. Lagt er til að forgangsáhrif þinglýsingar séu áfram talin frá því þegar skjal er afhent dómara til þinglýsingar. Aftur á móti er ekki gerður munur á forgangsrétti skjala sem afhent eru sama dag, eins og gert er í núgildandi þinglýsingalögum. Svo nákvæm regla getur leitt til óeðlilegrar niðurstöðu þar sem oft og einatt er ekki gengið frá þinglýsingunni fyrr en á lok hvers afgreiðsludags.

Í frv. er tekin afstaða til þess, hvernig fari um rétt skjalsins gagnvart öðrum skjölum, sem afhent eru síðar til þinglýsingar, og hvernig fari um bótakröfu þess, sem hallað er á, sbr. 49. gr. frv. Samkv. því ákvæði getur ríkissjóður orðið bótaskyldur þegar um er að ræða mistök í þinglýsingu, þótt ekki sé við hlutaðeigandi þinglýsingardómara að sakast. Slík hlutlæg bótaregla ætti að efla traust manna á þinglýstum skjölum.

Í IV.–VII. kafla frv. er svo fjallað um þinglýsingaréttindi yfir fasteignum, skipum og lausafé almennt. Frv. nær hins vegar ekki til loftfara þar sem um skrásetningu réttinda í loftförum gilda tiltölulega nýleg lög sem ekki hefur þótt ástæða til að hrófla við. Á hinn bóginn tekur þetta frv. eftir þá breytingu, sem á því var gerð í hv. Ed., til bifreiða einnig.

Í 20.–26. gr. frv. er að finna nokkur nýmæli að því er varðar skilyrði þess, að skjall verði þinglýst. Ekki er ástæða til að lýsa þeim hér, heldur vísast í því efni sem og öðrum til grg. þeirrar eða aths. sem frv. fylgja. Þó má benda á ákvæði 2. mgr. 20. gr. frv. þar sem þinglýsingardómara er veitt heimild til þess að gera það að skilyrði fyrir þinglýsingu, að gildur uppdráttur af lóð eða landi fylgi skjali. Tilgangurinn með þessu ákvæði er sá, að jafnan sé ljóst hver og hvar sú fasteign er sem þinglýsingu varðar, eða með heldur andkannalegu orðalagi má segja: hver sé staðsetning fasteigna, sem hin þinglýstu réttindi varða.

Í 29.–32. gr. frv. er skorið úr um það, hvaða réttindi yfir fasteign séu háð þinglýsingu og hverra aðgerða sé þörf svo að eldri þinglýstum rétti sé rutt úr vegi. Þessi ákvæði staðfesta að meginstefnu til þær reglur sem talið er að gilt hafi þótt óskráðar hafi verið. Þó er áskilið í 32. gr. frv. að réttindi, sem styðjast við eignarnámsgerð eða hefð, séu háð þinglýsingu, en þess hefur ekki verið krafist til þessa.

Í 33. og 34. gr. frv. er að finna ákvæði um réttaráhrif þinglýsingar. Ákvæði 33. gr. eru algert nýmæli. Samkv. því á sá maður, sem hlýtur réttindi með samningi við þinglýstan eiganda að eign, ekki að sæta þeirri mótbáru, að heimild fyrri eiganda sé ógild, ef hann — þ. e. a. s. síðari eigandinn — er algerlega grandlaus um ógildistilvikið. Þetta gildir þó ekki ef ógildingarástæðan er lögræðisskortur útgefanda, fölsun eða meiri háttar nauðung.

Samkv. eðli málsins veitir þinglýsing sumra skjala aðeins tímabundin réttindi. Æskilegt er að hafa ákvæði um það efni í þinglýsingalögunum, svo að ekki þurfi að setja sérstök lög hverju sinni um útstrikun þeirra skjala — eða aflýsingu væri réttara að segja — sem lokið hafa hlutverki sínu, svo sem nokkrum sinnum hefur verið gert á undanförnum áratugum. Í 35.–38. gr. frv. er ákvæði að finna er að þessu atriði lúta.

Um frekari skýringar á þessu frv. vísast svo að öðru leyti, eins og ég hef áður sagt, til aths., sem fylgja frv. og eru mjög ítarlegar.

Ég leyfi mér að vonast til þess, að þetta frv. og fylgifrv. þess fái afgreiðslu á þessu þingi. Það hefur þegar hlotið rækilega athugun í hv. Ed. Enginn vafi er á því, að samþykkt þess, horfir til aukins réttaröryggis í þessum efnum og miðar að því að eyða ýmissi réttaróvissu sem upp getur komið. Í annan stað miðar sú nýja framkvæmd, sem gert er ráð fyrir að upp verði tekin í sambandi við þinglýsingar, að því að minnka vinnuálag á þeim mönnum sem þessum störfum sinna nú.

Ég leyfi mér að óska þess, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.

Með þessu frv. fylgja nokkur fylgifrv., þ. e. a. s. frv. um breytingu á jarðalögum, í öðru lagi frv. um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, í þriðja lagi frv. um bæjanöfn, í fjórða lagi frv. um kyrrsetningu og lögbann, í fimmta lagi um landskipti, í sjötta lagi um nauðasamninga, í sjöunda lagi um landamerki og loks um aðför og að allra síðustu um lögtak og fjárnám. Þetta eru 9 frv. alls. Í þeim eru engin ákvæði önnur en þau sem leiðir beinlínis og óhjákvæmilega af samþykkt þessa þinglýsingalagafrv. Ég sé ekki ástæðu til þess, herra forseti, ef það telst leyfileg málsmeðferð, að ég standi upp við hvert af þessum málum hér á eftir, heldur óska þess í eitt skipti fyrir öll, ef það er leyfilegt, að sami háttur verði hafður á um þau eins og um aðalfrv., að þeim verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og síðan til hv. allshn. Ég veit ekki hvort hæstv. forseti telur þetta þinglegt, en ég legg það á hans vald.